Sverðið í steininum

Ég ætla ekki að efna vanhugsað loforð mitt um að skrifa um bíómynd Terry Gilliam um Münchhausen barón. Því miður reyndist sú mynd sama bragðvonda kássan og mig minnti og hvers vegna ætti einn best menntaði bókmenntafræðingur Íslands að eyða tíma sínum í einhver leiðindi? Á hinn bóginn stenst ég alls ekki freistinguna að ræða aftur um Excalibur John Boorman sem ég sá um daginn í fjórða sinn. Fyrst sá ég þessa mynd í Austurbæjarbíói rétt ókominn á gelgjuskeið og hún kom mér talsvert á óvart og hafði sín áhrif þó að mér félli hún ekki beinlínis í geð á þeim tíma. Myndin var nefnilega ekki fyrstu kynni mín af Artúrssögninni; það var Prins Valíant. Fyrir utan að kynna mér aðra Artúrssögu en ég þekkti var hún líka talsvert fullorðins; lengi eftir fyrsta áhorf þótti mér hún æði perraleg og mundi einna best eftir hinum þó nokkru nektarsenum og krípí hlæjandi stráknum með gylltu grímuna. Á þeim tíma vissi ég auðvitað alls ekki að John Boorman hefði lengi reynt að fá þessa mynd fjármagnaða og m.a. tekið að sér að gera Hringadróttinssögu Tolkiens. Engum blöðum er um það að fletta að sú aðlögun hefði orðið jafnvel enn skrítnari en sovéska sjónvarpsgerðin, alls ekki við minn tólf ára smekk en hugsanlega heillandi núna. Löngu síðar bar Excalibur svo á góma í íslenskunni þegar Ásdís fræddi okkur um að hún væri byggð á Morte d’Arthur eftir Thomas Malory, Artúrssögn 15. aldar, sem skýrði vitaskuld hvers vegna þetta var ekki sá Artúr sem ég átti von á, en þetta mikilvæga atriði hafði alveg farið fyrir ofan garð og neðan í kynningu myndarinnar á Íslandi á sínum tíma og mér tólf ára í Austurbæjarbíói. Rúmum áratug síðar rann þannig upp fyrir mér að hugsanlega hefði Boorman verið trúr Malory þó að hann sýndi mér ekki þann Artúr sem ég vildi sjá.

Víkur nú sögu fram til rúmlega 2000 þegar ég sá myndina í annað sinn, núna í hópi félaga úr íslenskunni sem áttu sumir raunar frekar erfitt með hana ef ég man rétt. Það sem ég tók þá glöggt eftir var hve Nicol Williamson leikur Merlín á sérstæðan og skondinn hátt og eftir tvö áhorf enn finnst mér hann vinna leiksigur í þessu hlutverki, nær að gera Merlín skemmtilega á skjön við mannfólkið, ísmeygilegan, hættulegan og eiginlega til alls vísan. Eins kunni ég í annað sinn vel að meta Helen Mirren sem lék Morgönu, hálfsystur Artúrs, en hún var mér ókunn þegar ég sá myndina í fyrsta sinn vorið 1983. Flestir leikarar myndarinnar voru raunar lítt þekktir upp úr 1980 en það átti sannarlega eftir að breytast. Þess vegna áttaði ég mig ekki fyrr en um 2000 á að þarna kæmu saman Liam Neeson, Patrick Stewart, Gabriel Byrne, Corin Redgrave og Clive Swift (úr Sókn í stöðutákn) en þeir eru hver öðrum betri í myndinni. Á hinn bóginn hafði ég lengi þekkt Nigel Terry, Paul Geoffrey (sem lést um daginn) og Cherie Lunghi sem leikarana úr Excalibur. Það var svo ekki fyrr en um daginn að ég var nógu nýbúinn að hlusta á Götterdämmerung og áttaði mig í fyrsta sinn á því hve mikið útfararmars Siegfrieds er notaður í Excalibur (sem skýrir eflaust hvers vegna mér fannst þessi mars alltaf vera kvikmyndatónlist), talsvert meira en Carmina burana sem ég bar auðvitað kennsl á strax í áhorfi 2 (Wagner hefur reynst mér seinteknari en Orff).

Það var sem sagt fyrst í annað sinn sem ég sá Excalibur að ég fór að meta 15. aldar stemminguna í myndinni, enn frekar í þriðja sinn og núna um daginn fannst mér myndin ekki einu sinni ruglingsleg á köflum eða óþarflega löng, auðvitað búinn að skrifa heila bók um konungsvald síðan í Austurbæjarbíói forðum og aðra um galdra, lesa ljóðið The Wasteland eftir Eliot og Parsifals sögu frá 13. öld. Í fyrsta sinn fannst mér atriðið sem Úþer beitir göldrum til að komast yfir Igraine aðallega ógeðslegt sem það er vitaskuld en líka magnað, ekki síst þegar Williamson fer ítrekað með keltnesku galdraþuluna sína: Anal nathrach, orth' bhais's bethad, do che'l de'nmha, að því er virðist staddur við Stonehenge. Ógeðslegt eða ekki, þá færist ég æ nær þeirri skoðun að John Boorman sé e.t.v. sá kvikmyndagerðarmaður 20. aldar sem best skildi miðaldir og galdra og get jafnvel fyrirgefið honum að hafa troðið furðulega útlítandi börnum sínum í allar sínar myndir.

Eins og iðulega í miðaldaverkum þættir Malory saman ýmsar sagnir um Artúr og býr þannig til gerð þar sem sverð Artúrs er bæði fengin frá konu í vatni og dregið úr steini. Eðli málsins samkvæmt skiptir sverðið miklu máli í kvikmyndinni og einnig í fleiri Artúrsaðlögunum 20. aldar. Síðan ég sá Nigel Terry draga sverðið úr steininum í fyrsta sinn í myrkvuðu Austurbæjarbíói forðum hef ég líka lesið heilan bókaflokk hins enska T.H. White (1906–1964) um Artúrssögnina sem er ívið nútímalegri, persónulegri og djarfari í túlkun sinni en Boorman og sú túlkun ekki síður perraleg en mér fannst Excalibur vera á sínum tíma þegar ég var 12 ára gamall og finnst kannski enn en lít ekki lengur á það sem vandamál. Sverðið leikur þar líka lykilhlutverk og Artúr og Merlín reynast eiga sér lengri sögu saman en hjá Boorman. Úr þeirri sögu gerði Disney síðar kvikmynd og í henni birtist fyrst nornin Madam Mim sem síðan varð regluleg persóna í Andrésblöðunum sem ég ólst upp við, vitandi ekkert um tengsl hennar við Artúr konung.

Previous
Previous

Besti byr síma?

Next
Next

Miðbaugur blóðsins