Miðbaugur blóðsins

Um daginn andaðist bandaríski höfundurinn Cormac McCarthy sem var mikilsvirtur þar vestra og fékk að lokum Pulitzer-verðlaun á gamals aldri en það tók bókmenntastofnunina raunar nokkurn tíma að gera sér fulla grein fyrir snilld hans þannig að hann naut einkum frægðar á efri árum. Ég eltist ekki við verk McCarthy fremur en bandarískar bókmenntir yfirleitt en mælt var með honum við mig fyrir tíu árum og þá las ég Blood Meridian, or Evening Redness in the West (1985) sem e.t.v. er besta verk hans og sannarlega er hún magnþrunginn texti, ekki síst greinarmerkjalítill ritstíllinn og sérstæð flæðandi setningagerð sem kallar eiginlega á að bókin sé lesin upp og einkennir McCarthy. Annað einkenni höfundarins er hrátt ofbeldi og Blood Meridian er sannarlega hrikaleg að því leyti. Þess vegna er hún eitt eftirminnilegasta verk sem ég hef lesið en jafnframt er ekki víst að ég leggi í að lesa fleiri bækur McCarthy.

Helsta óvætturin í bókinni er Holden dómari, risavaxið og hárlaust illmenni sem haldinn er botnlausum blóðþorsta og barnagirnd, líkari djöfli en manni. Holden er ekki sköpunarverk McCarthy heldur sóttur í sjálfsævisögu Samuels Chamberlain sem ferðaðist mikið um landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó um miðbik 19. aldar (og ef hrottaskapur setur svip sinn á þær slóðir nú á dögum var það ekki skárra þá) þó að því verði varla trúað að svona ómenni hafi leikið lausum hala (hans er ekki getið í öðrum heimildum) enda var Chamberlain grunaður um ýkjur og hafa margir bókmenntamenn lýst Holden dómara skelfilegustu bókmenntapersónu sögunnar. Holden er ekki síst hræðilegur vegna þess að honum er þar að auki margt til lista lagt. Hann hefur þó ýmsa hæfileika á sviði tónlistar, tungumála og málsnilldar og er þeim mun skelfilegri fyrir vikið. Í bókinni er Holden holdgervingur þess hrikalega ofbeldissamfélags sem lýst er og snýst í stórum dráttum um rasíska kúgun hvítra innflytjenda á frumbyggjum Vesturheims og öllum öðrum utan hópsins. Í sögunni er illskan sem sagt alls ekki aumkunarverð heldur sterk og ægileg.

Vegurinn mun vera eina skáldsaga McCarthys sem þýdd hefur verið á íslensku af Rúnari Helga Vignissyni en hana hef ég ekki lesið enda lýsti einn vinur minn henni sem „mest niðurdrepandi skáldsögu sem hann hefur lesið“ og það hvatti mig ekki til dáða. Glöggt má sjá að McCarthy leggur sig ekki fram að vera notalegur við lesendur sína. Hann hélt áfram að skrifa fram til æviloka og gaf m.a. út tvær skáldsögur í fyrra!

Previous
Previous

Sverðið í steininum

Next
Next

Utangarðsmaðurinn