Utangarðsmaðurinn
Í nóvember 1918 önduðust tveir fyrstu Íslendingarnir sem gerðu ritstörf að aðalstarfi sínu, Torfhildur Hólm og Jón Trausti. Í fótspor þeirra fetuðu svo seinni atvinnurithöfundar eins og Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness. Jón Trausti var höfundarnafn Guðmundar Magnússonar sem notaði m.a. höfundarnafn vegna þess að honum fannst ólíklegt að hann nyti virðingar sem hann sjálfur. Kannski finnst öllum listamönnum að þeir séu utangarðs, iðja þeirra er einmanaleg og skilningur eðli málsins samkvæmt takmarkaður. Guðmundur var sveitamaður, ekki alinn upp hjá foreldrum sínum og vann fyrir sér frá tíu ára aldri. Síðar lærði hann prentiðnina en hugur hans stóð til skáldskaparins.
Nýlega var mér fært Ritsafn Jóns Trausta fagurlega innbundið í átta bindum. Slík ritsöfn helstu höfunda 20. aldar sjást víða á gjafaborðum eða Góða hirðinum en ég gat ekki neitað og í kjölfarið endurlas ég Önnu frá Stóruborg en las Höllu og Heiðarbýlið í fyrsta sinn. Ég get ekki sagt að ég telji Jón Trausta jafngóðan og Halldór Laxness að þeim lestri loknum en ég skil hvers vegna Halldór dáðist að honum og lærði af honum. Til dæmis einkennist hin ágæta saga um Höllu af því að höfundurinn matar lesendur með skeið á því hvað þeim eigi að finnast. Einn vandi við að skrifa er að sumir lesendur lesa of hratt og missa af öllu. Okkur langar samt öll að skrifa fyrir góða lesandann sem þarf ekki að stafa allt ofan í. Jón Trausti sýndi honum ekki mikið traust í Höllu en þetta er samt áhrifamikil saga, hin íslenska The Scarlet Letter.
Heiðarbýlið fór betur í mig enda full af skemmtilegu mannlífi sem minnir stundum ekki lítið á Dalalíf eða Tengdadótturina. Jón Trausti nýtur sín í slíkum hópsögum eða „kollektivorman“. Þegar ég sneri aftur að Önnu frá Stóruborg tók ég í fyrsta sinn eftir því að Hjalti er aðeins fimmtán ára þegar Anna skipar honum beinlínis upp í rúm til sín. Stundum er eins gott að fólk les ekki gamlar bækur lengur og þarf því að ekki að hneykslast á þeim. Jón Trausti er ekki jafn orðmargur í þessari sögu og þeim fyrri, e.t.v. fyrir áhrifum frá fornsögunum en kannski er þróun skáldsins forboði um knappari stíl í íslenskum bókmenntum.
Nýlega hefur verið haldið málþing um Jón Trausta og bók um skáldskap hans er í smíðum. Sem betur fer er bókmenntalífið á landinu nógu öflugt til að tiltölulega gleymdir höfundar fá stundum annað tækifæri. Ef lesendur sjá Ritsafn Jóns Trausta gefins eða ódýrt þar sem fólk losar sig við bækur ættu þeir að taka það traustataki og kynnast þessu merkilega skáldi okkar eða endurnýja kynnin við það.