Minningar um hollensk dulmálsbréf
Þegar ég var barn var Jan Terlouw einn af stærstu barnabókahöfundum landsins en bækur hans voru þó aldrei á mínum óskalistum vegna þess að ég óttaðist að þær væru of myrkar og óhugnanlegar. Aðeins eina átti ég og mig minnir að hún hafi verið gjöf frá ættingja sem þekkti mig ekki vel. Sú bók hét Barist til sigurs og fyrst fannst mér hún ansi óhugnanleg líka en að lokum heillaðist ég af henni. Upphaflegt heiti hennar var Koning van Katoren og hún kom út á frummálinu árið 1971, sama ár og Jan Terlouw var kosin á þing í Hollandi fyrir umbótaflokkinn D66 sem var eins konar framsóknarviðreisnarpírataflokkur á miðjunni. Ef ég man rétt var flokkurinn mjög hlynntur evrópskri samvinnu og einstaklingshyggju. Terlouw undi sér vel þar og varð ráðherra árið 1981 eftir að hafa verið flokksleiðtogi um hríð. Eftir kosningaósigur árið 1982 hætti hann í pólitík en hefur þó áfram skipt sér mikið af opinberri umræðu. Meðal sögupersóna í Barist til sigurs eru sex ráðherrar sem eru ágætis skrípamynd af stjórnmálamönnum. Á frummálinu heita þeir de Seer, Regtoe, Walsen, Broeder, Pardoes og Zuiver, ég get þessa einkum fyrir þá vini mína sem kunna flæmsku og skilja djókinn.
Á þessum árum var ég í Langholtsskóla í bekk hjá Guðrúnu Svövu sem var bæði mjög góður kennari og mikill agameistari. Stundum var lesið úr barnabókum fyrir bekkinn í kaffitímum og sumum bókum kynntist ég þannig eingöngu, m.a. Dulmálsbréfinu eftir Terlouw sem ég hlýt samt að hafa tekið síðar á bókasafni og lesið því að ég las allar bækur oft á þessum árum. Þetta var spennandi saga sem gekk út á njósnara sem dulbjó sig sem kvenkyns forfallakennara og blekkti hinar ungu söguhetjur. Ég man líka eftir að stelpurnar voru hugrakkari en strákurinn en hann var aftur á móti hittinn sem kom sér vel þegar hátindi sögunnar var náð.
Ég stóðst því ekki mátið og horfði um daginn á sjö þátta sjónvarpsþáttaröð eftir bókinni sem heitir á frummálinu Briefgeheim og var gerð árið 1983. Þar er talað tungumál sem ég skil ekki allan tímann en þó af germönsku málaættinni og þar að auki mundi ég söguna frá því í gamla daga og þess vegna komst ég í gegnum allar þessar 160 mínútur á máli sem ég ekki kann sem eru í sjö þátta barnasjónvarpsspennusögu. Síðar hefur verið gerð kvikmynd eftir bókinni en mig langaði ekki til að sjá vegna þess að upp úr 1980 fylgdu sjónvarpsmenn bókunum betur og þar að auki voru krakkarnir sem léku í myndinni af minni kynslóð og í fötum sem rifjuðu upp fortíð mína.