Sjórán, hamskipti og tímaflakk í horfnum kvikmyndahúsum

Á 9. áratugnum var ég handgenginn ævintýramyndum sem reyndist góður undirbúningur undir miðaldanám síðar. Eins hafði fjölskyldan uppgötvað Monty Python og félagar hópsins gátu dregið mann í bíó á ýmsar myndir sem ollu síðan vonbrigðum með því að vera ekkert líkar hinum upphaflegu þáttum. Það átti m.a. við um myndina Yellowbeard (1983) sem féll okkur ekkert sérstaklega í geð á sínum tíma en einmitt þess vegna hef ég aldrei séð hana aftur fyrr en um daginn að löngunin varð of mikil. Í henni léku m.a. James Mason, Michael Hordern, Peter Cook og Marty Feldman, enskir leikarar sem alltaf gera gott úr minnsta hlutverki. Feldman dó raunar á meðan tökum stóð, aðeins 48 ára, sem e.t.v. skýrir snubbóttan endi hans persónu sem er áberandi í fyrri hluta myndarinnar. Graham Chapman dó líka á 49. ári og hafði þá lengi drukkið eins og svampur sem skýrir kannski frammistöðu hans í þessari mynd. Húmorinn er annars sæmilega léttur og er úr smiðju Peters Cook fremur en Monty Python manna. Fyrir utan nauðgunarbrandarana sem voru vandræðilegir þá og eru það enn; aðalpersónan Yellowbeard sjóraufari er semsé mjög handgenginn nauðgunum og fá ýmsar kvenkyns aukapersónur að kenna á því. Sem þýðir auðvitað ekki að handritshöfundar séu það líka því að við verðum að gera ráð fyrir írónískri fjarlægð (í myndinni er mikið ofbeldi, pyntingar o.fl. og þeir eru væntanlega ekki hlynntir neinu af því) en þetta er samt allt fremur óyndislegt og fyrir vikið er Yellowbeard ekki sympatískur, eiginlega fremur óskemmtilegur geðsjúklingur og löngun sonar hans (leikinn af Martin Hewitt sem þótti mjög efnilegur í 2-3 ár en hvarf skömmu síðar úr bíómyndum og vinnur nú við eitthvað allt annað) til að eignast föðurímynd er ekkert sem hægt er að tengja við. Peter Cook og Michael Hordern eru hins vegar krúttlegir hvor í sínu aukahlutverki og það er alltaf gaman að hlusta á James Mason tala (eins og ég hef áður skrifað heilan pistil um). Cheech og Chong þóttu aldrei fyndnir á mínu heimili og ég næ enn engu sambandi við þá. Hin frábæra Madeline Kahn er í myndinni en er ekkert nýtt neitt sérstaklega vel; annars er fátt um kvenpersónur (fyrir utan auðvitað Önnu drottningu sem er þó leikin af karlkyns leikara).

Á sama stað fann ég líka Tímaflakkarana (1981), mynd sem ég sá í Tónabíó ellefu ára og fannst þá frekar hræðileg en fyndin. Henni lýkur m.a. á að foreldrar aðalpersónunnar leysast upp í reyk sem voru óhugnanleg endalok fyrir dreng eins og mig sem dýrkaði foreldra sína sem guði. Foreldrarnir í myndinni voru raunar fremur leiðinlegt fólk (ólíkt mínum) en í henni kynnist drengurinn líka Sean Connery í hlutverki Agamemnons Mýkenukonungs sem Brian Cox oflék stórkostlega sem illmenni í annarri bíómynd en fær hér góða pressu og langar strákinn skiljanlega miklu fremur til að vera sonur hans en er rænt áður en til þess kemur. Annars eru hetjur mannkynssögunnar sem birtast í myndinni, Napóleón og Hrói höttur, leiðindaskarfar og ég hafði engan húmor fyrir því ellefu ára en heldur meiri núna. Fremur sérkennilegt má teljast í mynd með dvergum í aðalhlutverki að sjálfur Napóleón sé svona upptekinn af því hve smávaxinn hann sé (sem hann var reyndar alls ekki í raun heldur hávaxinn meðalmaður). Þá var ég hræddur við hinn djöfullega Evil sem David Warner leikur í myndinni en er kveðinn í kútinn af „guði úr vélinni“. Gildi myndarinnar 40 árum síðar liggur ekki síst í aðalpersónunum sem eru leiknir af sex dvergaleikurum, m.a. Kenny Baker úr Star Wars (lægstur af dvergunum, 112 sm) og Mike Edmonds úr myndbandinu við Safety Dance (hæsti dvergurinn, 132 sm). Leiðtogi dverganna er leikinn af David Rappaport sem því miður framdi sjálfsmorð aðeins 38 ára að aldri. Þeir standa sig allir vel og myndin er þess virði að horfa á aðeins þeirra vegna. Þeir sem síðar gerðu Hobbitann misstu alveg af tækifærinu að nota góða dvergaleikara og létu síðan persónur dverganna nánast hverfa vegna þess hve uppteknir þeir voru af sínum eigin slöppu gerviplottum sem þeim sjálfum en engum öðrum þóttu betri en bókin.

Síðan í Tónabíó vorið 1982 er ég ekki lengur hræddur við myndina og fannst hún allgóð um daginn. Hún auðvitað minnir ekkert á Monty Python stemminguna almennt heldur aðeins Terry Gilliam sem er einkennilegur súrrealískur kvikmyndagerðarmaður og sennilega veitir ekki af að sjá allar bíómyndir hans tvisvar. Tímaflakkararnir er líklega besta dæmið um list þessa sérkennilega kvikmyndagerðarmanns (ég tel Holy Grail ekki með þar sem hún er ekki jafn gilliömsk og hinar) og má vel líkja henni við undarlegu millispilsteikniatriðin úr Monty Python’s Flying Circus þanin út í heila mynd. Ég skil ekki við hana án þess að nefna að sjálf Jessica úr Löðri (Katherine Helmond) slær þar í gegn í litlu hlutverki. Það væri líklega ástæða til að skrifa síðar heila grein um þá frábæru gamanleikkonu og sérstæðan stíl hennar sem ég kann æ betur að meta.

Þriðja myndin sem ég ákvað nú að sjá í fyrsta sinn síðan faðir minn lifði, fyrir rúmum 30 árum, er Ladyhawke og hana sáum við á sínum tíma á vídeó, pabbi eflaust verið til í að sjá hana vegna þess að Rutger Hauer er í einu aðalhlutverkinu og pabbi taldi hann (ranglega) jafn mikla tryggingu fyrir gæðum og Roy Scheider og Gene Hackman (þeir voru það ekki heldur). Ég held að ég hafi sjálfur haft meiri áhuga á hinum ungæðislega Matthew Broderick sem var á þeim árum frægastur sem Ferris Bueller. Hann leikur þjóf sem blandast inn í hamskiptasögu frá miðöldum. Broderick er persóna úr skjön við anda myndarinnar svipað og Bilbó í Hobbitanum, hann fer með allar línur sínar eins og hann sé Woody Allen en afgangurinn af leikarahópnum leikur miðaldalega og sagan er mjög dæmigerð fyrir þann tíma, snýst um álög, upphafna elskendur og illan biskup sem nær að segja nafnið „Isabeau“ ótrúlega perralega, illmenni af því tagi sem Ian McShane sérhæfði sig síðar í. Hinn ágæti Alfred Molina leikur djöfullegan veiðimann sem setur svip á myndina í smástund áður en hann fær makleg málagjöld. Ég mundi jafnvel minna eftir þessari bíómynd en hinum tveimur en hún er skemmtilega stílhrein, trú sagnalist fyrri alda og af henni evrópskur keimur.

En hvað með Münchhausen barón, spyrjið þið nú? Hvað með Excalibur? Örvæntið ekki, þær eru líka komnar á dagskrá og kannski verður grein úr.

Previous
Previous

Minningar um hollensk dulmálsbréf

Next
Next

Krufningarlæknir samfélags