Krufningarlæknir samfélags

Þegar Lise Nørgaard andaðist í upphafi ársins einsetti ég mér að draga fram þær tvær skáldsögur hennar sem ég á heima og lesa á ný en það reyndist andlega erfitt þannig að í staðinn lauk ég við þá síðari nálægt afmæli hennar 14. júní. Eins og kom fram í stuttri grein um hana í janúar var Lise Nørgaard ekki beinlínis skáldsagnahöfundur. Hún varð frægust fyrir handrit sjónvarpsþátta þar sem samfélagsrýnin var bæði hvöss og dásamlega fyndin. Þessi sömu einkenni voru á bókum hennar sem ég las um svipað leyti og ég sá Matador fyrst um 12 ára aldur og auk heldur blasir við lesendum að sumar persónur bókanna eru sömu ættar og persónur þáttanna. En ég sem sagt var byrjaður að lesa dönsku 12-13 ára, á undan ensku, og hef haldið henni við þannig að þegar ég neitaði eitt sinn úthendu á dönskum fyrirlestri með orðunum „Nei, takk, ég skil dönsku jafn vel og íslensku“ var ég ekki (eingöngu) að setja mig á háan hest því að þetta er nokkurn veginn rétt og ég horfi jafnvel á unglingamyndir textalausar á DR (en á þó örlítið erfitt með sumt fólk frá Bornholm).

Aðeins önnur skáldsagna Lise er beinlínis skáldsaga því að Med mor bag rattet er bæði í ætt við safn tengdra smásagna og þar að auki eins konar endurminningabók því að söguhetja bókarinnar er greinilega Lise sjálf og aðrar persónur eru foreldrar hennar, systkini, eiginmenn og börn. Sennilega hefur hún breytt nöfnum eitthvað og sannarlega segir hún frá í skemmtilegum ýkjustíl en annars gæti þetta allt hafa komið fyrir hana. Þegar ég las þessa bók varð mér ljóst að foreldrar Lise og aðrir ættingjar eru fyrirmyndin að Varnæs-hjónunum og fjölskyldu þeirra í Matador þó að þar hafi hún fækkað börnunum úr þremur í tvö. Annars fjallar bókin um einvígi bíleigandans við umferðarlöggur, stöðumælaverði, bifvélavirkja og síðast en ekki síst allt karlveldið. Þess vegna er óhætt að mæla með bókinni við allt ungt fólk sem getur lesið dönsku því að hún er sláandi vitnisburður um tiltölulega nýliðið misréttisástand (á Íslandi þarf alls ekki að fara svo langt aftur heldur er nóg að rifja upp sjónvarpsþættina Hvað heldurðu? með Ómari Ragnarssyni sem voru á dagskrá 30 árum eftir bílabaráttu Lise þar sem aldraðir hagyrðingar ortu blautlegar vísur um Heiði stigavörð („upp á H/heiði mikið tekið“ en þær örfáu aðrar konur sem sáust eru allar kallaðar valkyrjur), samfélag sem Lise og aðrar konur af hennar kynslóð áttu sannarlega mikinn þátt í að kollvarpa.

Hin skáldsagan hennar heitir Volmer og er enn líkari Matador því að hún gerist á sviðuðum tíma (1925-1950). Þar er lýst fjölskyldu sem minnir ei lítið á Varnæs-fjölskylduna og ýmsum vinum og vandamönnum sem einnig ganga aftur í Matador og þeim smábæjaranda sem aðalsöguhetjan Lykke (hliðstæða Lise) og systkini hennar ólust upp við. Rauðhærði drengurinn Volmer og strákapör hans eru í forgrunni en samt er þetta ekki saga einstaklings heldur smábæjar sem er býsna keimlíkur Korsbæk sem Lise bjó síðar til en var sjálf frá Roskilde (þangað kom ég í fyrsta sinn haustið 1998 og það var mikill svefnbær). Kannski einhverjir Akureyringar kannist líka við sig. Stéttabaráttan er meira áberandi í Volmer en barátta kynjanna en hvorttveggja skiptir máli. Það er mikil gleði í frásögninni þótt efnið sé alvarlegt en Lise nær mestu flugi í farsakenndum kringumstæðum eins og réttarhöldum í bókarlok þar sem afi og amma söguhetjunnar (sjást aldrei í Matador) eru í öndvegi en þau hafa miklar áhyggjur af því að dótturdæturnar séu flekaðar af unglingspiltum.

Eins og margir aðrir fyndnir rithöfundar (t.d. Finn Søeborg sem ég fjallaði um í gær) var Lise ekki tekin mjög alvarlega sem rithöfundur enda mæddist hún í mörgu öðru og skrifin voru aukageta. Það var ekki fyrr en um sextugt sem danska þjóðin tók þvílíku ástfóstri við Matador að Lise varð eins konar þjóðskáld. Það er auðvitað flókin staða líka og ekki síst fyrir uppreisnargjarnan höfund eins og Lise sem er þá orðin sú stofnun sem hún var vön að draga sundur og saman í háði. Þegar þjóðir eigna sér skáld kemur smám saman upp sú krafa að verk þeirra séu við allra hæfi. Það var örugglega aldrei metnaður Lise Nørgaard og vonandi vita Danir betur en að gera þá kröfu.

Previous
Previous

Sjórán, hamskipti og tímaflakk í horfnum kvikmyndahúsum

Next
Next

Finn Søeborg og satíran