Finn Søeborg og satíran

Ég hef á síðunni nefnt til ýmsa höfunda sem voru áberandi í bókahillunum heima í von um að ævisagnaritari minn lesi þetta og geti þá endurgert bókahillurnar. Einn slíkur var Finn Søeborg og á táningsárunum um miðjan 9. áratug síðustu aldar var ég orðinn nógu góður í dönsku til að lesa bækur hans. Þar hjálpaði til að hafa lesið Andrésblöð lengi og síðan dönsku blöðin en stíll Finns var líka einfaldur og þægilegur. Danir hafa reyndar leitt baráttuna fyrir einföldu máli í ýmsu samhengi, jafnvel fræðilegu. Nú er ég ekki viss um hversu vel Finn Søeborg lifir þar í landi (hann var áberandi í bókabúðum fyrst þegar ég dvaldi í Danmörku fyrir aldamót en ekki upp úr 2010) eða hvort hann sé næstum gleymt menningarfyrirbæri eftirstríðsáranna. Sannarlega skrifar hann um danskt samfélag frá 1945 og fram á 7. áratuginn en við sem erum fædd 1970 vorum í nægilegum tengslum við það samfélag til að skilja bækurnar hans ágæta vel. Stundum finnst mér ég raunar fremur hluti af tímanum frá 1945 til 1985 en þessu sem við tók með aukinni auðlegð og markaðsvæðingu, en það er líklega önnur saga.

Samfélagsmyndin hjá Søeborg er sett fram í farsakenndri atburðarás en persónur dregnar fáum og þó skýrum dráttum og eru gjarnan fulltrúar fyrir eitthvað. Einstaka fólk er geðugt og eðlilegt og yfirleitt fer það illa út úr sögunni en frekjur og yfirgangsmenn betur, að ógleymdum ríka fólkinu og öllum kontóristunum sem gera venjulegu fólki lífið leitt. Framandgerving nýtist Søeborg vel til að draga fram fáránleika samfélagsins. Ein persóna í einni bók hefur unnið áratugum saman við að stimpla PSB til SV en veit ekki hvað það merkir og vill ekki vita það. Önnur er bóndi sem fær styrk á hverja kú og reynir að hafa þær sem flestar og magrastar. Ein kona telur sig vera mikinn bóhem vegna þess að öðru hvoru tyllir hún sér á borð í stað stóla. Heil skrifstofa er undirlögð sjóurustum (sem ég spilaði sjálfur sem barn) og engin vinna fer þar fram. Einn maður reynist hafa verið lengi á röngum stað í réttri opinberri byggingu án þess að hann eða aðrir hafi tekið eftir því. Persónur sagnanna eru í stanslausum illdeilum um keisarans skegg. Tvær eru í langvinnri ritdeilu á lesendasíðum dagblaðanna undir dulnefnunum Holger danske og Hieronymus. Allt þetta átti sér hliðstæður í samfélaginu sem ég ólst upp í.

Satíra Søeborgs beinist samt ekki svo mjög gegn þessum persónum heldur líklega aðallega nútímanum sjálfum. Søeborg virðist ekki svo illa við persónur sínar nema einstaka. Misnotkun kemur mjög við sögu. Ein persónan er listamaður sem stöðugt skiptir um kærustur til að lifa á þeim og er sá hörundsár og sannfærður um eigin málstað. Eins koma við sögu foreldrar sem hafa ekki alið upp ömurlega leiðinlegan son sinn þar sem þau telja hann svo viðkvæman að ekki megi banna honum að sýna öðrum ruddaskap og yfirgang. Hefur mér oft verið hugsað til þeirra þegar ég ferðast um á Íslandi og sé íslensku börnin hlaupa æpandi og gargandi um í morgunmatnum á meðan þau útlendu sitja þæg og góð með foreldrum sínum.

Húmorinn kemur samt í veg fyrir að Søeborg komi fyrir sem gamall nöldurseggur. Hann átti líka sitt blómaskeið frá 33 ára aldri til fimmtugs en svo fór að gæta beiskju í seinustu satríum hans og skömmu síðar hætti hann einfaldlega að skrifa eða a.m.k. að gefa út. Ein kvikmynd var gerð í stíl sagna hans en þær virkuðu einfaldlega ekki jafn vel á hvíta tjaldinu, kannski vegna náinna tengsla húmors og frásagnarraddarinnar. Þetta er í stuttu máli fyndið eins og hann segir það.

Previous
Previous

Krufningarlæknir samfélags

Next
Next

Aðdráttarafl hins ósagða