Aðdráttarafl hins ósagða

Mary Moorman, Inge Morelius, Þórður Ingimarsson, Antonio Curatolo. Eina fólkið sem þekkir þessi nöfn eru næstum sjúklegir áhugamenn um sönn sakamál, þeir sömu og skilja strax hvað átt er við þegar minnst er á regnhlífarmanninn eða dekorimamanninn eða Tamám Shud. Á netinu má finna múg og margmenni sem hefur eytt allri ævinni í að rannsaka mál sem oftast er ekki hægt að rannsaka. Hlaðvörpin eru óteljandi líka, sum telja næstum 400 þætti um sama morðið. Ég er ekki einn þeirra en það hafa samt komið dagar sem ég leggst í þráhyggju og get ekki hætt að hugsa um umrenningana þrjá eða mennina með labbrabbtækin.

Fyrir nokkrum mánuðum hitti ég ungan mann sem ég hef ekki hitt aftur en sem sagðist ekki vilja horfa á neitt nema heimildarmyndir; leikin afþreying höfðaði ekki til hans. Maðurinn var frá Indónesíu en samt komu mér strax í hug Íslendingar miðalda (ég er sá gaur). Öll afþreying þess tíma var nefnilega einmitt sögulegs eðlis, þ.e. sviðsett í fortíðinni og sögunni og fjallaði um fólk sem átti að hafa verið til. Þetta hafa fræðimenn og ekki síður áhugamenn hafa verið að bögglast með síðan, hinn „sögulega kjarna“ íslenskra miðaldabókmennta. Aðalástæðan fyrir að þetta vefst fyrir fólki er þó sú að það áttar sig ekki nógu vel á að fræðirit eru bókmenntaform líka og sagnarit eru form þar sem hin listræna blekking er sú að um sögulega viðburði sé að ræða. Þetta á á sinn hátt einnig við um heimildarmyndir.

Ef heimildarmynd er fyrst og fremst form, svipað og fréttir sem ég ræddi um daginn, er þá enginn munur á því sem er leikið og því sem gerðist í raun? Jú, auðvitað er munur á því. Sá sem vinnur fræðilega miðlar fyrst og fremst gögnunum og heimildunum en höfundur skáldverks hefur meira leyfi til að segja hinn almenna sannleik og hagræða því sem fram kemur í gögnunum. Slík hagræðing er yfirleitt sérstaklega áberandi þegar Hollywood hefur farið höndum um efnið. Eins konar hagræðing kemur þó alltaf við sögu og stundum mjög mikið í heimildarmyndunum líka. Það er eins gott fyrir áhorfandann að átta sig á sjónarhorni myndarinnar.

Annar og ekki léttvægari munur er sá að þeir sem horfa á heimildarmynd þurfa að sitja uppi með óvissuna. Við vitum ekki hvað varð um D.B. Cooper eða Geirfinn, hvort Amanda Knox var sek eða hvort fleiri en Oswald komi við sögu í Kennedymorðinu. Efinn og óvissan búa hins vegar iðulega yfir heldur meiri krafti en þegar allt er skýrt og reynist þá stundum klénna en ímyndunarafl okkar vildi. Líklega er sannfæring mín um þetta sem veldur því að ég skil stundum eftir einn og einn lausan enda í eigin sögum um glæp.

Previous
Previous

Finn Søeborg og satíran

Next
Next

Fortíðin eltir mann uppi