Fortíðin eltir mann uppi

Nálægt þjóðhátíðardeginum rignir fornum íslenskum kvikmyndum í Ríkisútvarpinu og er það veisla næstum jafngild því að komast á youtubesíðu mannsins sem tók upp allt úr sjónvarpinu á 9. áratugnum og verðskuldar fálkaorðuna umfram flesta aðra. Núna nýlega endurnýjaði ég þannig kynnin við fjórar slíkar sem verða þeim áhugaverðari eftir því sem þær eldast þó að þær séu afskaplega misgóðar upphaflega og engin kannski sígild óháð manns eigin reynsluheimi. Rokk í Reykjavík vakti víst hneykslun á sínum tíma en núna finnst manni hún fyrst og fremst heimild um hvað ungt fólk er alltaf svipað og hve töffarasviðsetningar þess eru gegnsæjar fyrir okkur gamla fólkið, en ég lifði þessa tíma og skynjaði pönktöffaraskapinn þá og hafði raunar blendnar tilfinningar til hans því að ég var siðavandur í bernsku eins og margir.

Fólkið sem birtist í myndinni er skelfilega unglegt að sjá en hefur ýmist horfið sjónum, orðið heimsfrægir tónlistarmenn eða alræmdir Sjálfstæðisforkólfar. Einhverjir eru látnir eða voru með manni í námi í Háskólanum og hver einasta manneskja sem enn lifir er núna eldri en fólk sem okkur fannst þá vera hundgamalt. Einstaka tónlist hljómar enn prýðisvel, aðallega Bubbi og Þeysararnir. Ýmsir taktar á sviðinu eru mjög skýr eftirherma eftir sviðsframkomu Sex Pistols, Ramones eða Clash sem maður vissi lítið um á sínum tíma. Langt viðtal við Bjarna heitinn Móhíkana um sniff er alveg laust við að vera hneykslanlegt 40 árum síðar enda er jafnvel hann ekki beinlínis meðmæltur eiturlyfjaneyslu og nú hafa ýmsir pótintátar yfirlýsta tröllatrú á hugvíkkandi efnum.

Ísland er lítið og faðir einnar poppstjörnunnar í myndinni er líka aðalleikarinn í Okkar á milli fyrir utan að Valli í Fræbblunum er í báðum myndum og svo er þar líka faðir Jökuls í Kaleo (sem ég sá heila bíómynd um í fyrra á vod-inu) í aukahlutverki án þess að ég hafi munað eftir því og er líklega yngri en sonurinn núna. Vegna aldursins er myndin furðu skemmtileg áhorfs þó að hún sé að kikna undir listrænni raftónlist, aulafyndni (síendurteknum vondum djók um LSD) og fátæklegu handriti sem virðist stundum hafa þann eina tilgang að tengja saman nektarsenur. Ég var búinn að gleyma flestu úr myndinni nema laginu fræga með Röggu Gísla um stúlkuna sem man ekki hvort draumaprinsinn hennar heitir Benóný eða Benjamín. Þó að ég sé núna álíka gamall og söguhetjan tengi ég ekki beinlínis við þessa tilvistarkreppu sem leitar útrásar í endalausum hlaupum, steinsteypuefa og undarlegum kynórum og að lokum er verkfræðingurinn orðinn hálfgalinn en kannski á það að vera táknrænt fyrir mikilvægi gosa upp úr mannssálinni. Enginn leikari hefði bjargað þessu handriti en það er almennt einkenni mynda á þessum tíma að leikararnir eru ekki fagmenn sem var gömul eftirstríðsáratíska frá Ítalíu og líklega ekki mjög góð hugmynd.

Útlaginn nýtur enn aðdáunar minnar á Gísla sögu og handritið er líka vel samið af Indriða G. sem er ef eitthvað vanmetinn höfundur fremur en hitt en ég hef líka horft á myndina ásamt einu frægasta núlifandi ljóðskáldi heimsins sem skildi ekki það sem var sagt og sá fátt jákvætt við hana. Aftur eru flestir leikarar fólk sem maður þekkir betur af öðrum störfum og leika sumir (einkum synir Vésteins) svo illa að það er næstum gott en Tinna Gunnlaugsdóttir og Arnar Jónsson kunna til verka og bera myndina uppi ásamt Þráni heitnum Karlssyni sem leikur bestu persónu Gísla sögu, Þorkel Súrsson. Handritið á góða spretti en þjóðlega tónlistin er of yfirþyrmandi og myndin er áhugaverðust þegar fólk talast við en í bardagasenunum minnir hún stundum á fjölmargar Íslendingasagnamyndir áhugamanna úr öllum heimshornum sem finna má á youtube.

Af þessum fornmyndum er Með allt á hreinu sú best heppnaða án þess að fylgja neinum reglum og ég er einn af þeim fjölmörgu af minni kynslóð sem gæti farið umbeðinn með mestallt handritið. Þó að átökin séu skýr er ekki beinlínis flétta í myndinni sem er safn tónlistarmyndbanda en sjarminn heillaði þjóðina á sínum tíma og ég er enn heillaður. Manni finnst gamla samfélagið lítið, ég þykist sjá konu sem seldi mér gleraugu árum saman í einu atriði, vinnufélagar pabba míns birtast raunar í tveimur af þessum fjórum myndum, faðir hreyfilistamannanna sem leika geimverur var líka kúnni hans og þó var fjölskyldan lítið í sjóbisness. Systir mín sést svo í einu atriði sem var tekið upp í Reykjavík en á að gerast á Akureyri og leikur í raun tvær mismunandi persónur og fer með 1-2 línur (er ein þeirra sem hrekur Dúdda burt þegar hann reynir að sjanghæa fólk í hæfileikakeppni). Þetta fjölskyldusamband mitt við myndina finnst mér táknrænt, ég held að allir Íslendingar eigi svipað samband við þessa mynd.

Previous
Previous

Aðdráttarafl hins ósagða

Next
Next

Raunir fallega piltsins