Raunir fallega piltsins

Ég missti af Triangle of Sadness (Vargahrukkunni?) þegar ég var að leita uppi óskarsverðlaunamyndir þessa árs og var þó einna áhugasamastur um hana. Einkenni nútímans er hins vegar það að flest afþreying birtist manni um síðir og nú hef ég séð þessa mynd hins áhugaverða sænska svarthúmorista Rubens Östlund. Hún hefur verið mjög umdeild og ég skil gagnrýnina; í henni eru gróteskir kaflar sem ég hef engan smekk fyrir. Eins hefur hann verið sakaður um billega samfélagsrýni en þar er ég ekki endilega sammála. Um miðbik myndarinnar óttaðist ég samt að þetta yrði önnur Parasite en fyrri helmingur þeirrar myndar er einhver albesta kvikmynd sem ég hef séð af mörgum góðum en um það leyti leysist myndin upp og verður að lokum eins og íslensk mynd. Þó að ég sé sjálfur rithöfundur og hef allan skilning á því að stundum reynist maður ekki búinn að hugsa allt í botn á ég stundum erfitt með að skilja hvers vegna listaverk sem mikið fjölmenni vinnur að reynist vanhugsað.

Myndin hefst á fallegri fyrirsætu sem heitir Carl. Hann er að sækja um vinnu ásamt fjölmörgum öðrum fögrum drengjum sem allir standa berir að ofan í stóru rými og eru fengnir til að gretta sig og geifla fyrir hlæjandi mann með myndavél. Síðan gengur Carl fyrir dómnefnd í sömu múnderingu og þó að ekkert illgirnislegt sé sagt er tilfinning áhorfandans fyrir niðurlægingunni sem felst í þessu einkennilega starfi sterk — á þetta kannski við um alla sviðslistarmenn að einhverju leyti og jafnvel alla listamenn? Samt kemur enginn beinlínis ófagmannlega fram við Carl, þetta er bara bransinn sem hann er í og hans skrítna hlutverk í honum. Hann kvartar ekki heldur en óþægindi hans koma fram í nöldri við kærustuna út af reikningnum á veitingastað. Hann tjáir óánægju sína ekki af mikilli mælsku enda skilur hún ekkert og lítur greinilega á þetta sem skemmtilegan pörunarleik.

Miðkafli myndarinnar gerist á skemmtiferðaskipi og þar er parið að ferðast ókeypis vegna fegurðar sinnar. Enn eru komplexarnir skvampandi í drengnum og þegar kærastan horfir lengi á skipverja sem er ber að ofan kvartar hann yfir klæðaburði mannsins við yfirmanninn sem samþykkir að þetta sé fullkomlega óþolandi (Carl er sjálfur enn minna klæddur en hann er auðvitað farþegi) og í kjölfarið er maðurinn rekinn af skipinu sem er greinilega ekki það sem Carl á von á. Hér kemur skýrt fram að á lúxusskipinu er mikið stigveldi, bæði milli farþega og starfsmanna og svo goggunarröð hjá starfsmönnum en illu heilli leysist myndin núna upp í frekar viðbjóðslegt gubbuatriði sem mér finnst hafa þann eina tilgang að skýra dálæti Svía á Hrafni Gunnlaugssyni. Parið er þar innan um alls konar misgeðþekka farþega sem hegða sér margir af miklu oflæti. Woody Harrelson er hér í aukahlutverki sem marxískur kapteinn og rífst við rússneskan kapítalista. Þau atriði gera lítið fyrir mig þó að báðir leikarar standi sig vel.

Afgangurinn af myndinni gerist á eyðieyju þar sem örfáir farþegar og starfsmenn hafa lifað af sjóslys. Þar á meðal eru unga parið, millistjórnandinn Paula og ræstingarkonan Abigail. Sú síðarnefnda reynist vera sú eina sem kann eitthvað fyrir sér sem að gagni kemur á eyðieyju. Í fyrstu byrjar Paula að skipa henni fyrir eins og þær væru enn á skipinu en Abigail tekur síðan völdin og að lokum samþykkja allir forystu hennar. Hún finnur Carl fljótlega hlutverk sem kynlífsþræll sem kærustunni líkar að vonum illa en Carl er orðinn hræddur um að svelta í hel ef hann nýtur ekki náðar foringjans og lætur undan enda kannski vanur þessu úr sínu fyrra lífi. Þannig má segja að myndin virki ágætlega sem úttekt á heimi ungs manns sem ekki telst vera „framlínustarfsmaður“, tilfinningu sem eflaust margir í listaheiminum fundu sterkt fyrir á covid-tímum, þó að fólk finni kannski ekki í myndinni merkilegan almennan boðskap um stigveldið í heiminum. Að lokum kemur í ljós að strandaglóparnir eru í raun ekki á eyðieyju og björgun er framundan en Abigail er ekki ónægð með að hverfa aftur í sitt gamla hlutverk og myndinni lýkur á að hún er hugsanlega að bana kærustu Carls sem er strax farin að tala niður til hennar. Þannig finnst mér myndin sækja í sig veðrið eftir erfiðan hálftíma. Á eyðieyjunni er Carl fullkomlega óþarfur og nánast til skrauts og maður veltir fyrir sér hvort Ruben Östlund sjái þetta fyrir sér sem framtíðarstöðu listamannsins eða jafnvel karlmannsins í heimi þar sem konur hafa sótt í sig veðrið og geta allt betur eins og innritunartölur í íslenska háskóla benda m.a. sterklega til.

Previous
Previous

Fortíðin eltir mann uppi

Next
Next

Rauðavíkingar fyrri alda