Sextuga konan fær (loksins) orðið

Brotin kona (La femme rompue, 1967) er seinasta skáldverk tilvistarspekingsins Simone de Beauvoir (1908-1986) og kom út í íslenskri þýðingu Jórunnar Tómasdóttur í fyrra. Á sínum tíma var verkinu fremur illa tekið og þótti Simone sjálfri bókin misskilin og vanmetin sem kannski hafði áhrif á að hún sendi ekki frá sér fleiri skáldverk. Brotin kona er safn þriggja sjálfstæðra en samtengdra sagna um eldri konur sem orðið hafa fyrir áfalli og standa á tímamótum og því er erindi hennar við nútímann ótvírætt. Raunvísindin hafa nýlega uppgötvað áfallasögu kvenna en Simone var sem sagt löngu búin að því áður (sem er sígilt hlutskipti hugvísinda).

Um leið eru formtilraunir Simone áhugaverðar en hafa lengi farið fremur öfugt ofan í lesendur, einkum miðsagan „Einræða“ þar sem hin reiða og bitra Murielle hellir sér yfir allt og alla í innra eintali. Þó að Murielle sé ekki geðþekkur sögumaður er textinn samt sláandi og áleitinn og hefur einmitt náð til margra allra seinustu ár og verið fluttur á MeToo-viðburðum. Auðvitað ætlaði Simone sögumönnum sínum aldrei að vera eigin málpípur heldur fulltrúar sjónarmiða sem hugsanlega væru brengluð en ættu samt rétt á sér. Það er einmitt hin óhefta tjáning sem hefur gripið fólk undanfarið sem aldrei fyrr. Hið sama gildir um Monique, sögumann lokasögunnar sem heitir „Brotin kona“ eins og bókin öll. Hún er ekki endilega áreiðanlegur sögumaður þar sem hún glímir við framhjáhald eiginmannsins í dagbókarbrotum og Simone mun hafa viljað að tjáning hennar væri lesin gagnrýnið.

Langléttast reynist mörgum að finna til með fræðikonunni Hélène sem fyrsta sagan, „Tímamót” (á frummálinu „L’âge de discretion” sem mér finnst raunar sterkari titill) fjallar um enda er hún yfirveguðust og kannski líkust Simone de Beauvoir sjálfri (a.m.k. á yfirborðinu) en þó má líka finna brotalamir í hennar sjónarhorni. Ellin var Simone hugleikin um þær mundir og hún lagði fram þungvægan skerf til rannsókna á henni með bókinni La Vieillesse (1970) fáeinum árum síðar sem enn nýtist fræðimönnum á þessu sviði eins og t.d. mér sjálfum.

Það skiptir sannarlega máli að söguhetjur hennar eru konur en aldurinn er samt þungamiðjan í textanum, þ.e. ekki aðeins mismunandi tjáning heldur einnig ólíkt en að ýmsu leyti hliðstætt hlutskipti þessara þriggja kvenna sem lífið hefur leikið (mis)grátt. Brotin kona er enginn yndislestur en aftur á móti vekjandi rit eftir einn helsta hugsuð samtímans sem við eigum sennilega enn eftir að læra að meta að fullu. Þýðandinn Jórunn Tómasdóttir andaðist áður en þýðingin kom á prent en hún hefur unnið mikið afrek með því að færa Íslendingum aðeins meira af Simone.

Previous
Previous

Bóhemaástir

Next
Next

Rödd hins annarlega