Bóhemaástir
Til eru þeir sem segja að rangt söngvaskáld hafi fengið bókmenntaverðlaun Nóbels á sínum tíma þegar röðin þótti komin að þeim en ég nenni ekki að deila um verðlaun lengur; er þó nógu forvitinn um kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen (1934–2016) til að hafa horft á átta þátta syrpu norska sjónvarpsins um samband hans og hinnar norsku Marianne Ihlen (1935-2016). Sú nefnist So Long, Marianne, sem sennilega allir vita að er líka heiti eins þekktasta söngs Cohen og er einmitt innblásinn af sambandi þeirra Marianne á sjöunda áratug seinustu aldar (seinna var hann í sambandi við konu sem hét Suzanne en lagið hans „Suzanne“ er þó víst ekki um hana) þegar Leonard var að reyna að slá í gegn sem höfundur og ljóðskáld áður en í ljós kom að fólk kunni best við hann syngjandi söngva sína. Hér skiptir líka máli að norskt sjónvarp er komið á fleygiferð sem það íslenska nær því miður ekki að herma eftir (fæst orð hafa minnsta ábyrgð um íslenskar tilraunir til að fanga fortíðina í leiknu sjónvarpi). En söngurinn um Marianne sló m.a. í gegn í Hollandi árið 1984, sunginn af José Hoebée. Það var skömmu eftir það sem ég heyrði fyrst um Cohen en heyrði síðan í honum í kringum 1988 þegar hann var að ná nýjum hátindi frægðar sinnar. Mér fannst hann þá ægilega gamall og syngja eins og fyllikall síðla nætur en smekkurinn þroskast og þróast og að lokum fór minn að rúma Leonard Cohen líka.
Marianne var áður gift norska rithöfundinum Alex Jensen (1932–2003) sem yfirgaf hana og nýfætt barn þeirra. Sjálfur hafði Leonard e.t.v. (eða örugglega ef marka má þáttinn) haldið við ástralska rithöfundinn Charmian Clift (1923-1969) sem var gift rithöfundinum George Johnston (1912-1970) og svo er sjálfur jólaóratorinn Göran Tunström (1937-2000) þarna líka enda var hann vinur Jensens og Cohens beggja. Þetta voru allt miklir bóhemar eins og fólk var á 7. áratugnum og stundum þegar ég horfði á þáttinn fannst mér að það mætti gera álíka þætti um Dag frænda og Helgu Novak, Steina frá Hamri, Ara Jósefsson og allt þetta fólk sem var samtíða foreldrum mínum (en kannski eins gott að það sé ekki gert núna; gæti orðið önnur Flateyjargáta með stirðbusalegum leik og endalausum anakrónismum). Í þáttunum um Cohen og Marianne er mikið reykt og allir reyktu mikið hér uppi á Íslandi líka og sumt af því fólki fór líka til Miðjarðarhafsins eins og allt listafólkið í þessum þætti sem hittist á grísku eyjunni Hydru árið 1960. Ég hef enga sérstaka trú á ævisögulegum sjónvarpsþáttum en ég gat samt ekki annað en haft gaman af þessum, kannski vegna þess að hann er frá tíma sem mér finnst öllu áhugaverðari en þessir blessuðu fasista- og frjálshyggjutímar sem við lifum núna. Mikið frjálslyndi sveif yfir vötnum hjá ungu kynslóðinni sem öll las Lawrence og Miller samviskusamlega en þessi mórall var þó á svig við gildi hinna eldri því að þetta var áður en berorðar kynlífslýsingar Cohens urðu normið almennt og jafnvel hægt að syngja hann í kirkjum.
Grikkland er auðvitað dúndurfallegt og parið líka og peysurnar eru skemmtilega líkar því sem tíðkaðist þegar ég man fyrst eftir mér. Heill þáttur með Volkswagen bjöllu hlaut að vekja nostalgíu hjá manni sem var alinn upp með slíkum fjölskyldubíl. Eins einkennilegt og það er að horfa á norskan sjónvarpsþátt á ensku var ég undirbúinn af Atlantic Crossing sem var önnur ástarsaga frægs fólks. Cohen og Ihlen voru auðvitað andstæður á margan hátt, hvort úr sínum menningarheimi þó að þau sameinist í hinu óhefta lífi á grísku eyjunum, eina staðnum sem Cohen segist ekki hafa fengið menningarsjokk — en öðru máli gegnir um Noreg og norska matinn síðar í þáttaröðinni. Hið rólega tempó í þáttunum leiddi þversagnakennt til þess að ég var alltaf hissa þegar þætti lauk, fannst þetta rétt að byrja. Miðað við þættina er líf listamannsins þjáning og barátta en samt er listafólk merkilega svipað og annað fólk nema með ritvél. Skilnaður Ihlens og Jensens er dramatískur samkvæmt þættinum en samt voru þau öll áfram vinir eftir allt dramað: hann og næsta kona (Patricia), Marianne og Cohen. Segja má að þáttahöfundurinn Øystein Karlsen vendi sínu kvæði í kross frá þáttunum Exit sem hann skrifaði líka. Ég gafst upp á þeim þótt vel gerðir væru vegna þess að persónurnar voru svo fjarska ógeðugar en það á ekki við um Cohen og Marianne og bóhemavini þeirra — kannski vildi Karlsen núna reyna sig við fegurðina eftir að hafa stúderað ljótleikann svona nákvæmlega. Þau tala öll mikið saman og kannski er það nákvæmlega það sem samband er, að langa til þess að tala saman. Samkvæmt þættinum var sérstaklega Cohen frekar ljúf persóna, mjúki maðurinn holdi klæddur sem sjaldnast hækkar róminn þrátt fyrir allt sitt listræna þunglyndi og hélt sig utan við helstu átök sem lýst er en hjálpaði Marianne þegar hún var yfirgefin af Axel. Síðar langar Marianne til að giftast honum og þá verður hann að lokum vandamálið eins og hún áttar sig óvænt á þegar hún rekst á bandaríska konu sem á skammt eftir ólifað.
Aðalleikurunum Alex Wolff (sem fyrir nokkrum árum lék Bostonmaraþonsprengjumanninn sem Biden hafði ekki kjark til að náða núna í desember) og Theu Sofie Loch Næss tekst vel upp í sínum hlutverkum og hin norska Anna Torv er senuþjófur í hlutverki Charmian Clift. Wolff syngur sjálfur Cohen-lögin í þættinum enda mun hann víst vera tónlistarmaður ekkert síður en leikari. Ég var með kvef þegar ég horfði á þennan þátt og gat því auðveldlega sungið með því að Cohen-söngvar henta vel þeim sem er nánast búinn að missa röddina. Peter Stormare birtist í litlu hlutverki (skáldið Irving Layton sem studdi Cohen alltaf; nú langar mig til að lesa hann) sem er skemmtilega ólíkt hlutverkum á borð við Gaear Grimsrud og Dieter Stark. Frægt fólk úr menningar- og poppheimi 7. áratugarins (frá Andy Warhol til Ginsbergs og Janis Joplin) er rambandi um allt án þess að skipta endilega miklu máli. Aðaláherslan er á Leonard og Marianne og æskusamband þeirra en öðru hvoru sést Marianne áttræð á banabeði og stundum að spjalla við mun yngri Leonard, greinilega úr fortíðinni. Jafnvel þótt aðdáendur Cohens muni þyrpast til að horfa á þættina og fá kannski mest út úr þeim þegar Leonard er kominn á Chelsea Hotel með öllu fræga fólkinu þá fjalla þeir kannski mun frekar um hina norsku Marianne í sínu óhamingjusama hjónabandi sem kynnist Cohen en fer samt frá honum þegar á reynir til að sitja yfir nýju kærustu eiginmannsins stórslasaðri á spítala á meðan Cohen er eftir á eyjunni og syngur fyrir barnið hennar. Einhvern veginn finnst manni boðskapurinn um að gæskan eigi að trompa hegðunarreglur og siðvenjur hvergi koma betur fram. Marianne og Leonard vonuðust eftir nýjum heimi með nýjum gildum og þó að þátturinn geri ekki annað tekst honum að minnsta kosti að sannfæra áhorfendur um að bóhematilvera skálda og listamanna sé áhugaverð og heillandi þó að hún sé sannarlega ekki dans á rósum.