Áföll og skeknar þjóðir

Nýlega barst mér í hendur O Pequeno Livro do Grande Terramoto eftir portúgalska fræðimanninn Rui Tavares sem einnig situr á þingi þar í landi eftir að hafa stofnað sinn eigin vinstrigræna flokk. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bókin um hinn hroðalega jarðskjálfta í Lissabon árið 1755, það samhengi sem hann var ræddur í og er enn settur í. Þetta er stutt og snörp bók sem aðeins maður eins og Tavares getur skrifað, með mikla fræði- og stjórnmálareynslu. Hún þótti ögrandi þegar hún kom fyrst út á portúgölsku árið 2005 enda dregur hún fram menningarlegt og pólitískt samhengi náttúruviðburða eins og jarðskjálfta og ein niðurstaðan er að jarðskjálftinn skipti enn máli í menningu Portúgal.

Þó að bókin sé stutt er hún marghliða en ein mikilvæg áhrif jarðskjálftans voru að markgreifinn af Pombal komst til áhrifa; hann var mikill upplýsingarmaður en þó jafnframt harðstjóri og enn er rætt um pombalisma í portúgalska heiminum þegar saman fara umbætur og harðræði. Hefur Pombal enda verið umdeildur til þessa dags og vakti mikla umræðu bæði árið 1882 og 1982, þegar ein öld og tvær liðu frá andláti hans. En grundvöllur pombalismans var auðvitað jarðskjálftinn sem líka kallaði á miklar rökræður evrópskra heimspekinga á borð við Voltaire enda einn helsti viðburður nýrrar upplýsingaaldar þegar heimsmyndin var að taka stakkaskiptum. Að mati Tavares eru árásin á New York árið 2001 og tsunamialdan jólin 2004 svipaðir viðburðir en bók hans er raunar samin skömmu eftir hvorntveggja atburð og hugsanlega höfðu þeir ekki jafn varanleg áhrif og útlit var fyrir á þeim tíma en ég fékk tilefni til að velta þeim fyrir mér skömmu eftir lestur.

Engan hefði órað fyrir að jarðskjálfta í Portúgal lyktaði með herferð Pombals gegn Jesúítum en annað eins þekkjum við frá okkar tímum. Daginn eftir að ég lauk við þessa merkilegu bók Tavares sá ég þátt á Netflix um leitina að sprengjumönnunum sem réðust á Boston-maraþonið árið 2013 en þeir voru múslímar frá Kyrgyzstan, Tsarnaev-bræður, og þóttust jaðarsettir í Bandaríkjunum eftir tólf ára stríð bandarískra stjórnvalda í Mið-Austurlöndum. Þættirnir voru einkum frá sjónarhorni bandarískra yfirvalda þannig að ég veit ekki hvað áhorfandanum á að finnast en það sem stendur upp úr hjá mér eru tryllingsleg viðbrögð hinnar risavöxnu bandarísku lögreglu. Þó að einstaka löggur kæmu ágætlega út úr þættinum á það sama ekki við um stofnunina sem heild. Meðal annars skutu löggurnar friðsælt úthverfi í tætlur til að ná mönnunum og mega teljast heppnar að hafa ekki drepið fleiri en hryðjuverkamennirnir sjálfir (sem drápu þrjá og særðu fjölmarga í sjálfu hryðjuverkinu og ná þannig varla upp í meðalskólaskotmann þar vestra). Eftir að hafa drepið annan Tsarnaevbróðurinn voru þúsundir þrælvopnaðra manna heilan dag að leita hins og lokuðu hálfu Massachusetts (settu fimm milljón manns í útgöngubanni) í heilan dag áður en þeir fundu hann í bát í næsta húsi við bílinn sem þeir höfðu fundið nóttina áður. Þar lá táningurinn óvopnaður í blóði sínu á meðan mörghundruð löggur sem enginn hafði beðið um að koma þangað skutu að tilefnislausu í átt að bátnum og voru í annað sinn heppnir að drepa engan. Það þarf talsvert ímyndunarafl og þjóðrembublindu til að búa til hetjusögu um lögguofureflið úr þessu.

Heilaga vandlætingu Bandaríkjamanna yfir ofbeldi og hryðjuverkum múslíma í Bandaríkjunum verður að meta í ljósi þess að Bandaríkin eru því miður sjálf gegnsýrð af ofbeldismenningu eins og sést ekki aðeins í almennri árásarvopnaeign almennings heldur einnig í stöðugum skotárásum lögreglu á óvopnaða borgara, dýrkun á hermennsku og hervaldi og mýmörgum árásum á aðrar þjóðir seinustu áratugi, m.a. í Asíu þaðan sem Tsarnaevbræður koma en fólki í heimsveldinu er því miður flestu lítt umhugað um þau fórnarlömb. Yfirvöld þar eru ekki heldur nógu andsnúin manndrápum til að takmarka byssueign eða banna aftökur eins og aðrar siðaðar þjóðir hafa gert og ráðgera nú að taka yngri bróðurinn af lífi eftir að hafa tjaslað honum saman á sjúkrahúsi (heilli öld fyrr hefði hann aftur á móti ekki verið tekinn af lífi í Habsborgaraveldinu því að hann framdi glæpinn 19 ára). Raunar bendir margt til að réttarhöldin og fréttatlutningur af þeim hafi verið lituð af fordómum og niðurstaðan fyrirframgefin. Kannski greindi tímaritið Rolling Stone stemminguna betur þegar það birti mynd af hinum ákærða Jahar Tsarnaev (þessa að ofan) á forsíðu sinni og æsti mjög upp froðufellandi bandaríska lögguvini, e.t.v. með þeim afleiðingum að ný ljósmynd hefur ekki birst af Tsarnaev í hartnær tíu ár.

Previous
Previous

Merkir edda langamma?

Next
Next

Þorsteins saga verður til