Þorsteins saga verður til
Ein af greinunum sem ég hef nýlega skrifað á The Literary Encyclopedia (sem ég lýsti fyrr í ár á þessari síðu) fjallar um Þorsteins sögu stangarhöggs og ég las söguna enn á ný í janúar í tilefni af því (kenndi hana síðan í mars og um svipað leyti kom út ný þýðing sögunnar). Í miðri þeirri vinnu ákvað ég að endurnefna loksins þessa sögu sem er iðulega gefin út undir heitinu Þorsteins þáttur stangarhöggs. Fyrir þessu nýja heiti eru skýrar forsendur. Þorsteins þáttur er einn af þremur (kannski fjórum) hinna upphaflegu Íslendingaþátta í útgáfunni 40 Íslendingaþættir (1904) sem er ekki kafli úr konungasögu heldur sjálfstæð frásögn og sú eina sem hefur þó jafnan gengið undir þáttaheiti því að hinar tvær eru iðulega nefndar saga líka. Hið nýja heiti skilur þessa sögu frá Íslendingaþáttum sem eru tilbúin bókmenntagrein 20. aldar manna sem vildu líta frásagnir um Íslendinga í konungasögum sérstökum augum og skilja þær frá öðru efni sagnanna eins og fræðast má betur um í þessari bók.
Þó að skoðanir okkar á fornbókmenntum breytist reglulega hefur verið ákveðin hræðsla við að kasta hefðbundnum heitum sagna eða bókmenntategunda sem eru þó tilbúningur og raunar má líka færa rök fyrir því (og það hef ég gert í annarri bók) að sagan um Þorstein stangarhöggs sé ef til vill ekki fullkomlega sjálfstæð saga og að því leyti líkari þáttunum. Á hinn bóginn er hún að öllu formi og inntaki ein af Íslendingasögum en á fátt sameiginlegt með svokölluðum þáttum annað en smæðina og langeðlilegast að kalla hana því Þorsteins sögu. Þetta er fæðardeilusaga sem er nánast eins og kennslubók um fæðardeilur, svo dæmigerð er hún (eins og T.M. Andersson ræddi raunar árið 1967) fyrir utan endalokin þegar ekki verður úr aðalbardaga sögunnar. Fram að því má sjá öll hefðbundin einkenni deilumynsturs: fyrst hestaat sem fer illa, síðan meiðandi orð um Þorstein, í kjölfarið hefndarhvöt, vígaferli og stigmögnun átaka þangað til Þorsteinn verður að berjast við höfðingjann Bjarna Brodd-Helgason.
Ég hef skrifað margt sem vonandi er áhugavert um Þorsteins sögu, m.a. í Illa fenginn mjöð (2009) og þessa grein þar sem ég sýni fram á að í sögunni komi fram Krónosarminnið um illskeytt gamalmenni sem vill barn sitt feigt en guðinn Krónos át sem kunnugt er börn sín (eins og Goya málaði svo glæsilega, sjá myndina að neðan). Sagan er eiginlega dæmisaga sem lýsir samfélagi þar sem karlar sem bera vopn eru stöðugt hvattir eða nánast eineltir til átaka af þeim sem ekki bera vopn, samfélagi þar sem vopnaburður og vígaferli eru hafin upp til skýjanna. Ef til vill er hún sett saman á Sturlungaöld og er þá gott dæmi um friðarhreyfingu 13. aldar sem víða má finna stað þó að einhverjir fræðimenn neiti enn staðfastlega að trúa á friðsama fortíðarmenn.
Ef mér tekst einhvern tímann að ljúka bók minni um nafnlausar persónur fornsagna mun Þorsteins saga stangarhöggs líka koma þar við sögu þar sem ein áhugaverðasta persóna sögunnar er ónefnd kona sem Þorsteinn felur að flytja skilaboð til Bjarna á Hofi. Konan neitar hins vegar að gera nokkuð annað en það sem henni sýnist og harðneitar þannig að hegða sér eins og aukapersónu ber. Meira um það síðar.