Verðlaunamyndir

Þegar þessi orð eru rituð hef ég enn ekki séð þær fimm kvikmyndir sem komu við sögu á óskarsverðlaunahátíðinni seinustu og ég var hvað spenntastur fyrir að sjá. Kannski munu þær verðskulda hver sína grein en í þessari ætla ég að tala um þær sex sem ég hef þegar séð. Þó ekki um ævisögumyndina Elvis því að ég sofnaði nánast undir henni. Nú er ég almennt hlynntur stíl og líka í kvikmyndum en líkt og sumir rithöfundar eru stöku kvikmyndagerðarmenn (Wes Anderson og Baz Luhrman) farnir að kikna undan eigin stíl og þessi Elvis-ósköp náðu ekki til mín, ekki einu sinni aðalleikarinn sem var enda ekkert líkur Elvis. Þó var hann mun skárri en sú skrípapersóna sem Tom Hanks oflék. Ég verð líklega að viðurkenna að ævisögulega kvikmyndin (biopic á ensku) er ekki mitt form, flestar ofmetnustu óskarsverðlaunamyndir seinustu áratuga (Járnfrúin, Milk o.s.frv.) eru einmitt af þeirri tegund sem virðist höfða mjög til snobbsins. Nóg sagt um Elvis.

Ég er ekki heldur markhópur myndarinnar Allt, allstaðar, allt í einu sem flest verðlaun fær í ár. Ég fellst á að hún er sniðug á einhvern listaskólalegan hátt, litrík og minnir mig eiginlega mest á ballet, höfðar kannski líka til þeirra sem festust í súrrealismanum en ég held að raunsæismaðurinn afi gamli (sem lést 1999) hafi endurholdgast í mér því að ég horfði fyrst og fremst á hana af skyldurækni og fékk lítið úr henni, er þó aðdáandi Michelle Yeoh síðan hún lét í Krjúpandi dreka, tígri í felum (mynd sem hefði mun frekar átt að fá óskarsverðlaun) og Jamie Lee Curtis líka (frábær í Knives Out). Mig grunar að Hollywood haldi að myndin sé djúp af því að enginn skilur neitt í henni (eins og Matrix forðum) en ég sé það ekki heldur fannst mér ég bara staddur í skrítnum draumkenndum tölvuleik. Þessar hliðarveruleikapælingar minntu mig þannig eiginlega mest á draum minn nóttina áður þegar ég ætlaði að fremja stórkostlegt rán á verðlaunaathöfn í félagi við Mark Hamill og Carrie Fisher, sjálfur dulbúinn sem Jóhann Sigurðsson.

Living er líka flott mynd sem reynir að fanga hversdagsleika Lundúnabúa fyrir 70 árum og hefur margt með sér. Ég er nýbúinn að skrifa vel um Moffie í leikstjórn sama manns, Bill Nighy er sannarlega frábær leikari og auðvitað er ég aðdáandi Ikiru eftir Akira Kurosawa sem myndin er eins konar endurgerð á (játa aftur á móti á mig að vera aðeins kjalfróður um söguna Dauða Ivan Iljitsj eftir Tolstoj sem Ikiru var víst innblásin af). En þrátt fyrir allan sinn glæsileik og eftirstríðsáranostalgíu sótti ég ekki mikinn innblástur í Living. Auðvitað hefði Bill Nighy átt að fá óskarstilnefningu fyrir löngu. Eins getur mynd byggð á þessari sögu aldrei orðið þunn en fyrir mér var þetta endurtekið efni.

Illu heilli tengdi ég lítið við The Whale sem fjallar líka um deyjandi og sorgmæddan mann; kannski er ég þrátt fyrir allt ekkert mjög spenntur fyrir dauðanum (hann kemur samt). Vissulega tekur myndin (byggð á leikriti) sjálfa sig mjög alvarlega en þessi átök heilluðu mig ekki eða nein persónan; eiginlega kunni ég best við pizzasendil sem birtist í einni senu. Fólk sem er umhugað um fitufordóma hefur margt við þessa mynd að athuga; hún móðgaði mig s.s. ekkert sérstaklega en hversu mörgum fléttum (skilnaði, trúarbrögðum, fordómum) var hægt að troða inn í eina mynd? Fyrir utan að ég skil alls ekki hugmynd heimakennarans í myndinni um góðar bókmenntaritgerðir.

Ég geri mér grein fyrir að ég er eiginlega farinn að hljóma eins og Jón Viðar (sem raunar hefur mjög oft rétt fyrir sér) og það á enn eftir að versna. Ég komst ekki einu sinni í gegnum þýsku verðlaunamyndina Tíðindalaust af Vesturvígstöðvunum en það er þó ekki myndinni sjálfri að kenna. Miðað við þann þriðjung sem ég sá er þetta greinilega sú besta af þeim óskarstilnefndu myndum sem hingað til hafa verið ræddar. Á hinn bóginn er myndin einfaldlega allt of raunsæ fyrir mig. Ég á aldrei aftur eftir að horfa á raunsanna lýsingu á skotgröfum og hernaði til enda, hef hreinlega ekki taugar til þess. Ekki fremur en myndir sem gerast í fangabúðum nasista. Ég er á 53. ári og þetta einfaldlega get ég ekki lengur. En ég hvet alla sem þola til að sjá þessa mynd.

Að lokum er rétt að nefna kvikmyndina sem hafði einna mest áhrif á mig af þessum sex sem ég komst yfir í fyrstu atrennu og það er jafnframt eina kvikmyndin sem er leikstýrt af konu, hvort sem það er tilviljun eða ekki. Sú er Aftersun sem lýsir fríi ungs föður og 11-12 ára dóttur hans í Tyrklandi. Eitthvað er að hjá pabbanum en við komumst aldrei að því hvort það er andlegt eða líkamlegt eða hvorttveggja. Í myndinni eru nokkrar senur sem gerast í nútímanum sem ég skil ekki vel og fannst jafnvel óþarfar en það sem hefur lifað með mér eru senurnar úr fríinu, tilraunir feðginanna til að skemmta sér saman þrátt fyrir drungann og yfirþyrmandi sorgina sem hvílir á pabbanum sem þar að auki hefur greinilega takmörkuð fjárráð. Í einu atriði syngur stelpan þannig í karaókí og vill fá pabbann með en hann fær sig ekki til þess og það var hræðilegt á að horfa. Átakanleg og niðurdrepandi kvikmynd en sú eina af þessum myndum sem snart mig og sem mig langar til að ræða við einhvern sem hefur séð hana.

Previous
Previous

Þorsteins saga verður til

Next
Next

Drottningin og svikaprinsinn