Drottningin og svikaprinsinn

Stórmyndin um Margréti 1. drottningu Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs sem nú er á treymisveitum er vitaskuld ómótstæðileg fyrir okkur 14. og 15. aldar fríkin og ekki spillir fyrir að valinn maður er þar í hverju rúmi, þá ekki síst Trine Dyrholm jafnaldra mín sem nú er orðin nógu gömul til að leika drottninguna á efri árum (ef ég væri miðaldakóngur væri ég á síðustu skipunum, sárafáir af því fólki náðu sextugsaldri). Myndin er líka glæsileg á að horfa og færir mann á miðaldir hvað sem líður smáatriðum. Sagan gerist árið 1402, fimm árum eftir að Kalmarsambandið var formlega stofnað og fjallar um ógn sem að því steðjaði, þegar ungur maður birtist og þóttist vera Ólafur Hákonarson Noregskonungur sem hafði látist óvænt árið 1387. Síðan hafði Margrét ættleitt Eirík af Pommern frænda sinn (langafabarn Valdimars atterdag) og gert hann að konungi Norðurlanda.

Á tímum „alþjóðavæðingar“ er Kalmarsambandið eðlilega orðið heldur vinsælla en það var á þjóðhyggjutímunum á 19. og 20. öld. Eins er Margrét 1. eðlilegt rannsóknarefni því að fá dæmi eru um að drottning hafi náð viðlíka völdum á fyrri öldum og ekki síst vegna eigin kænsku og stjórnvisku. Á öldinni sem leið voru hún og fremsta drottning Englendinga mönnum eðlilega hugstæðar enda fengum við þá drottningarnar Elísabeti 2. og Margréti 2. sem ríktu alla mína æsku. Enginn efi er á að Margrét 1. var einstakt stjórnmálaséní og þessi mynd reynir að sviðsetja það með því að gera því skóna að svikaprinsinn „falski Oluf“ hafi í raun verið sonur hennar og með aftöku hans hafi hún því valið á milli ríkisins og sonarins. Ekki veit ég alveg hvað finnst mér um þessa fléttu. Er hún ekki enn einn angi af goðsögninni um að allar konur (en alls ekki allir karlar) sem fari með völd hljóti að verða skrímsli? Í ljósi þess að myndinni er leikstýrt af Charlotte Sieling og konur eru þar á öllum helstu póstum hefði ég viljað sjá aðeins femínískari nálgun hér. Ekkert bendir auk heldur til að hinn raunverulegi Ólafur hafi verið hér á ferð og eldri heimildir gefa alls ekki til kynna að Margrét hafi verið í minnsta efa um að hann væri ekki Ólafur konungur. En það er ekki í anda nútímakvikmyndalistar að leita átakana í sönnum sögum heldur er einfaldara að búa til eigin átök og helst sem hroðalegust.

Gaman þótti mér að sjá stuðningsmann hennar, Peder Jensen Lodehat, en ég held að nafnið Lodehat hafi aldrei verið skýrt svo að vel sé en virðist vísa til skrítins hattar í skjaldarmerki ættarinnar. Þá þótti mér leikarinn sem lék Eirík af Pommern standa sig vel en ljóst er þó að Eiríkur hefði seint risið upp gegn Margréti þar sem hans tilkall til valda var algerlega sótt til hennar og eftir andlát hennar var honum steypt þannig að hann lauk ævinni sem sjóræningi og náði raunar hinum fáheyrða aldri 77 ára en það aldursmet var ekki slegið fyrr en á 20. öld. Myndin hefst á því að Eiríkur er kynntur fyrir brúði sinni sem reynist vera átta ára stelpa. Sem betur fer dettur engum í hug að um samlífi þeirra verði að ræða en hann bætir sér það upp með hirðkonu, í helsta „Hilmis-Snæs-atriði“ myndarinnar.

Skömmu eftir að ég sá myndina barst mér nýtt Scandinavian Studies og þar var einmitt grein um Falske Oluf eftir hinn ágæta fræðimann Richard Cole sem setur bréfin sem voru brennd með honum — bíómyndinni verður því miður ekkert úr þeim — í samhengi við gildi bréfa á miðöldum, svikaprinsa o.fl. Greinin er skemmtileg og spennandi en auðvitað var enn áhugaverðara að lesa hana í kjölfar myndarinnar. Sjálf myndin varð mér til mikillar ánægju líka en hefði líkast til verið enn betri ef Charlotte Sieling og félagar hefðu valið að glíma við atburðarásina eins og hún var í raun.

Previous
Previous

Verðlaunamyndir

Next
Next

Morð í norðri