Morð í norðri

Á páskunum sýna norrænar sjónvarpsstöðvar alltaf glæpaþáttaraðir og í þessu tilviki tvær sem ég hafði ekki treyst mér til að horfa á textalausar á KVF og SVT fyrr í vetur, hina færeysku Trom og hina sænsku Atburði við vatn. Í nútímanum byrjar maður að horfa í sjónvarpinu með aðstoð græna hnappsins en finnur þær að lokum á streymisveitu og horfir á allt í einu, a.m.k. gerðist það með þessar báðar. Ég er ekki einn þeirra sem legg allt sem tengist glæpum að jöfnu (t.d. ekki mínar eigin bækur og iðnaðarframleiðslu) og Atburðir við vatn er bók sem á sínum tíma fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs því til staðfestingar að sögur um glæp geti verið bókmenntir. Ég las hana síðan á dönsku þegar ég bjó þar í landi haustið 1998 og hef haldið upp á mitt eintak. Hún var áhrifamikil en torsótt og að mörgu leyti fannst mér nýi sænski þátturinn aðgengilegri og miðlaði þó því sannfærandi að bókin væri listaverk en ekki skyndibiti. Eins og mig minnti er sagan langáhrifamest fyrst þegar söguhetjan Annie kemur að heimsækja kærasta sinn en hann er önnum kafinn við framhjáhald þannig að hún þarf að leggja í margra klukkustunda göngutúr í óbyggðum til að finna hippakommúnu hans og á leiðinni rekst hún á blóði drifin lík. Þetta er fyrsti þátturinn í syrpunni og hann er óþægilegur og magnþrunginn. Afgangurinn snýst um að leita skýringa og auka dýptina, eins og stundum er með skýringar í raunveruleikanum er mörgu þó ósvarað.

Höfundurinn Kerstin Ekman er ein þeirra fyrstu sem fékk að hætta í sænsku akademíunni og kunni kannski aldrei við sig í þeim klúbbi þó að tilefnið væri fatwað gegn Rushdie. Atburðir við vatn er eins konar tilvistarsaga með morðgátu í miðjunni og það sem gerir að verkum að hana má samt flokka sem sakamálasögu er að gátan leysist. Eins og stundum í slíkum tilvikum er lausnin hálf klén og varpar fyrst og fremst ljósi á tilviljanir tilvistarinnar. Aðalpersónurnar eru annars vegar Annie sem er leikin af Pernille August og nauðalíkri dóttur hennar. Hún eltir sæta manninn sem sjá má að ofan í eins konar sértrúarsöfnuð eða hippakommúnu sem drjúgur hluti bókar og þáttaraðar fer í að lýsa. Það er natin og djúp lýsing sem á fátt sameiginlegt með ósannfærandi og yfirborðskenndum kommúnum og sértrúarsöfnuðum í sumum öðrum sjónvarpsþáttum (m.a. íslenskum). Kærastinn er þar lykilpersóna, yfir honum er ístöðuleysi sem gerir að verkum að þetta prójekt gengur ekki upp fyrir Annie sem seinna eignast minna sjarmerandi en traustari miðaldra kærasta. Hin aðalpersónan er Johan sem er aðeins 17 ára og er hent í brunn af bræðrum sínum, svipað og Jósef í Biblíunni. Það er hroðaleg sena í þættinum eins og í bókinni. Síðan flýr hann héraðið á dularfullan hátt og Annie heldur alla tíð að hann sé morðinginn því að hún sá hann á vettvangi. Mörgum áratugum birtist hann aftur og er þá leikinn af öðrum leikara en með sömu hárgreiðslu sem augljóslega hjálpar áhorfendum en maður spyr sig þó hversu trúverðugur maður með sömu hárgreiðslu 17 ára og 35 ára sé. Þetta er einn örfárra galla á áhrifamikilli þáttaröð (hinn er jafnvægið í sögunni en það er auðvitað sótt í bókina). Á flóttanum er Johan „rænt“ af finnskri konu sem notar hann sem kynlífsþræl og hefur mörgum gagnrýnanda þótt þetta frekar furðuleg saga og úr takt við restina. Mér fannst það á sínum tíma þegar ég las bókina en sættist við það í þættinum enda finnska týpan vel leikin af báðum leikkonum. Ég er samt enn að velta fyrir mér hvað þetta aukaplott eigi að merkja (spurning um að senda Ekman bréf en hún verður níræð á þessu ári).

Í samanburði við Atburði við vatn er Trom hálfgert léttmeti þó að byggð sé á bókum Jógvan Ísaksens sem ég þekki beinlínis frá sömu Danmerkurdvöl og þegar ég las Atburði við vatn fyrst. Einhverjar bækur Jógvans hef ég lesið (a.m.k. þá sem var þýdd á íslensku) en man þær ekki vel, hef þó grun um að Trom fari mjög frjálslega með söguefnið. Blaðamaðurinn Hannis Martinsson er ekki beinlínis aðlaðandi persóna, hann anar um allt og frenjast og kallar það rannsóknir (kannski er það raunsönn lýsing á rannsóknarblaðamönnum!), lemur fólk og ber, hótar og hamast. Í þessum þætti rænir hann beinlínis einum grunuðum og hendir ofan í skottið sitt. Á áhorfandinn að hafa einhverja samúð með þessari hegðun? Á bak við er lífssýn um að allt sé spillt og vonlaust í Færeyjum sem ég get ekki dæmt um hversu sönn er en sú kveinhornssýn er vissulega algeng. Heldur skárri aðalpersóna er lögreglukonan Karla Mohr sem kemst í bobba þegar sonur hennar Gunnar virðist tengjast málinu. Hún hegðar sér þó ekki mjög gáfulega heldur en er greinilega mjög verndandi móðir sem m.a. stendur nokkrum sinnum í þættinum og horfir á sofandi son sinn.

Í stuttu máli er fléttan í Trom hvorki djúp né heillandi né endilega trúverðug en þátturinn er samt góð skemmtun ef maður elskar færeysku og Færeyjar eins og ég. Þetta er allt þess virði til að sjá land og þjóð og gerir minna til þó að hraðinn sé stundum talsvert meiri en í sænska þættinum og enginn tími gefinn til að kynnast persónum öðrum en Hannes og Körlu. Ég mun samt horfa á framhaldið og heimta fleiri færeyska þætti!

Previous
Previous

Drottningin og svikaprinsinn

Next
Next

„Er það ekki þitt verk?“