„Er það ekki þitt verk?“

Ég held að ég hafi tekið endanlega ákvörðun um að gerast feministi 17 eða 18 ára, nýbúinn að lesa Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur og horfa á myndina Bostonians þar sem persóna leikin af Christopher Reeve hélt karlremburæðu um feminista. Þó að mér fyndist ég hafa tekið ákvörðunina alveg sjálfur var auðvitað grunnur að henni löngu lagður heima með því að hlusta á foreldra mína. Síðan má ekki gleyma barnabókum eins og Áróra í blokk X sem hafði talsverð áhrif á mig og einkum eineltisatriðið þegar „vinkonur“ Áróru fá hana til að leika „leik“ sem snýst einkum um hefðbundin kynjahlutverk sem eru á skjön við siðvenjur fjölskyldu hennar sjálfrar. Leikurinn á greinilega að vera félagsmótun og fá Áróru til að skilgreina sjálfa sig og fjölskyldu sína sem öðruvísi og öfugsnúna og það var eitthvað við þetta sem mér fannst sérlega átakanlegt, eins og annað einelti sem lýst var í barnabókum.

Auðvitað var ekki erfitt fyrir mig að skilja hvernig Áróru leið að vera bent á að vera öðruvísi en hinir, sjálfur alinn upp á heimili þar sem mamman hafði meiri háskólamenntun en pabbinn, verandi einn af þessum innan við 2% þjóðarinnar sem ekki heyrði til þjóðkirkju og sótti allt mitt vit í dagblað sem var varla lesið af nema 10-20% — og þetta var aðeins hluti af því sem var öðruvísi við okkur öll og við mig sérstaklega. Sem betur fer voru til norrænnar barnabókmenntir sem voru ágætt móteitur við þessu enda er það kenning mín að flest jákvæð viðhorf á Íslandi séu komin úr erlendum afþreyingariðnaði en hann kom sem betur fer ekki aðeins frá einu samfélagi á þeim tíma.

Í atriðinu sem um ræðir á Áróra að vera „pabbinn“ sem fer í vinnuna og kemur heim og þegar „mamman“ sem segir honum frá húsverkum sínum á hann að lýsa frati á þau með setningunni sem tilfærð er sem fyrirsögn þessa spjalls. Vinkonan þarf að kenna Áróru að segja þetta og um leið er stelpan kynnt fyrir því sjónarmiði að húsverk séu ekki frásagnarverð. Faðir hennar er heimspekingur og er heima að skrifa doktorsritgerð um Sókrates. Það er eins virðuleg ástæða til að vera heima og hugsast getur en samt gerir þetta fjölskyldunni að jaðarfólki í samfélagi blokkarinnar. Sjálfur var ég alinn upp í blokk og á næstu grösum voru háar blokkir eins og sú sem Áróra bjó í. Þetta var á þeim tímum sem íslensk börn þurftu að kynnast eigin heimi í erlendum bókum því að þær íslensku gerðust gjarnan í sveit og fjölluðu um samskipti drengs og hunds. Mér var ekki vel við hunda.

Ekki veit ég hvers vegna íslenski þýðandinn breytti Z í X en hitt sem ég man vel úr bókinni er að Áróra kynntist stærri og ögn háskalegum dreng sem hét Knútur en hann reyndist henni samt betur en vinkonurnar. Þarna var að fæðast hugmyndin um að strákar og stelpur gætu verið vinir — en mörg ár áfram hélt (aðallega ameríski) afþreyingariðnaðurinn áfram að sannfæra okkur um að það væri ómögulegt. Eins var okkur kennd mikilvæg lexía um að oft er flagð undir fögru skinni og öfugt. Ég er löngu búinn að gleyma hinum Árórubókunum eða hvernig fór með samskipti Áróru og Knúts en mikið gat blokkarbarnið ég lifað mig inn í þetta allt.

Previous
Previous

Morð í norðri

Next
Next

Úlfdalir skálds