Úlfdalir skálds

Það gisti óður
minn eyðiskó
er ófætt vor
bjó í kvistum,
með morgunsvala
á sólardyr
leið svefninn ylfrjór
og góður.

Í Völundarkviðu (sem ég vinn nú við að þýða) er rætt um Úlfdali en aldrei skýrt hverjir þeir séu og þó að aðrir Úlfdalir séu til grunar mig að þaðan sé sótt vísunin í kvæði Snorra Hjartarsonar sem tilfært er hér að ofan, en 22. apríl er einmitt fæðingardagur hans (hann fæddist árið 1906). Snorri er eitt fárra íslenskra skálda sem hefur hlotið merkan erlendan heiður því til sönnunar að virðing hans ræðst ekki af hérlendum venslum. Það tók mig þó tíma að verða handgenginn Snorra sem skáldi, hann var gamall maður þegar ég var barn og kvæði hans iðulega knöpp, torskilin og full af vísunum og ekki jafn barnvæn og t.d. það sem Steinn Steinarr orti.

Í þessu tilviki breytir vísunin í Völundarkviðu kvæðinu því að sá sem býr í Úlfdölum í því forna kvæði er ástfangið yfirgefið skáld og allur sá harmur sem finna má í þeim tregablandna óð flyst þá yfir í hið knappa ljóð Snorra. Líkt og ókunnir höfundar eddukvæða var hann meistari hljóðstafanna sem í þessu tilvik eru sérhljóðar. Eins og oft hjá Snorra draga þeir fram sérstaklega mikilvæg orð í kvæðinu. Hinn táknræni eyðiskógur sem fær heimsókn óðs á ófæddu vori er sennilega myndhverfing um skáldið sjálft og þess tilfinningalíf en svalinn á sólardyrunum dregur andstæður óðsins og eyðiskógarins enn frekar fram og niðurstaðan er sérstakur galdur andstæðna sem rímar vel við Völundarkviðu.

Vitaskuld hvarflar að manni líka að upphaf kvæðisins gæti verið einföld bein mynd komin úr dal þar sem íslenskur svali virðist í torkennilegri andstöðu við fegurðina og birtuna, ekki síst þegar vorið ætti að vera á leiðinni en eins og við Íslendingar vitum er þess stundum langt að bíða. Hvað um það finnst mér viðeigandi í byrjun sumars að minnast Snorra á afmælisdegi hans.

Previous
Previous

„Er það ekki þitt verk?“

Next
Next

Samúðin með ræningjanum