Samúðin með ræningjanum

Ef til vill hef ég séð kvikmyndina Dog Day Afternoon (ísl. Á heitum degi) áður en ég endurnýjaði kynnin nýlega og leið eins og ég væri að sjá hana í fyrsta sinn. Nú er ég bæði aðdáandi Al Pacinos en finnst líka hann eiga til að ofleika stórkostlega; í þessari mynd er hann upp á sitt besta og myndin hefur elst frámunalega vel. Mér finnst iðulega að nútíminn hefði gott af að kynna sér 8. áratuginn enda ímynduð róttækni nútímans sjaldan meira en 8. áratugar skoðanir, stundum ekki einu sinni jafn góðar, í stöku tilvikum betri. Um þetta er þessi mynd ágætt dæmi, hún sýnir bankarán frá sjónarhorni bankaræningjans sem öll samúðin er með en raunar líka með fólkinu sem vinnur í bankanum og er tekið í gíslingu og jafnvel smávegis með löggunni sem þarf að leysa málið. Sérstaklega áberandi finnst mér hversu lifandi og eðlilegar persónur gíslarnir eru, ekki síst yfirgjaldkerinn sem er leikin af hinni ágætu sviðsleikkonu Penelope Allen sem er sjaldséð á tjaldinu, um leið er skemmtilegur samleikur milli gísla og ræningja, en einnig milli ræningjanna sjálfa. Hinn ágæti John Cazale sem dó nokkrum árum síðar er hinn ræninginn. Í raunverulega atvikinu sem byggt er á var það 18 ára strákur en Cazale er í staðinn hálfgerður einfeldingur sem stingur upp á Wyoming þegar Pacino spyr hann til hvaða útlands í heiminum hann vilji fara.

Það virðist einhver teoría núna í gangi um að gamansemi eigi ekki heima í sakamálasögum en þær bestu eru einmitt drepfyndnar. Ég minni á sögur Sjöwalls og Wahlöö, sögur Ed McBain og fleiri. Þessi bíómynd er ekki síður gamanmynd en spennumynd og handritið feykilega vel skrifað (enda fékk það óskarverðlaun). Stundum á ég erfitt með að einbeita mér þegar ég horfi á myndir í tölvunni en í þessu tilviki var ég bergnuminn allan tímann. Sagan um ránið tekur þannig gamansaman snúning strax í upphafi þegar einn bankaræninginn (táningur sem fylgir Pacino og Cazale) heykist á öllu saman og fær að flýja úr bankanum. Annar snúningur gerist þegar í ljós kemur að lítið af peningum er í bankanum og sá þriðji þegar almenningur fyrir utan bankann reynist almennt standa með bankaræningjunum (það er þá sem Pacino fer að hrópa „Attica, Attica“ með vísun til fangauppreisnarinnar þar sem lögreglan varð að lokum blóðug upp að öxlum). Það er eitt af mörgum dæmum um atriði sem eru bæði kímin og alvarleg því að Attica-fangaóeirðirnar voru á sínum tíma skýrt dæmi um hvers vegna almenningur varð gagnrýnnni á lögreglu og yfirvöld.

Enn einn snúningur verður á fléttunni þegar í ljós kemur að ránið hefur þann tilgang að borga fyrir kynskiptaaðgerð eiginmanns Sonny sem Al Pacino leikur. Þetta kemur flestum persónum sögunnar í opna skjöldu og er að mörgu leyti góð úttekt á viðbrögðum fólks við kynusla á 8. áratugnum, hann var svo óvenjulegur að fólk sá hann stundum ekki og varð frekar forviða en uppfullt af hatri eða heift. Á endanum hefur þessi orsök engin grundvallaráhrif á atburðarásina sem áfram snýst um hvernig lögreglan reynir að gabba bankaræningjana úr bankanum – eftir að hafa sent þeim pizzur með sendli sem er greinilega aðdáandi ræningjans og stendur sig vel sem „comic relief“.

Öll þessi gamansemi gerir ekkert minna úr alvöru myndarinnar. Hún snýst á endanum um stöðu almennings gagnvart stofnunum samfélagsins og kapítalismans. Tiltrúin á þessum stofnunum er lítil sem engin árið 1975 (hún átti svo eftir að vaxa á ný með Reaganismanum og 30 ára blómaskeiði nýfrjálshyggju) en um leið er skilningur á því (heldur meiri en í íslensku afþreyingarefni) að fólk sem vinnur í banka er ekkert endilega illmenni, ekki einu sinni allar löggur.

Previous
Previous

Úlfdalir skálds

Next
Next

Rausað um rím