Rausað um rím

Í sléttubönd vatnsfelld og stöguð
hún þrautpíndan metnað sinn lagði
í stuðla hún klauf sína þrá
við höfuðstaf gekk hún til sauða.

Jóhannes úr Kötlum orti þetta í miðri ljóðabyltingu um miðbik 20. aldar og allir sem fara með þessar línur heyra strax að þetta er háttbundið ljóð, það gerir hrynjandi ljóðsins. Á hinn bóginn fylgir það ekki rímreglum um stuðlasetningu og endarím og telst því nútímamegin í deilu sem snerist fyrst og fremst um rím. Bókmenntaprófessorar við Háskóla Íslands fá enn reglulegar spurningar um álit sitt á ljóðlist og þrátt fyrir að mér finnist Jóhannes hafa jarðað spurninguna í ljóðinu í eitt skipti fyrir öll snýst þessi áhugi enn um rím. Finnst mér ljóð án ríms vera ljóðlist? Hvort finnst mér betri ljóð með rími eða án? Það eru enn til miklir stuðningsmenn ríms sem hafa aldrei samþykkt órímuð ljóð. Auðvitað verða allir vísindamenn að gæta þess að dæsa aldrei yfir spurningum frá þeim sem ekkert vita, annars eru þeir sakaðir um hroka. Samt grunar mann að eðlisfræðingar séu aðeins sjaldnar yfirheyrðir af fólki sem telur sig kunna eðlisfræði.

Eddu- og dróttkvæðamönnum eins og mér finnst auðvitað furðulegt að skilgreiningin á hefðbundnum skáldskap sé enn miðuð við endarím. Hitt blasir við að Íslendingar eru enn afar hrifnir af rími. Þegar fólk fer að myndast við að yrkja rímar það gjarnan af mikilli ákefð en skilur hvorki hrynjandi né stuðla. Þetta veit ég vegna þess að ég var einu sinni í dómnefnd í Maístjörnuverðlaununum þar sem allar íslenskar ljóðabækur ársins koma til greina. Hinn algengi skólinn er fólk sem vill tjá erfiðar tilfinningar en hefur ekkert sérstakt vald á orðunum og innan um er stöku gamansamur hagyrðingur sem fórnar öllu efni fyrir rímið. Þó að það hljómi fáránlega einfalt er það vald á orðunum fyrst og fremst sem aðgreinir ljóðskáld frá þeim sem rembast við að ríma eða langar til að tjá sig.

Auðvitað er aðeins erfiðara að hafa vald á orðunum en að kunna reglur um stuðla og höfuðstafi. Kannski er ég erfiður bókmenntaneytandi vegna þess að ég sakna stundum valdsins á orðunum jafnvel hjá sæmilega vel metnum höfundum – þetta er ein skýring á hvers vegna ég skrifa meira um sjónvarp en bækur því að ekki vilji ég vera einn af þeim sem talar ekki um annað en vont málfar. Enn sjaldgæfara er auðvitað að höfundar tjái áhugaverðar hugmyndir en það er ekki heldur á margra færi yfirleitt. Allra bestu höfundar ná hvorutveggja. Jóhannes gerir það í órímaða ljóðinu að ofan þar sem hin sterka hrynjandi ljóðsins leikur lykilhlutverk í þeim tilgangi hans að afhjúpa rímþráhyggju þjóðarinnar.

Previous
Previous

Samúðin með ræningjanum

Next
Next

Matarsnobbið úrbeinað