Matarsnobbið úrbeinað

Þegar þessi orð eru rituð hef ég enn ekki horft á óskarsverðlaunamyndir ársins en ráðagerðin er að horfa á nokkrar og skrifa um hér á síðuna í maí. Aftur á móti hef ég séð myndina Matseðilinn (The Menu) sem hefur vakið heilmikla athygli og meðal annars verið dæmd í gáfumannablöðunum sem ég les. Aðstandendur myndarinnar eru ekki tiltakanlega frægir þannig að væntanlega er það fremur efnið sem vekur athygli: frægur kokkur býður hóp manna á veitingastað á eyju en í ljós kemur að hann hefur illt í hyggju og ætlar að vinna sinn lokarétt úr gestunum, starfsliðinu og sjálfum sér. Eins er gáfumannahryllingsmyndin augjóslega í tísku núna og kannski hef ég ekki horft nógu oft á myndina eða tengi ekki við greinina. Vinur minn hefur séð hana sex sinnum og elskar hana og er smekkmaður.

Aðalpersónan er fylgikona (eða lúxushóra) sem hefur verið leigð af ungum matarsnobbara til að fylgja honum í þetta hinsta boð eftir að kærasta hans sagði honum upp og datt úr skaftinu. Hún er því eins konar „lokastúlka“ (final girl) hryllingsmyndarinnar en í þetta sinn ekki táknmynd sakleysis og hreinleika nema í þeim skilningi að hún er laus við allt matarsnobb, þekkir ekki gúrúinn og þykir matur hans ekkert sérstakur og er þar af leiðandi utan við heiminn sem myndin snýst um. Eins konar hátindur myndarinnar er þegar hún ögrar hinum fræga kokki til að búa til hamborgara í stað snobbréttanna og eftir að hún hefur lýst ánægju með þann einfalda rétt leyfir hann henni að sleppa. Annars kemst enginn burt úr þessu boði og starfsliðið vill það ekki einu sinni, án þess að við fáum skýringu á því.

Ádeilan á matarsnobbið er verðskulduð og fyndin en ég á svolítið erfitt með að tengja við óbeitina á þessu sakleysislega fólki sem til stendur að matreiða í myndinni. Einhvern veginn finnst mér að það eigi hér að leynast myndhverfing um hið vestræna auðhyggjusamfélag og uppskafningshátt þess en ekki veit ég hvort mér finnst hún bíta þó að óneitanlega sé myndin bæði vel gerð, spennandi og áhugaverð lengi framan af. Er ég kannski of mikill realisti? Það veit ég ekki en ég vil helst geta tengt við fólkið og það hefði verið gaman ef meiri vinna hefði verið lögð í persónurnar. Til dæmis hefði mátt eyða meiri orku í matarsnobbarann Tyler sem er eini gesturinn sem virðist hafa grun um hvað standi til. Hann á greinilega að vera holdgervingur snobbsins en kannski er ég ekki nógu mikill andstæðingur snobbs til að geta hatað Tyler greyið. Eiginlega finnst mér snobb skárra en margt annað og hugsanlega fór satíra myndarinnar þess vegna fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Auk heldur finnst mér reyndar satíran sem form hafa náð hátindi sínum á 18. öld. Nútímann vantar alla frumlega hugsun eða sjálfstæði frá kapítalinu til þess að satírur bíti. Að lokum er bitið í borgara en ég er ekki viss um að nein bitför sjáist á neyslusamfélagi 21. aldar.

Previous
Previous

Rausað um rím

Next
Next

Hin réttsýna fósturmóðir