Hin réttsýna fósturmóðir

Nýlega lauk þáttaröðinni Hamingjudal og ég gat horft á alla 18 þættina á RÚV frelsi sem er þakkarvert. Þættirnir gerðust á níu árum og voru framleiddir á jafn löngum tíma með þeim afleiðingum að aldrei þessu vant er ein aðalpersónan sem bæði sést sem barn og unglingur leikin af sama leikara. Þessi þolinmæði ber vott um djúpa íhygli og vandvirkni sem einkennir þessa þætti yfirleitt en þeir eru hugarfóstur Sally Wainwright sem einnig skrifaði Síðasta tangóinn í Halifax og er Jórvíkurskíriskona. Þar gerast þættirnir, í fallegu bæjarstæði Hebden Bridge þar sem aðalpersónan Catherine Cawood býr. Hún er miðaldra hörkutól sem hefur orðið fyrir persónulegri ógæfu sem henni (eins og flestum) gengur illa að vinna úr og hefur tekið að sér barnabarn sitt sem er jafnframt sonur nauðgara dótturinnar, magnaðs siðblindingja sem er fullur af sjálfsvorkunn og er meistari í að blekkja aðra til að vorkenna sér líka. Fáir standast hann í návígi nema helst Catherine.

Catherine er bæði vinsæl og óvinsæl í vinnunni, hún er stór persónuleiki sem fólki þykir vænt um vegna þess hversu heiðvirð hún er (nú er liðin tíð í sjónvarpi að löggur verði hetjur á því að fylgja ekki reglum — loksins eru allir farnir að skilja að ferlar skipta máli) en um leið getur hún verið stöð eins og múlasni, uppstökk, erfið og hvassyrt. Það tekur á að vinna með henni en samt kunna allir að meta hana og hún býr ekki við neinar sérstakar ofsóknir yfirmannanna umfram það sem eðlilegt getur talist (önnur klisja sem ég er þakklátur að losna við). Auk hennar eru aðalpersónurnar veiklunduð en góðgörn systir, brothættur dóttursonur og siðblindinginn sem nauðgaði dótturinni og heldur áfram að eitra líf þeirra allra með nálægð sinni. Auk heldur birtast nýjar persónur í hverjum þætti sem eru vel mótaðar og sannfærandi, bæði löggur og bófar eða hvorttveggja. Enn smærri persónur eru á sviðinu mestalla þættina og einnig þær eru vel skrifaðar í fáum dráttum. Sally Wainwright er höfundur af kaliberi Sjöwall og Wahlöö, ekki jafn fyndin, kaldhæðin eða gagnrýnin á samfélagið, en hefur djúpan mannskilning og handritið er þannig gott akkeri fyrir allan þáttinn (sem er vonandi lokið enda standast Bretar oft freistinguna sem Ameríkanar falla alltaf fyrir að halda áfram að borða uns maður gubbar í metafórískum skilningi).

Í öllum 18 þáttunum er glímt við efann um hvort Catherine sé þrátt fyrir allan sinn heiðarleika og réttsýni hugsanlega vondur uppalandi og þátturinn nær hámarki þegar niðurstaðan fæst í því. Sígildar spurningar um eðli og uppeldi eru lagðar fyrir áhorfendur og tískan hefur greinilega breyst því að þátturinn reynist ákveðið uppeldismegin (mamma heitin hefði glaðst). Þetta skiptir máli fyrir mat á persónu illmennisins Thomas Royce sem er vissulega sjálfhverfur, siðblindur, ofbeldishneigður og grimmur en hefur líka verið alinn upp við ömurlegar aðstæður sem gætu hugsanlega spillt hverjum sem er. Eins og margir siðblindingjar er hann heillandi á sinn hátt og það staðfestist í þriðju syrpu þegar hann hefur náð að leika á veiklundaða systur Catherine og kærasta hennar sem hefur enn minni styrk og um leið auðvitað uppeldissoninn sem þó hefur það sér til afbötunar að vera ungur og reynslulítill. Aðeins Catherine stendur fast gegn sjarma hans en það kostar bæði hana og aðra.

Annað sem er áhugavert við þáttinn eru þær ólíku tegundir glæpamanna sem eru sýndar. Við sjáum geðþekka en samviskulausa stórglæpamenn sem minna á viðskiptajöfra. Einnig birtast sympatískir en veiklundaðir venjulegir menn sem lenda í flóknum aðstæðum og fremja glæpi sína hálfgert fyrir slysni. Þriðji hópurinn eru hálfgerð grey sem eru í smáglæpum vegna skorts á tækifærum og vilja helst ekki gera neinum mein. En að lokum eru það grimmdarseggir eins og Royce sem ná með hrottaskap sínum að breyta því sem átti að vera glæpur nokkurn veginn án fórnarlambs í allt annað og verra. Það merkilega er að það örlar á samúð með velflestum týpunum, jafnvel sjálfum Royce, en niðurstaða þáttanna er samt að hin stundum harkalega siðferðiskennd Cawood sé eini áttavitinn sem skilar manni rétta leið.

Previous
Previous

Matarsnobbið úrbeinað

Next
Next

Tilvistarangist njósnarans