Tilvistarangist njósnarans

Í vor féll ég í þá freistni að horfa aftur á sjónvarpsþáttinn Blindskák (enska: Tinker, Tailor, Soldier, Spy) sem ég var of ungur til að sjá þegar hann var sýndur hér fyrst árið 1980 en ég var þó samt að sjá í a.m.k. annað sinn því að ég á hann líka á dvd-disk en er hættur að hreyfa spilarann, illu heilli. Í þættinum leikur Alec Guinness njósnarann George Smiley en þátturinn er eftir skáldsögu John Le Carré sem ég hef líka lesið enda átti pabbi hana, ekki jafn oft og Smiley’s People en báðar sögurnar höfða mjög til mín. Þær eru stundum flokkaðar sem reyfarar vegna þess að í þeim má finna ráðgátu og spennu en í raun eru þær hvorki hraðar né einfaldar né heldur er spennan aðalatriðið. Réttara væri að lýsa þeim sem samfélagslegri lýsingu á þeim menningarkima sem njósnasamfélagið er og sálfræðilegri úttekt á áhrifunum á mennina sem vinna í þessum skrýtna heimi þar sem svik og fals eru eðlilegur hluti lífsins.

Það er enginn vafi á því að hjá Le Carré er njósnarinn fyrst og fremst myndgerving um manninn sjálfan: fláraðan, svikulan, ístöðulausan og stundum ósýnilegan. George Smiley er lítill, þybbinn og óáhugaverður náungi en þegar djúpt er kafað innra með honum er hann síst minna spennandi en aðrir. Hann er líka fær fagmaður sem rís næstum því á tindinn í stjórnkerfi njósnanna í Bretlandi, nýtur virðingar hjá flestum en aðdáunar hjá fáum. Á einhvern hátt er hann þó gegnheill og trúr því sem hann hefur helgað líf sitt, án þess endilega að skilja hvers vegna. Í Smiley býr innsæi sem gerir hann að snjöllum leynilögreglumanni ásamt rökvísinni. Aðrir njósnarar eru fjölbreyttur hópur með hina og þessa veikleika. Glíma hans í þessari bók (og þættinum) er fyrst og fremst við félagana þó að yfir öllu voki glíman við Sovétríkin sem er þó aðallega vettvangur átakanna en ekki áhugaverð í sjálfri sér.

Í Blindskák þarf Smiley að svæla fram moldvörpu sem hefur verið við sína iðju í árabil og gert bresku leyniþjónustunni margvíslegan grikk. Sá er greinilega að einhverju leyti byggður á hinum raunverulega njósnara Kim Philby (1912–1988) sem fór sínu fram um áratugaskeið og svör hins seka þegar reynt er að grennslast fyrir um orsakir svikanna eru áhugaverð. Njósnarinn er löngu hættur að trúa á það Bretland sem enn þykist vera til og á það sennilega sameiginlegt með flestum hinna því að tryggð Smileys snýst greinilega líka um eitthvað annað en djúpa sannfæringu. En með því að svíkja Bretland hefur moldvarpan líka svikið vin sinn og það er greinilegt að þau svik eru mun alvarlegri. Svik, dulargervi og lygar eru býsna algeng þemu í verkum Le Carrés enda var hann sjálfur bæði fv. njósnari og fv. leikari og auk heldur sonur svikahrapps sem laug sig inn á fólk.

Hvernig getur einn lítill njósnari haldið í mennsku sína í ljósi allra erfiðu ákvarðanana sem viðkomandi þarf að taka? Núna á tímum mikils siðferðisbelgings hefðu flestir gott að kynnast Le Carré á ný, höfundar hinna gráu tóna og óljósu sanninda.

Previous
Previous

Hin réttsýna fósturmóðir

Next
Next

Að herða ungling