Að herða ungling

Hvað verður um drengina okkar í kerfi sem kemur ekki til móts við þá? er algeng setning í umræðunni. Þeir þurfa þá að aðlagast, hugsa ég oftast grimmdarlega, enda sjálfur alinn upp áður en hrekkusvínin urðu fórnarlömb, í samfélagi sem ég vissi mætavel að gerði ekki ráð fyrir mér að svo fjölmörgu leyti og myndi aldrei gera. Hvað er að því að reyna að vera sniðugur, laga sig að fjandsamlegum heimi og sjá hvernig gengur? Á hinn bóginn er oft enginn hægðarleikur að aðlagast og þar fyrir utan er aðlögunin vitaskuld ekki alltaf að neinu sem kalla mætti gott, fagurt og æskilegt. Í kvikmyndarannsóknarverkefni janúars sá ég tvær nýlegar myndir frá enskumælandi löndum sem ég hafði lesið um í ensku bókmenntablöðunum mínum (sjá fyrri grein) en fjalla einmitt um unga brothætta menn sem þurfa að laga sig að heimi eitraðrar karlmennsku og það kostar þá mikið. Þetta er eitt af mínum hugðarefnum enda stórt tema í nútímamenningu.

Önnur heitir Moffie og fjallar um suður-afrískan hvítan táning sem er fluttur með lest lengst inn í eyðimörkina til að gegna herþjónustu (til að berja á öðrum kynþáttum) en þjálfunin snýst um stöðuga lítillækkun í því skyni að herða ungu mennina til að gegna starfi drápara. Söguhetjan Nicholas er greinilega frá upphafi smeykur en það sjáum við bara þegar kvikmyndavélin kemur nálægt honum því að hann er staðráðinn í að vera svalur og nánast ósýnilegur en þá tilfinningu þekkjum við eflaust mörg. Síðar kemur í ljós að það stafar m.a. af því að hann hrífst af karlmönnum en það er öruggasta leiðin til útskúfunar í þessu umhverfi. Einn vinur hans er ekki jafn varkár eða jafn staðráðinn í að hverfa í fjöldann og fyrir vikið hverfur sá náungi skyndilega úr hópnum (öfugt við Nicholas sem fer huldu höfði til að hverfa ekki!) og sést ekki meir. Síðar reynist hann hafa verið látinn sæta hrottalegri geðmeðferð sem skilur hann eftir brotinn mann. Öll áherslan í myndinni er á það hvernig Nicholas herpist smám saman inn í sjálfan sig og lifir af með því að sjást varla. Eina uppreisn hans er þegar hann fer að leita að félaganum horfna en er lattur mjög til þess af kerfinu og kemst ekkert áleiðis. Myndin er mjög falleg sem skapar sterka andstæðu við hið nöturlega efni; náttúra Afríku líka vel nýtt og skapar sterka kennd innilokunar.

Hið sama á við um hina myndina sem ég daginn eftir sem var írsk og heitir Michael Inside en þar er söguefnið fangavist kornungs manns sem tekur að sér að gæta fíkniefna fyrir vin sinn og er gripinn með þau. Síðan fjallar myndin um hvernig réttarkerfið fer með drenginn og ekki síst biðina eftir fangavistinni en myndin er óvenjuleg að því leyti að lögð er áhersla á hin hægu skref áður en „réttlætinu“ telst fullnægt og áhorfendur fá að taka þátt í þjáningarfullri bið Michaels eftir refsingu og taka með honum hvert skref fram og að lokum fangavistinni þar sem Michael er smám saman dreginn tregur inn í lögmál hinnar eitruðu karlmennsku. Öfugt við Nicholas verður hann ekki að skuggaveru heldur breytist af illri nauðsyn í harðjaxl en áhrif aðstæðnanna á það eru ótvíræð og niðurstaðan er sú að það sé líklega engum til gagns eða gleði að senda óhörðnuð ungmenni í fangelsi. Að lokum er piltinum sleppt en hann er ekki samur og við blasir að hann muni aftur sogast inn í glæpaheiminn og fangelsin sem héðan af verða væntanlega óhjákvæmilegur hluti af lífi hans.

Í báðum myndum er innilokunarkenndinni og valdaleysinu haganlega komið á framfæri og eins hvernig ungi karlmaðurinn í aðalhlutverkinu er í vonlausri stöðu. Sýnt er á nákvæman, hárfínan og rólegan hátt hvernig söguhetjan í hvort sinn smám saman aðlagast, svíkur og breytist í karlmann, sterkan að utan en bugaðan að innan.

Previous
Previous

Tilvistarangist njósnarans

Next
Next

Fangar á flugi