Fangar á flugi
Eftir jól skrifaði ég örlítinn pistula hér á síðu um Die Hard, eina af mínum eftirlætisspennumyndum frá seinustu 40 árum. Enn meira held ég þó eiginlega upp á Fangaflugið (e. Con Air) sem ég sé á hverju ári því að danska sjónvarpið lætur ekki ár líða án þess að hún sé sýnd og ég get sannarlega aldrei stillt mig um að horfa, ekki heldur fyrir mánuði þegar ég kom örþreyttur frá Akureyri eftir landsfund. Eins og ég sagði við vinkonu mína þá batnar Con Air við hvert áhorf og ég þarf raunar ekki að skýra dálæti mitt fyrir henni en nú ætla ég að reyna að skýra það aðeins fyrir ykkur því að til þess er blogg um bókmenntir og listir einna helst að vekja fólk til umhugsunar. Myndin fjallar um alla verstu fanga Bandaríkjanna sem eru fyrir tilviljun staddir í flugvél og ræna henni. Fléttan kallar þannig á „willing suspension of disbelief“ en að henni gefinni gengur hún fullkomlega upp. Ég held að ástæða númer 1 sé hraðinn. Myndin er tæpir tveir tímar en takturinn er hárréttur fyrir spennumynd. Hún er hröð allan tímann án þess að áhorfandinn verði móður af gassagangnum. Spennan snýst líka alls ekki aðeins um spennuatriði heldur líka og ekki síður um samskipti manna.
Ástæða númer 2 er persónusköpunin. Handritshöfundurinn Scott Rosenberg (sem hefur gert margt gott síðan en aldrei náð viðlíka hæðum á ný) hefur hér skapað 9-10 mjög áhugaverðar persónur í einni spennumynd sem hægt er að ná eins konar tengslum við – ef ekki alltaf samúð en þær eru sjaldnast fleira en 2-3 í öðrum spennumyndum. Leikararnir hjálpa til. Í helstu hlutverkum eru Nicolas Cage, John Cusack, John Malkovich, Ving Rhames, Steve Buscemi, Colm Meaney, Rachel Ticotin, Mykelti Williamson og Dave Chappelle. Allar þessar persónur eru haganlega skapaðar og vel leiknar. Eins og lesendur mínir vita hef ég oft bent á skort á kvenhlutverkum í afþreyingu fyrri tíma. Fyrir utan vörðinn sem Ticotin leikur eru aðeins fjórar konur (þar af tvær smástelpur) í minni hlutverkum sem einhverju máli skipta í myndinni en öll þessi hlutverk eru samt vel skrifuð og laus við klisjur; Fangaflugið stendur sig því betur en sumar aðrar hasarmyndir frá sama tíma jafnvel að þessu leyti. Sem kemur þá að þriðju orsökinni fyrir gæðum myndarinnar sem er kannski mikilvægust Handritið er svo frámunalega gott. Hvert einasta orð sem persónur segja er vel nýtt og jafnvel fullkomlega minni háttar persónur á borð við gamlan karl að fela sig undir bíl eða hjón í borgarumferð eru haganlega mótuð.
Ein sérkennilegasta og minnst klisjukennda persónan er raðmorðinginn Garland Greene (aka ‘The Marietta Mangler’) sem hinn frábæri Steve Buscemi leikur og birtist fyrst niðurnjörvaður í stól sem minnir ekki lítið á hvernig farið er með Hannibal Lecter í Þögn lambanna. Síðan sést Greene aðeins í nokkrum atriðum og fer með nokkrar setningar en þær eru allar gullkorn, t.d. þegar hann skilgreinir íróníu nálægt lokum myndarinnar. Persónan verður jafnvel fyrir eins konar hvörfum — eða það vonar áhorfandinn í ljósi lokasenu myndarinnar — þegar hann hittir litla stelpu við hrörlega sundlaug. Öllu hefðbundnari eru dólgarnir sem John Malkovich og Ving Rhames leika en þó eru hvor um sig tilbrigði við sína týpu og fá að fara með margar frábærar setningar. Tveir laganna verðir keppast við að fanga alla hrottana og þeir eru einnig góðar týpur, annar ólíkt skynsamari en hinn en þó hvor með eigin lógík sem gengur upp og í lokin ná þeir skemmtilegum sáttum.
Hér eru sem sagt saman komin tilfinning fyrir takti, góð persónusköpun og vald á orðunum. Laumað er inn furðu áhugaverðum og greindarlegum pælingum fyrir eina spennumynd og svo skiptir auðvitað sjarmi leikaranna máli en þeir leggja sig alla fram, eflaust hefur samkeppnin við allar hinar stórstjörnurnar á vellinum hjálpað til. Ég er ekki beinlínis aðdáandi Nicolas Cage sem þar að auki hefur eina verstu hárgreiðslu sögunnar í myndinni en hann reynist algjörlega réttur maður á réttum stað, gerir það sem hann þó kann mjög vel og laumar smá tilfinningasemi inn í alla fyndnina og spennuna. Þar fyrir utan hoppar hann alloft undan eldi og sprengingum sem er varla góð eðlisfræði en í ljósi þess hve fyndin myndin er föllumst við á það rétt á meðan.