Leigh Bardugo og raunsæi í fantasíuritun

Þrátt fyrir aðdáun á Tolkien, Martin og fleirum og mín eigin fantasíuskrif er ég fremur lítill fantasíuneytandi almennt; finnst vanta frumleika í greinina. Samt dróst ég á sínum tíma að Netflix-þáttaröðinni Shadow and Bone sem er nú komin á seríu 2 en þættirnir eru alls sextán. Kannski er það 18. og 19. aldar fagurfræðin. Þessir þættir eru byggðir á fantasíuheimi Leigh Bardugo sem hún hefur helgað sjö skáldsögur en þeim er blandað saman í þáttunum. Þrjár af bókunum eru kenndar við skugga og bein eins og sjónvarpsþátturinn en tvær við „krákurnar“, gengi smáglæpamanna sem koma líka við sögu í þáttunum. Kannski er það þess vegna sem mér finnst heimsmyndin og fléttan í þáttunum svolítið ruglandi, en kannski er ég svolítið skeptískur gagnvart fantasíubókum þar sem galdrar eru notaðir vegna þess að þeir minna mig stundum um of á borðspil eða tölvuleiki þegar kemur að einföldum lausnum.

Samt hef ég haft gaman af þáttunum og kannski er það fyrst og fremst vegna þess að það er gaman að horfa á persónurnar. Af 15 helstu hlutverkum eru 12 í höndum leikara undir þrítugt og persónurnar eiga raunar að vera enn yngri í bókunum sem vísar til tíma þar sem var mun færra um gamalt fólk en nú er. Eins tók ég strax eftir því að um helmingur leikarana eru ekki af hvíta kynþættinum sem gæti farið í taugarnar á einhverjum og á sér ekki endilega stuðning í bókunum en mér fannst þau öll leika svo vel að ekki væri hægt að kvarta undan þeim nema á rasískum forsendum. Eins eru ástarsamböndin af ýmsu tagi og brjóta ýmsa forna ramma. Það finnst mér líka eðlilegt á tímum löngu tímabærs skilnings á því að ásthneigðin leiðir fólk í ýmsar áttir og hefur alltaf gert.

Allur þessi nútímaleiki hefur ekki komið í veg fyrir að Bardugo væri sökuð um „menningarnám“ þar sem heimur hennar er undir miklum áhrifum frá rússneskri menningu en hún veit víst næsta lítið um Rússland, kann ekki rússnesku og styðst einkum við staðalmyndir. Mín tilfinning hefur verið svipuð við að horfa á þættina en ég er ekki viðkvæmur fyrir hönd rússnesku þannig að þetta spillti engu fyrir mér en varpar ákveðnu ljósi á hversu harkalegar kröfur um „raunveruleika“ geta verið, jafnvel til fantasíu. Mér dettur sjálfum ekki í hug að maður fræðist mikið um Afríku af Tarzanbókunum en þær voru skemmtileg afþreying og eins eru Shadow and Bone þættirnir góð afþreying fyrir nýja og rembulausari tíma.

Eins og fantasíur yfirleitt fjallar sagan auðvitað um sjálfssköpun og sjálfsskilning ungrar manneskju sem þarf að beisla eigin krafta. Þetta gerist í reglulegum óskiljanlegum bardögum og ég stóð mig að því að bíða eftir glæpaflokknum „krákunum“ sem vinna alls konar skuggaleg störf fyrir peninga og eru þannig séð í liði hinna góðu en einhvern veginn nálægari og skiljanlegri. Í annarri syrpu fórnar eina gamla manneskjan í þáttunum sér (leikin af hinni ágætu Zoe Wanamaker) af einhverju tilefni sem ég hef þegar gleymt og verður að líta á það sem skýr skilaboð æskunnar til 68-kynslóðarinnar!

Previous
Previous

Fangar á flugi

Next
Next

Góðan daginn!