Góðan daginn!
Eflaust finnst einhverjum þetta ekki mjög bókmenntaleg setning en hún tengist þó ýmsum bókmenntum æsku minnar, t.d. stuttu leikriti sem birtist í Æskunni þegar ég var sex ára og okkur bræðrum fannst svo fyndið að við vorum enn að leika það á mannamótum um þrítugt en það leikrit heitir einmitt „Góðan daginn!“ þó að það sé oft kennt við helstu persónurnar, Mons (talar með skrækri röddu) og Jens (talar með dimmri röddu). Í leikritinu hittast þeir á förnum vegi og ræða heilsufar kúa sinna. Ég var vanur að fara með hlutverk Jens (sem talar með dimmri röddu) í leikritinu og reyndi að stela senunni með línunni „terpentína“.
En þessi ágæta kveðja kemur við sögu í fleiri bókmenntum æskunnar, t.d. Hobbitanum sem pabbi las fyrir okkur börnin þegar ég var ellefu ára og var ógleymanlegur lestur. Heima var bókin til á ensku en pabbi þýddi hana jafnharðan og eins og sum ykkar muna kannski hefst sagan á því að Bilbó Baggi hittir Gandálf og segir við hann „Góðan daginn!“ en Gandálfur svarar þá eins og sannur háskólaprófessor og heimtar skilgreiningu: „Do you wish me a good morning, or mean that it is a good morning whether I want it or not; or that you feel good this morning; or that it is a morning to be good on?“. Þetta er mikill proffahúmor hjá Tolkien og hann færðist fjær slíkri kímni í síðari verkum sínum en þetta upphaf skáldsögunnar er samt dásamlegt og ómissandi og einkennir alla bókina sem snýst raunar talsvert um skilgreiningar og flækjur, hún er ansi óvenjuleg ævintýra- og barnabók þó að hún hafi líklega haft svo mikil áhrif að hún er ekki lengur jafn sérstök.
En mér finnst Tolkien þó toppa sig í Gvendi bónda á Svínafelli (Farmer Giles of Ham á frummálinu) sem ég las á 10. ári áður en ég vissi neitt annað um Tolkien eða verk hans. Sagan er háskólamannamiðaldaparódía með latínuslettum um réttan og sléttan bónda sem kemst til frama sem riddari og að lokum sem konungur eftir að hafa haft betur í viðureign við dreka. En fyrst þegar þeir Gvendur og drekinn hittast gerist það alls ekki í ævintýrastíl heldur rambar Gvendur á drekann á sveitavegi og það fyrsta sem hann segir er „Góðan daginn!“ og drekinn svarar á sama hátt sem ég get ekki gert því að mér fannast og finnst drepfyndið. Ekki síður þegar drekinn spyr kurteislega: „Fyrirgefðu en varstu kannski að leita að mér?“ áður en hann reynir að leggja til atlögu við gestinn.
Fátt er kannski hæpnara en að semja greinargerðir um fyndni og ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna mér finnst fyndið þegar Gvendur og drekinn segja „Góðan daginn!“ hvor við annan. Kannski er ástæðan sú að þetta er svo hversdagslega kurteislegt fyrir sögu um drekadráp. Um leið passar þetta svo vel við léttan og lunkinn húmor sögunnar sem ég skildi eiginlega ekkert í þegar ég las hana fyrst sem barn en mér finnst nú gera söguna eitt skemmtilegasta verk Tolkiens, að hinum ólöstuðum.