Var Rikki saklaus?

Þar sem lesendur þessarar síðu vita allt um lestur minn á bókmenntablöðunum LRB og TLS og ég hef auk heldur þegar játað á mig oggulítinn áhuga á sönnum sakamálum þarf kannski ekki að koma á óvart að ég hafi ákveðið að næla mér í skáldsöguna The Daughter of Time (1951) sem nýlega hefur verið rædd í þessum menningarblöðum sem ein besta sakamálasaga allra tíma. Höfundur hennar var Josephine Tey (1896–1952) sem lést skömmu eftir að sagan kom út. Hún var einkum þekkt leikritaskáld undir nafninu Gordon Daviot og skrifaði enn fremur skáldsögur undir því höfundarnafni, sendi einnig frá sér átta sakamálasögur undir nafninu Tey en hét raunar Elizabeth MacKintosh. The Daughter of Time er stutt saga, um 150 bls., og léttlæsileg að öðru leyti en því að það þarf að fylgja þræðinum mjög vandlega og missa ekki af neinu.

Josephine Tey var fræg fyrir feimni og sagt er að hún hafi dregið sig í hlé frá öllum vinum sínum skömmu áður en hún lést. Hún er því e.k. Emily Dickinson gullaldarsakamálasagna en bækur hennar féllu raunar engan veginn að meginstraumum í glæpasagnaritun þeirra tíma. Agöthu Christie líkaði ekki við Josephine Tey og telja sumir að leikritahöfundurinn Muriel Willis í Three Act Tragedy sé innblásin af kolleganum. Raunar er það þannig að þó að Willis sé ekki geðþekk persóna er hún samt yfirburðagreind; maður gæti því dregið þá ályktun að jafnvel keppinautarnir hafi borið allmikla virðingu fyrir MacKintosh/Daviot/Tey. Aðdáendur Morse lögregluforingja muna eflaust eftir tilraun hans til að leysa sakamál frá 19. öldinni í einni af seinustu bókunum og eins er með Grant lögregluforingja í The Daughter of Time sem þarf að dvelja á sjúkrahúsi um hríð og fær áhuga á einni helstu morðgátu Englandssögunnar, um syni Játvarðar 6. sem Ríkharður 3. á að hafa myrt árið 1483. Líkt og Morse í bók og þætti á Grant sér líka lagskonu sem styður hann, eignast ungan aðstoðarmann til að kanna hluti á söfnum og tekst á við vígalegar hjúkrunarkonur. Líkindin svo æpandi að um innblástur hlýtur að vera að ræða þó að sjálf sögulega ráðgátan sé gerólík.

Saga Tey er sérstaklega áhugaverð fyrir fræðimenn og rannsakendur yfirleitt vegna þess að fræðimennska og rannsókn sakamála eru hliðstæð að mörgu leyti. Helsti eiginleiki fræðimanna og rannsakenda er analytísk greind og hæfileiki til að sjá heildina (hann vantar oft einmitt í samsæriskenningasmiði sem festast í smáatriðum sem þeir ljá hvalkynjað vægi án tilefnis). Þannig snýst bókin í raun um þjóðsagna- og goðsagnasmíð (slík kemur einnig í sögu í ýmsum sögu Agöthu en á aðeins öðru plani) og lógík fyrst og fremst því að vitaskuld er ekki hægt að leysa morðmálið á tæknilegan hátt – fræðileg goðsagnasmíð hefur einmitt orðið mér umræðuefni í ýmsum fræðigreinum mínum og bókum. Eins áttar Grant sig á því í miðri bók að Ríkharður hafði hreinlega ekkert tilefni til að myrða prinsana. Það var búið að krýna hann sjálfan og hann þótti rétthærri til krúnunnar en þeir. Öðru máli gegndi um keppinaut hans, Hinrik 7. Prinsarnir hefðu verið stórhættulegir honum eftir að hann tók völdin.

Það er þessi lógíska heildarsýn sem skiptir mestu máli fyrir Grant en honum finnst ekki skipta minna máli að andstæðingar Ríkharðs voru ekki æstir í að kenna honum um hvarf prinsanna á sínum tíma, hvorki meðan hann lifði né rétt eftir fall hans. Þar að auki var móðir þeirra áfram í náðinni hjá konunginum og hann hjá henni en öðru máli gegndi þegar Hinrik 7. tók völdin. Ásakanirnar gegn kónginum koma allar fram eftir á, stignast og er haldið fram af stuðningsmönnum Tudor-ættarinnar. Grant ályktar að John Morton sé á bak við ásakanirnar en sá dólgur var skipaður erkibiskup af Kantaraborg og lávarðakanslari á dögum Hinriks 7. Þó að ásakanir Mortons séu ekki varðveittar hafi Thomas More verið undir miklum áhrifum frá honum en eitt fyrsta skref Grants í sinni spítalabeðsrannsókn er að afskrifa More sem samtímavitni vegna þess að hann var aðeins sjö ára þegar Ríkharður lést. Sem miðaldarannsakandi verð ég að játa að hugsun mín líkist iðulega mjög því sem Tey lýsir hjá Grant. Óhætt er því að mæla með bókinni handa öllum sem rannsaka fortíðina, þó ekki sé nema til að æfa sig í lógík og átta sig á ýmsum hliðstæðum lögreglustarfa og fræðimennsku.

Previous
Previous

Góðan daginn!

Next
Next

Hvað er kraftaverk?