Hvað er kraftaverk?
Leikkonan Ellen Burstyn er 91 árs á þessu ári og var mikil menningarhetja á 8. áratugnum en myndir hennar áttu það þó sammerkt að ekki hvarflaði að nokkrum manni að íslenskir strákar hefði áhuga á þeim og sennilega var nokkuð til í því. En þar sem Burstyn hefur fengið einar sex óskarstilnefningar og enn fleiri til Gullhnattarins og Emmýar fannst mér rétt að finna mynd með henni í rannsóknarleiðangri mínum um kvikmyndir aldarinnar sem leið. Ég hafði auðvitað séð hana á sínum tíma í Requiem for a Dream þar sem hún var sannarlega þrælmögnuð og tiltölulega nýlega sá ég Hinstu kvikmyndasýninguna og Særingarmanninn sem báðar skarta henni í aðalhlutverki en um Resurrection (1980) vissi ég nákvæmlega ekki neitt annað en að Ellen og Eva Le Gallienne (1899–1991) sem var fræg sviðsleikkona en nú mörgum gleymd fengu báðar óskarstilnefningu fyrir hana. Ergó fór hún á listann og ég horfði með miklum áhuga þó að efnið hafi sannarlega ekki reynst á mínu áhugasviði og þó kannski frekar núna en fyrir 20-30 árum.
Fléttan í myndinni er sú að persóna Ellen Burstyn lendir í bílslysi. Maður hennar deyr og hún líka en eftir undarlega sýn lifnar hún á ný og síðan kemur í ljós að hún getur læknað aðra með handayfirlagningu. Skrítið og óvænt, já vissulega! Ekkjan rís sjálf upp úr hjólastólnum og fer að halda við óheflaðan kúreka sem er leikinn af Sam Shepard — góður leikari yfirleitt en dregur þessa mynd niður ef eitthvað er. „Kraftaverkin“ vekja að vonum mikla athygli í sveitinni og æ víðar en snúningurinn í myndinni er að sjálf kraftaverkakonan neitar að kalla þau kraftaverk og eigna Guði sjálfum lækninguna heldur segist ekki skilja hvað sé að gerast. Frekar heiðarlegt svar en veldur uppnámi í sveitinni. Meðal annars þolir óheflaði maðurinn ekki að hún rammi þessa atburði ekki inn í kristilega jarteinatrú og þetta eyðileggur sambandið. Myndin reynist þannig fjalla um skilgreiningar- og innrömmunaráráttu mannsins.
Ein skýringin á þrjósku og stífni kraftaverkakonunnar er hógværð hennar. Eins og allir vita geta dýrlingar gert kraftaverk vegna þess að þeir eru hólpnir og við hlið Guðs en þessu vill hún ekki trúa um sjálfa sig. Samt vill hún lækna en gefst að lokum upp á því og flýr sína heimabyggð. Í lok myndarinnar er hún í sjálfskipaðri útlegð á eyðilegri bensínstöð og hittir þar fyrir ungan dreng sem er að deyja af krabbameini og hugsanlega læknar hann eða arfleiðir að eigin lækningagáfu en þetta er allt opið a.m.k. í þeirri gerð myndarinnar sem ég sá. Eins hittir hún gamlan mann (sem sjálfur Richard Farnsworth leikur) í upphafi myndarinnar og er hann e.t.v. orsakavaldur að hinum óvæntu atburðum en það kemur þó aldrei beinlínis fram.
Resurrection er þannig óvenjuleg en prýðisvel gerð, eflaust of góð fyrir bíóhúsin og skilur áhorfandann eftir með efa og umhugsunarefni. Gagnrýnendur eru raunar flestir hrifnir af myndinni en hún hefur ekki höfðað til almennings, eðlilega vegna þess að hún snýst um hið óþekkta og óskiljanlega og veitir engin svör.