Romy og David — píslarsaga
Árið sem ég varð 11 ára missti hin fræga leikkona Romy Schneider (sem í raun hét Rosemarie Albach) 14 ára son sinn í hræðilegu slysi sem leiddi til þess að hún drakk sig síðan í hel á tæpu ári þó að enn sé deilt um hvort drykkjan hafi beinlínis dregið hana til dauða. Romy varð fræg af því að leika í kvikmyndunum um Sissi (Elísabetu Austurríkiskeisaraynju) á 6. áratugnum og síðan í hinni drepfyndnu What’s New Pussycat og alls konar merkum frönskum og þýskum myndum á móti Alain Delon, Michel Piccoli, Yves Montand og fleiri stórstjörnum. Þau Delon voru par um tíma en fyrri eiginmaður hennar hét Harry Meyen (fæddur Haubenstock) og var talsvert eldri. Þau skildu árið 1975 og fjórum árum síðar hengdi Harry sig eftir viðvarandi þunglyndi sem var meðal annars rakið til þess að hann hafði verið pyntaður af nasistum í seinni heimsstyrjöld en hann var gyðingur og lifði af Neuengamme-fangabúðirnar, þ.e. fram að þessu.
Sonur þeirra Harry hét David Christopher Haubenstock (eða Meyen) og var fjórum árum eldri en ég. Hann dó á hroðalegan hátt í júlí 1981, var að klifra yfir grindverk til að komast inn til afa síns og ömmu (eða öllu heldur foreldra ítalsks síðari eiginmanns Romy sem hún tók saman við eftir skilnaðinn við Meyen) en skrikaði fótur og endaði stjaksettur á girðingunni (eins og verstu fúlmenni í afþreyingarmyndum). Þegar ég las um þetta ellefu ára gat ég varla ímyndað mér verri dauðdaga og man vel eftir myndinni að ofan af David sem birtist í dönsku blaði sumarið 1982 en þar er einmitt grindverk í baksýn. Hinn voveiflegi dauðdagi sonarins fór mjög illa með Romy eins og líklegt var og varla nokkur maður setti andlát hennar árið eftir ekki í samhengi við þetta. Þeim David hafði sinnast skömmu fyrir slysið en að sögn höfðu þau sæst aftur.
Kannski er þetta enn sorglegra í ljósi þess að David virðist hafa haft nánast proustíska ást á móður sinni eins og sést í myndum af þeim frá árinu 1980 — sem ég sá raunar ekki fyrr en löngu eftir að ég las allt um Romy og David mörgum sinnum í Billed-Bladet — þar sem þau mæðginin kyssast af ástríðu. Þessar myndir eru ekki síður fallegar í ljósi þess að í þeim er sterk vísun til þess sem Freud hefði kallað ödipusarduld. En ekki ætla ég verð einn af þessum perralegu púrítönum sem kvartar yfir innilegri ást móður og sonar. Harmleikur mæðginanna snerist um allt annað en ástríkið, spjótsoddagrindverk við venjulegt hús, ofurtrú táningsins á að hann geti klifrað yfir allt og áfengi sem handhæga og í fyrstu áhrifaríka en á endanum misheppnaða lækningu allrar óhamingju.
Að einhverju leyti finnst mér örlög Romy dæmigerð fyrir kynslóð foreldra minna (sem líkt og hún dóu of snemma, þó aðeins síðar). Þessi kynslóð drakk og reykti meira en yngra fólk, glímdi við alls konar óhamingju án þess að vera síkveinandi opinberlega og jafnvel slysavarnir barna voru á öðrum stað fyrir daga Herdísar Storgaard og allra hennar kollega um veröld víða. Aðeins nokkrum mánuðum á undan Romy lést t.d. Natalie Wood í slysi og Grace Kelly síðar sama ár. Þetta urðu píslarsögur kvennablaða þess tíma og höfðu ekki minni áhrif á okkur lesendur en píslarsögur fyrri alda höfðu á áheyrendur sína. Að minnsta kosti hugsa ég reglulega til mæðginanna, grindverksins og flöskunnar.