Ókunnur í húsinu — saga úr fríi

Mér hefði varla dottið í hug að horfa á argentínsku kvikmyndina Taekwondo ef vinur minn hefði ekki mælt með henni enda enginn sérstakur áhugamaður um bardagaíþróttir en raunar kemur íþróttin ekkert við sögu nema sem drifkraftur söguþráðarins sem er sá að hinn þrítugi Fernando býður Germán vini sínum í sumarhús fjölskyldunnar þar sem hópur vina hans hangir í mánuð eða svo í argentínsku sumri. Síðan gerist eiginlega ekkert í myndinni, Taekwondo er þannig óvenjuleg mynd sem fjallar um hik og þagnir og allt sem er ekki tjáð þó að níumenningarnir í húsinu tjái sig samt stanslaust. Eftirlætisspennumyndir mínar eru einmitt þær sem ekkert gerist mjög hægt þannig að ég var mjög spenntur yfir þessari meðan ekkert gerðist. Samt gerist alveg nóg þó að ekki sé hægt að tala um framvindu. Vinirnir sjö tala mest um konur, framhjáhald og kynlíf en Germán og Fernando ræða teiknimyndasögur og bækurnar sem Germán er að lesa því að hann er sílesandi innan um hóp manna sem lesa aldrei neitt þó að raunar komi í ljós að Fernando hefur líka lesið flestar bækurnar.

Fram kemur í upphafi að karlarnir átta eru gamlir vinir en Germán er nýr í hópnum og er boðinn vegna þess að Fernando er gestgjafinn. Hann reynist þó enginn minkur í hænsnakofanum, þvert á móti er hann hæglátur, kurteis, þögull nema við Fernando, tekur samt fullan þátt í öllu og virðast una sér vel. En eftir 20 mínútur eða svo kemur fram í símtali við vin (væntanlega þann sama og birtist síðar í myndinni) að Germán er í raun skotinn í Fernando en treystir sér ekki til að tjá það í þessu testósterónhlaðna umhverfi. Ýmsar vísbendingar eru þó um að Fernando endurgjaldi tilfinningar hans, þeir eru bæði alltaf saman og Fernando sendir Germán iðulega fremur áköf augnaráð þannig að áhorfandinn (sem á auðvitað ekkert undir túlkuninni) þykist fullviss um hug þeirra beggja en verður að bíða þess lengi að þeir sjálfir þori að leggja til atlögu. Á sínum tíma heillaði það mig hversu næm Call Me By Your Name var að þessu leyti, alveg þvert á ástarlýsingar í bíómyndum yfirleitt. Samt er ég ekki frá því að Taekwondo taki efsta sætið af henni.

Annars einkennist samlíf vinanna níu af því að þeir eru meira og minna hálfberir og stöku sinnum allsberir við leik og hangs, sem truflar Germán allnokkuð og áhorfandann líka. Þetta hefur fengið suma gagnrýnendur til að líkja myndinni við klámmyndir en það segir kannski meira um þá tilteknu gagnrýnendur en nokkuð annað og jafnvel þó að mér sjálfum hafi þótt þetta fullmikið af góðu á köflum finnst mér það eftir nokkra umhugsun góð hugmynd því að það er eitthvað sannferðugt við það hvernig öll þessi líkamlega nánd er á skjön við þögn Germáns og Fernando sem einir mannanna eru ekki stöðugt að ræða kvennamál sín þó að þeir taki stundum þátt í samræðum hinna.

Germán er eins og áhorfandi að allri þessari innilegu karlmennsku og kannski er þetta symbólsk tjáning á stöðu þess „öfuga“ sem er í raun eins og óboðinn gestur hvarvetna sem karlmenn koma saman. Myndin fjallar þó alls ekki um hómófóbíu en það er á skjön við hefðir og kemur skemmtilega á óvart. Þvert á móti eru allir mennirnir frekar frjálslyndir, Fernando játar fyrir öllum að hafa kysst annan vin sinn fyrir löngu og engum finnst það neitt athugavert. Einn vinurinn giskar jafnvel á að Fernando sé hrifinn af Germán og virðist ánægður með það. Milli þeirra er samt áfram ókleifur veggur þar sem hvorugur kemur orðum að eigin löngunum, jafnvel ekki eftir að þeir hafa sofið í sama rúmi þegar einn vinurinn hefur dáið brennivínsdauða í rúmi Fernandos. Á hinn bóginn eiga þeir auðvelt með að ræða bækur og teiknimyndir og allt annað en tilfinningar hvors til annars.

Þannig silast sumarið og myndin áfram og nákvæmlega ekkert gerist milli vinanna, þvert á allar klisjur um að hinsegin karlmenn séu ófeimnari en aðrir og stöðugt á útopnu. Það er ekki fyrr en allir hinir eru farnir og Germán og Fernando búnir að taka til að sá síðarnefndi spyr hvort hann megi kyssa Germán og myndinni lýkur á þeim ákafa kossi. Áhorfandinn er feginn en kannski er þetta trúverðugra en ástin er oftast í myndum, svo að ekki sé minnst á íslensk fjölskylduleikrit þar sem allir eru stöðugt gargandi og frussandi upp úr sér tilfinningunum. Heimurinn er án efa fullur af pörum sem aldrei ná saman, tilfinningum sem enginn kemur orðum að, fólki sem hugsar talsvert meira um kynlíf en það framkvæmir, flóknum óskráðnum reglum um samdrátt og kjarkleysi þegar kemur að því að opinbera langanir. Germán og Fernando eru ágætir fulltrúar fyrir þetta fólk. Sennilega er ekkitilfinningatjáning mun algengari en hitt og um hana fjallar Taekwondo.

Previous
Previous

Romy og David — píslarsaga

Next
Next

Saga í ljóði