Saga í ljóði

Á 20. öldinni styttust íslensk ljóð til mikilla muna, svo rækilega að undir lok aldarinnar var mjólkurfernuljóðið líklega orðið óformlegt viðmið um hvernig ljóð líti út: 5-12 línur, aldrei fleiri en 3-4 orð í hverri. Í upphafi aldarinnar voru hins vegar enn ort breið ljóð þar sem sögð er saga og iðulega vísað til fornrar menningar. Gott dæmi um þetta er ljóðið „Heimförin“ eftir Stephan G. Stephansson sem hefst á þessu erindi:

Á milli okkar Gunnars var alls engin ást,
eg unni’ honum rétt eins og manni
sem fátt ber af öðrum, sem er ekki hrak,
en einungis meðallags granni. —
Hún gengur nú löngum svo veröldin vor!
Og við förum æviskeið, sína leið hvor.

Mér kom þetta í hug þegar erlendur fræðimaður sendi mér nýlega fyrirspurn — það líður varla sú vika að ég fái ekki fyrirspurnir frá erlendum fræðimönnum en þessi þáttur í starfi háskólakennara er á fárra vitorði — um hver áhrif Stephans G. Stephanssonar væru á nútíma ljóðlist eða hversu vel þekktur hann væri. Hann er vitaskuld sæmilega þekktur, ekki síst fyrir að eiga einn af þjóðsöngvunum, en áhrifin kannski ekki mjög mikil eins og sést á því að fá skáld yrkja eins og þetta nú á orðum. 10 atkvæða vísuorð eru ekki í tísku né heldur opinskáar endurtúlkanir á tilfinningum persóna sem beint eða óbeint eru ættaðar úr fornsögum. „Heimförin“ telur 20 sex vísuorða erindi og telst kvæði fremur en ljóð en fá skáld yrkja kvæði af þessari lengd lengur.

Hver er boðskapur Stephans G. í „Heimförinni“ annar en að Hallgerður nútímans hafi aldrei elskað sinn Gunnar? Það er alls ekki augljóst því að söguljóði frá upphafi 20. aldar lýkur auðvitað á dauða aðalpersónunnar sem áður hefur haldið langa ræðu. Innblásturinn er augljóslega atvikið þegar Gunnar ákvað að halda ekki utan og sagði „Fögur er hlíðin“ en áður hafði Jónas Hallgrímsson gert því efni skil í þríhendu og áttlínuhætti. Stephan G. flytur söguna enn fjær upphafinu og úr yfirstéttinni enda róttækt skáld. Gunnar talar þar sem bóndi sem hefur mestar áhyggjur af eigin landi:

En það er ei agnsemi að þessum mó,
og eitthvað þarf við hann að gera!
Og því kom eg utan með útsáð og plóg —
og ófrjó mun jörðin ei vera!
Þó korn yrði hismi fæst hálmflekkja græn —
já, hér kann eg við mig. Hún Kvígrund er væn.

Mig minnir núna að ég hafi vísað erlenda fræðimanninum á hjálplegt fólk en hver sem les þessar línur sér auðvitað strax að svona útleitin ljóð eru nú útlæg ger úr islenskri ljóðlist ásamt öllu sínu rími og ljóðstöfum. Eins dettur engum lengur í hug að segja langa sögu í ljóði eða láta sögupersónurnar halda ræður. Þetta er allt saman eins ósvalt og hugsast getur á okkar öld og Stephan G. allur því varla í tísku en samt hefur sæmilega mikill hluti þjóðarinnar enn áhuga á honum eins og vert er því að hann er áfram eitt merkilegasta skáld Íslands þó að hann hafi yfirgefið landið tvítugur.

Previous
Previous

Ókunnur í húsinu — saga úr fríi

Next
Next

Áfram minningar!