Áfram minningar!

Fyrr í ár birtust á Netflix á Íslandi einar níu Áfram-myndir frá árunum 1958 til 1966 og þar sem þær eru örstuttar (tæplega 90 mín.) stóðst ég ekki freistinguna og horfði á þær allar eina vikuna. Af þessum níu voru sex svarthvítar og þrjár í lit. Ég hafði áður séð sjö litmyndir í Sjónvarpinu á 9. áratugnum (sú fyrsta var sýnd vorið 1983 og hét Carry On Up the Khyber en á Íslandi Áfram pilsvargur) en þær urðu um 30 alls og sennilega hef ég nú séð flestar þær bestu. Þannig sér maður fyrirbærið Áfram-myndir verða til. Fyrstu þrjár myndirnar eru í raun frekar venjulegar gamanmyndir með einu eða tveimur kjánalegum atriðum en síðan tók kjánahúmorinn alveg yfir. Af þeim seinni eru nokkrar allskemmtilegar en aðrar hrein endurtekning.

Í upphafi voru Áfram-myndirnar farsar í tilteknu umhverfi. Þær fyrstu hétu Áfram liðþjálfi, Áfram hjúkka og Áfram kennari. Fljótlega gekk verr að finna fyndnar starfsstéttir og eftir að leigubílum voru gerð skil var skipt yfir í að gera grín að bíómyndum og sjónvarpsþáttum, fyrst breska flotanum en síðan njósnamyndum, Kleópötru, frönsku byltingunni, norður-afrísku útlendingahersveitinni og Indlandi alveg fram til 1967 þegar á ný var skipt yfir í starfsstéttahúmor. Leikarahópurinn tók líka nokkrum stakkaskiptum en Kenneth Williams, Charles Hawtrey, Joan Sims og SIdney James voru í forgrunni einna lengst og skilgreina Áfram-myndirnar með nærveru sinni. Sérstaklega sá fyrsti hafði sérstakan ýktan svipbrigðastíl sem sækir margt til bresku revíunnar (eða music hall) og óhætt er að líta á Áfram-myndirnar sem fánabera þeirrar hefðar í nútímanum. Raunar finnst mér Kenneth Williams vera Áfram-myndirnar og tek eftir að þeir sem gera grín að þeim herma oftast eftir honum.

Hafa Áfram-myndirnar elst illa? Ekki beinlínis. Þær eru flestar slappar og endurtekningasamar en öðru hvoru hafa aðstandendur rifið sig upp á rófunni og reynt að gera betur. Húmorinn er grófur og mikið af kynferðislegum skírskotunum sem eru kannski fremur barnslegar en hneykslanlegar í nútímanum (í einni myndinni er Williams t.d. kallaður „poopface“). Eins eru þeir Hawtrey og Williams oftast fulltrúar ókarlmannlega öfuguggans sem hlæja má að án þess að það sé nokkurn tímann rætt. Hin hnellna Joan Sims þróaðist smám saman í að vera frenja eða eiginkona sem mennirnir óttuðust en áður var hin stórvaxna Hattie Jacques í því hlutverki. Sidney James lék oftast vinalegar pabbatýpur sem maður átti að halda með.

Myndirnar eru svo mikið barn síns tíma að hugsanlegt er lærdómsríkt fyrir yngra fólk að horfa á þær en það verður þá að hafa í huga að þær voru aldrei sérlega hátt skrifaðar og ekki það besta sem 7. áratugurinn hafði upp á að bjóða. Á hinn bóginn voru þær feykivinsælar og sumar fyndnar a.m.k. í fyrsta sinn. Ég held enn upp á Áfram njósnari! og sumar hinna eru áfram skemmtilegar en aðrar misheppnaðar og ófyndnar enda gamansemin fremur endurtekningasöm án þess þó að fara alla leið með endurtekningarformið eins og gert var í þáttunum Allt í hers höndum sem glöddu okkur líka á 9. áratugnum. Ég hef ekki horft á neina Áfram-mynd frá hnignunarárunum eftir 1971 og veit ekki hvort af því verður nokkurntímann enda munu þær vera sannkallað vontverra.

Previous
Previous

Saga í ljóði

Next
Next

Dauðinn á ísnum