Dauðinn á ísnum

Selveiðislysið í Nýfundnalandi árið 1914 er stórviðburður í sögu landsins og í þjóðarminninu. 78 selveiðimenn frusu í hel á ís eftir að hafa orðið viðskila við skip sitt sem einnig hét Nýfundnaland. Vegna sparnaðar og hagræðingar var enginn loftskeytamaður á skipinu og kapteinninn hélt að menn hans væru öruggir á skipinu Stephano. En faðir hans sem var skipstjóri þess hafði sent þá burt og fékk mikla gagnrýni fyrir enda fór veðrið versnandi. Sá hét Abram Kean og var stór karl á Nýfundnalandi en sonur hans hét Wes Kean og urðu þeir báðir gamlir menn.

Kannski eru það þessir skýru skúrkar í málinu, Kean-feðgarnir, sem hafa gert það léttara að halda hinum sorglega viðburði á lofti. Þar á móti má tefla öðrum feðgum, Reuben Crewe og 16 ára syni hans, Albert Crewe. Þeir fundust látnir á ísnum hvor í faðmi hins og styttan að ofan var reist þeim feðgum á aldarafmæli viðburðarins til að minnast allra selveiðimanna sem létu lífið í þessu óveðri. Áhrifamikil minnismerki eins og þetta gera það að verkum að nánast hvert barn á Nýfundnalandi þekkir hinn trámatíska atburð.

Árið 1972 sendi nýfundnalenska leikskáldið Cassie Brown (1919-1986) frá sér bókina Death on the Ice: The Great Newfoundland Sealing Disaster of 1914 og nýlega las ég þessa bók. Brown leyfir staðreyndum að tala á sinn hógværa kanadíska hátt og bókin er mjög innileg og spennandi. Ein niðurstaðan er að stéttamunur hafi skipt máli fyrir hvernig fór, selveiðimennirnir hafi verið nánast eins og ungu hermennirnir í fyrri heimsstyrjöld sem mátti fórna að vild í þágu æðri málstaðar. Kean-feðgarnir voru hins vegar fínir menn og héldu áfram að njóta virðingar í samfélaginu þó að sá eldri hafi orðið óvinsæll hjá alþýðu manna eftir þetta.

Sumir þeirra sem lifðu af voru enn á lífi þegar Brown vann að bókinni hálfri öld síðar og hún gat einnig stuðst við rækilega vitnisburði úr málaferlum sem fylgdu í kjölfarið – málaferli og vitnaleiðslur eru stundum bestu vinir rithöfunda og sagnaritara (sbr. nýlega grein mína um Palmemorðið). Í kjölfarið sérhæfði Brown sig í hrakfarasögum en eins og við öll vitum er það einnig vinsæl bókmenntagrein á Íslandi, 19 bindi af Þrautgóðum á raunastund eftir Steinar J. Lúðvíksson komu út milli 1969 og 1988 og Óttar Sveinsson hefur sent fá sér 29 Útkalls-bækur frá 1995. Margar af þessum bókum urðu metsölubækur hér á landi.

Ein áhrifamesta leiksýning sem ég sá í Borgarleikhúsinu meðan ég var þar í stjórn í átta ár fjallaði um snjóflóðið á Flateyri árið 1995 en kannski hafa Íslendingar verið heldur seinir að átta sig á bókmenntalegu gildi sannsagna.

Previous
Previous

Áfram minningar!

Next
Next

Tveir skrifstofumenn sýna glærur í 95 mínútur