Tveir skrifstofumenn sýna glærur í 95 mínútur
Um daginn féll ég í þá gryfju að sjá þátt um morðið á Palme á danska sjónvarpinu og það leiddi af sér viku af youtubemyndbandaáhorfi og þó hef ég aðeins hlustað pínulítið á hlaðvarpið Palmemordet en nýjasti þátturinn þar er númer 372. Hámarki náði þráhyggjan þegar ég horfði á 95 mínútna blaðamannafundinn frá 2020 þar sem saksóknarinn Krister Pettersson og Hans Melander tilkynntu niðurstöðu rannsóknarinnar og lögðu hana niður í kjölfarið en áður hafði ég auðvitað séð leikna þáttinn Den osannolika mördaren á Netflix. Af öllu þessu efni held ég mest upp á blaðamannafundinn sem er samt ekkert annað en tveir svartklæddir menn að tala og sýna glærur. En vegna þess að ég hafði undirbúið mig svo vel, séð allar myndirnar og skildi aðstæður á morðstaðnum (því miður gerði ég það ekki þegar ég var seinast í Stokkhólmi) skildi ég allt sem þeir sögðu og rökstuðninginn. Ég er nefnilega heillaður af rökstuðningi, vinn við að rökstyðja, kenna öðrum að gera það og meta rök annarra. Lengi hef ég haft þá skoðun — sem er kannski ekki alltaf nógu vinsæl meðal hugvísindamanna — að rök okkar ættu helst að standast í réttarsal líka, við ættum jafnvel að vera röklegri en dómarar eru oft.
Á fundinum sem þeir Krister og Hans lokuðu lögreglurannsókninni eftir 34 ár kynntu þeir líka hugsanlegan morðingja, Stig Engström sem oftast er nefndur Skandia-maðurinn, og rök sín fyrir að hann komi til greina sem morðinginn. Sterkustu rökin sýnist mér eftirfarandi: 1) Vitnisburður hans stangast í frekar mikilvægum atriðum á við lykilvitni (t.d. unga fólkið sem reyndi að bjarga lífi Palmes), 2) Hann var sannarlega á staðnum en enginn sá hann þó á Sveavägen eftir að morðið var framið, 3) Hann er sennilega maðurinn sem Lars Jeppsson sá í Tunnelgatan, 4) Hann er mjög líklega maðurinn sem Yvonne Nieminen sá í David Bagares gata, 5) Hann var klæddur líkt því sem flest (en ekki öll) vitnin lýsa morðingjanum, þar á meðal vitnin tvö sem beinlínis sáu morðingjann skjóta. Þetta eru allt höfuðatriði en eftir standa þó alls konar eyður: í fyrsta lagi vantar allar tækniupplýsingar, m.a. að tengja Engström við morðvopnið. Því verður ekki breytt úr þessu; það kom skýrt fram á fundinum. Í öðru lagi er óljóst nákvæmlega hvað gerðist frá því Engström steig út úr húsinu kl. 23:19 uns Palme var skotinn 23:21, og Pettersson og Melander lögðu ekki fram sögu eða kenningu um það. Vitnin á Sveavägen voru allmörg en sáu flest fátt og ekkert þeirra var með athyglina við Palme áður en skotin riðu af.
Ekki þarf að koma á óvart að engin sátt náðist um þessa niðurstöðu Petterssons og Melanders en hún hefur þrennt með sér, þ.e. hún gengur sæmilega upp miðað við fyrsta vitnisburð flestra vitna, hún skýrir lygar Engströms og hegðun eftir morðið og hún gengur upp miðað við vitnisburð Jeppssons og Nieminen sem fyrri rannsakendur gerðu allt of lítið úr. Engström hefur það augljóslega fram yfir fyrri sakborninga (Victor Gunnarsson, Christer Pettersson og Christer Andersson) að hafa nokkuð örugglega haft tækifæri til að fremja morðið. Á hinn bóginn játaði Stig aldrei neitt og var ekki þekktur ofbeldismaður og ástæður fyrir morðinu eru loðnar og óljósar. Þegar ég horfði á fundinn sannfærðist ég um að Holmér og fyrri rannsakendur (sem gengu furðu linlega fram við að yfirheyra vitnin, m.a. Engström) hefðu hunsað lygar Engströms af allt of miklu kæruleysi. Sú alvarlegasta sem tengir Engström mest við morðið er sú fullyrðing hans að hann hafi elt morðingjann inn Tunnelgatan. Mér finnst trúverðugt að hann hafi fundið upp á þessu til að skýra vitnisburð þeirra sem hefðu séð hann koma hlaupandi. Aðra skýringu er erfitt að finna á þessari lygi. Hann mætti raunar síðar í blöðin til að halda því fram að einhver vitni hefðu ruglast á sér og morðingjanum og hélt því ákaft fram að morðinginn hefði verið öðruvísi klæddur en flest vitnin segja, e.t.v. að beina gruninum að vitnunum Anders Björkman eða Lars Jeppsson.
Veiki hlekkurinn í kenningunni um Engström er aftur á móti að það er loðið hvað hann gerði seinustu tveir mínútur fyrir morðið og raunar allt kvöldið. Eins er óljóst hvort hann ráðgerði morðið eða var fyrir tilviljun með byssu þetta kvöld. Þó að hann hafi logið um ferðir sínar fyrr um kvöldið liggur ekki fyrir hvort hann rakst á Palmehjónin við Grand eða ekki (það er þó hugsanlegt). Eins stangast kenningin á við ýmsa vitnisburði en stærri vandi er raunar að margir kenningasmiðir gera ekki greinarmun á vitnisburði strax eftir morðið og öllu því sem vitnin hafa munað síðan og er hugsanlega undir áhrifum frá fjölmiðlum og annarri blaðaumfjöllun. Upphaflegu yfirheyrslurnar voru yfirleitt ekki mjög rækilegar (og fóru sumar fram þegar vitnin höfðu haft tækifæri til að heyra vitnisburð annarra í fjölmiðlum) enda virðist fyrsta rannsóknin hafa snúist um að finna hinn grunaða fyrst og setja söguna saman í kjölfarið. Prófíllinn sem löngu síðar var búinn til um morðingjann út frá atvikunum passar aftur á móti að mörgu leyti við Engström. A.m.k. var morðið þar skilgreint sem kaotískt og það fellur vel að hugmyndinni um Engström.
Eðlilega trúa margir engu sem kemur frá sænsku lögreglunni eftir Kúrdaklúðrið og klúðrið með ákæruna á hendur óreglumanninum Christer Pettersson (en þeir saksóknarinn eru nánast nafnar) sem Lisbeth Palme bar á sínum tíma kennsl á, en mín skoðun eftir blaðamannafundinn er að hópurinn sem tók við rannsókninni eftir 2016 hafi unnið gott starf og upphaflegu rannsakendurnir hefðu betur haft sömu nálgun. Takmarkanir lokarannsóknarinnar 30 árum eftir morðið voru auðvitað yfirþyrmandi en rökfærslan er góð og þeim tókst vel að horfa á mikilvæg atriði og láta ekki rugla sig af hlutum með óljós tengsl við ódæðisverkið.