Nýr Andvari

Fjórði árgangur Andvara í minni ritstjórn er kominn út en ég ákvað þegar ég tók við ritstjórninni að tímaritið yrði framvegis vorboðinn ljúfi í stað þess að keppa um athyglina við bókaflóð aðventunnar. Tímaritið er eitt það elsta og virðulegasta á landinu, kom fyrst út árið 1874 og var arftaki Nýrra félagsrita Jóns Sigurðssonar. Árið 1960 var gerð á því grundvallarbreyting og síðan er talsverð samfella í útliti blaðsins. Ég hef ekki séð ástæða til að breyta því heldur reynt í staðinn að gera lævísar breytingar á innihaldinu. Þannig marka Andvari 2022 og 2023 tímamót að því leyti að í fyrsta sinn er aðalgrein ritanna ævisaga konu tvö ár í röð en sú þriðja bætist í hópinn á næsta ári. Einnig hef ég reynt að skilgreina menningarhugtakið vítt og tekið þakklátur við greinum sem snúast aðallega um úrvinnslu frumheimilda.

Aðalgreinar seinustu fjögurra ára hafa verið um Brodda Jóhannesson, Hermann Pálsson, Svövu Jakobsdóttur og árið 2023 bætist Guðrún Helgadóttir í hópinn. Allt eru þetta merkir Íslendingar sem engin ævisaga hefur verið rituð um og því er 40-80 bls. ævisagan í Andvara mikilvæg viðbót. Ævisaga Guðrúnar er rituð af Sigþrúði Gunnarsdóttur bókmenntafræðingi og framkvæmdastjóra en hún þekkti Guðrúnu og er sérfróð um barnabækur. Það var sérstaklega ánægjulegt að geta birt grein um Guðrúnu þar sem ég var eins og öll þjóðin aðdáandi hennar í barnæsku en auk þess þekktu foreldrar mínir hana frá menntaskólaárunum. Ég var svo lánsamur að hitta Guðrúnu nokkrum sinnum og hef tvisvar haldið erindi um hana. Eftirminnileg er einnig þessi dagskrá sem ég sótti á sínum tíma.

Meðal annars efnis í heftinu er grein eftir Ásdísi Egilsdóttur og Erlend Sveinsson um tiltölulega lítt þekkta en stórmerka kvikmynd Óskars Gíslasonar, Nýtt hlutverk. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir fjallar um íslenska raunveruleikaþætti í sjónvarpi og Gunnar Kristófersson um kvikmyndun lýðveldishátíðarinnar árið 1944. Þannig hafa kvikmyndir og sjónvarp öðlast þegnrétt í Andvara. Leiklistin er líka til umfjöllunar í grein Ingibjargar Þórisdóttur um Shakespeareþýðingar Matthíasar Jochumssonar. Þá eru myndabækur til umfjöllunar í grein Jóns Yngva Jóhannssonar um Láka jarðálf sem er sennilega hvergi frægari en á Íslandi mörgum áratugum eftir að bókin kom fyrst út.

Jóhannes Helgason skrifar áhugaverða grein um heimilisblaðið Hauk og er ef til vill kominn tími til að íslensk tímarit fari að gera íslenskri tímaritasögu skil á sínum síðum. Helga Kress gefur út dagbók Þorvalds Thoroddsen landfræðings sem finna má í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Margt áður óútgefið efni hefur einmitt komið út í tímaritinu seinustu ár. Í grein um lítt þekkt ódæðisverk úr seinni heimsstyrjöld vinnur Jökull Gíslason aftur á móti með dagbók lögreglunnar frá árinu 1942 en hefur einnig nýtt sér munnlegar heimildir. Heimir Pálsson fjallar um 13. aldar kvæðið Andvöku og heftinu lýkur á fjórum erindum frá afmælishátíð Hins íslenska þjóðvinafélags í fyrra. Eitt af þeim er eftir fv. forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson og mun vera í fyrsta sinn sem hann hefur verið beðinn um efni í Andvara!

Previous
Previous

Tveir skrifstofumenn sýna glærur í 95 mínútur

Next
Next

Morðóðir munaðarleysingjar