Morðóðir munaðarleysingjar
Í leit að gömlum úrvalsmyndum á Youtube í ársbyrjun rakst ég á alls konar drasl í leiðinni, ætla að hlífa ykkur lesendum við flestöllu en heiðarleikans vegna tek ég 1-2 til umfjöllunar. Ein var sjónvarpsmyndin „All the Kind Strangers“ sem mér finnst umfjöllunarverð vegna þess hve mjög hún brýtur gegn frásagnarlögmálum hrollvekjunnar, hún er s.s. hryllingsmynd sem lyktar vel þó að allt bendi til annars lengi vel. Stacy Keach leikur bílstjóra sem tekur upp barn sem ferðast á puttanum og fylgir því á afskekktan bóndabæ. Þar býr ekki aðeins drengurinn heldur einnig fimm systkini og kona sem hegðar sér eins og móðir þeirra en reynist þó ekki vera það. Brátt kemur í ljós að þessi munaðarlausu börn hafa ekki í hyggju að hleypa honum burt heldur hafa þau fyrir sið að ræna góðgjörnum fullorðnum og láta þau gegna hlutverki móður og föður um sinn. Ef þau fullorðnu neita, fá þau að fara burt – en í raun fara þau ekki neitt heldur „hverfa“.
Þetta er ágætt hryllingsmyndaplott og myndin þróast í fyrstu eins og maður á von á, Stacy og konan (leikin af Samönthu Eggar) eru stöðugt að reyna að sleppa en eru jafnan stöðvuð af elsta barninu, ljóshærðum dreng sem virðast hafa einstaka hæfileika til að birtast upp úr þurru hvar sem er og nýtur stuðnings grimmra hunda sem greinilega hafa verið þjálfaðir í að hleypa engum burt. Hin börnin eru þó ekki síður krípí, ekki síst drengur sem er leikinn af kvikmynda- og poppstjörnunni Robby Benson sem þótti mjög heitur á 8. áratugnum en er sennilega gleymdur flestum núna. Hann flytur einnig lög í myndinni en þó ekki í gervi persónunnar sem sérhæfir sig í að mjólka kýr og vera „unheimlich“.
Þetta er efnilegt en í stað þess að stefna að hefðbundnum tryllingi fjarar fléttan eiginlega út. Stacy nær að standa staðfastur á móti morðóðu munaðarleysingjunum og fimm yngri börnin gera að lokum uppreisn gegn ljóshærða harðstjóranum og leyfa „foreldrunum“ að fara en á móti lofa þau að kæra fjöldamorðingjana barnungu ekki til lögreglunnar. Eiginlega finnst manni þetta fremur skynsamlegt en er alveg þvert á hefðbundin gildi bandarísks afþreyingariðnaðar og samfélags yfirleitt þar sem hrottalegar refsingar þykja sjálfsagðar. Þó að ekki væri nema þess vegna er myndin nokkuð skemmtileg áhorfs.