Hver horfir reiður um öxl?

Stöku sinnum sé ég lista yfir 100 bestu bækurnar héðan og þaðan og eru þá stundum leikrit með í upptalningunni og veit ég þá ekki alltaf hvort ég á að segjast hafa lesið þá bók ef ég hef séð leikritið á sviði en ekkert lesið. Önnur leikrit hef ég beinlínis lesið á bók (t.d. Faust eftir Goethe og minna þekkt leikrit Ibsen) en aldrei séð á sviði og sum hef ég séð í kvikmyndaformi. Eitt af því sem ég er hvað öruggastur með að geta talið fram er „Hver er hræddur við Virginiu Woolf“ sem ég hef bæði lesið á bók, séð kvikmynd eftir leikritinu og að lokum séð leikritið á sviði í Borgarleikhúsinu. Þetta var eðli málsins samkvæmt þrenns konar lífsreynsla því að þegar las var hugur minn við orðin en í hin tvö skiptin manneskjurnar sem túlkuðu persónurnar. Myndin er sem kunnugt er svarthvít og sviðsmyndin raunsæisleg eins og enn má í kvikmyndum en raunsæislegar sviðsmyndir eru löngu útlægar úr leikhúsinu.

Ég var líka svo heppinn í enskutímum í MS að lesa „Horfðu reiður um öxl“ (e. Look Back in Anger) og „Pygmalion“ og hef séð bíómyndir um hvorttveggja en það fyrra á sviði, ekki Pygmalion en hins vegar söngleikinn sem byggður er á verkinu bæði á sviði og í bíó auk sjónvarpsmyndar með Peter O’Toole í aðalhlutverki. Hið skrifaða leikrit hefur ævinlega sinn kraft en vitaskuld eru leikrit hugsuð til flutnings á sviði og þar með finnst mér einna erfiðast að segjast hafa „lesið bókina“ ef mig vantar reynslu af flutningnum. Hilmir Snær Guðnason er þannig hluti af leikritum John Osborne og Edward Albee fyrir mér og eins Richard Burton sem lék sömu hlutverk í kvikmyndum. Of ungur er ég til að hafa séð Gunnar Eyjólfsson leika reiða unga manninn en veit þó að orðið „pusillanimous“ var þýtt sem „geðlurða“ því að mamma mundi enn eftir Gunnari frussa þetta orð upp úr sér og enska orðið vekur sannarlega eftirtekt í leikritinu.

Ég hef lítið séð Shakespeare á sviði nema á Íslandi þar sem leikstjórar virðast ævinlega hafa mikla þörf fyrir að drekkja leikskáldinu í eigin frumleika (stundum bókstaflega) og ef ég reyni að vera örlátur má segja að það heppnist vel í tíunda hvert skipti. Hins vegar las ég öll leikrit þess gamla á sínum tíma og hef séð ríflega 30 þeirra í eins konar sjónvarps- eða kvikmyndagerð, sum alloft. Þetta stafar annars vegar af því að fjölskyldan fór í sameiginlegt átaksverkefni að mennta sig í Shakespeare en hins vegar af söfnunaráráttu minni. Mér finnst í raun ekkert erfiðara að skilja Shakespeare en 20. aldar leikrit. Auðvitað er tungumálið erfiðara en hugmyndirnar iðulega aðeins einfaldari. Ég hef líklega aldrei náð að skilja reiða unga manninn hans Osborne (fólk sem er illa haldið af hrungremju á kannski auðveldara með það) og hafði alla samúð með fólkinu sem hann pönkaðist á. Eins eru Georg og Marta talsvert verkefni fyrir mig sem hef hvorki verið giftur í 20 ár, logið upp á mig börnum sem aldrei voru til né verið alkóhólisti. En góð finnst mér leikritin bæði tvö, í öllum gerðum.

Previous
Previous

Morðóðir munaðarleysingjar

Next
Next

Orðhagir hefnendur