Orðhagir hefnendur

Flestum börnum finnst meira gaman að lesa nýjar bækur en gamlar sem gerir foreldrum þeirra stundum gramt í geði því að þeir halda tryggð við eigin fortíðarbækur og vilja helst að smekkur barnanna líkist þeirra. Ég var sjálfur nánast alæta í lestri þannig að eftir að ég las nýju bækurnar kom stundum að eldri bókunum sem komu frá mömmu og pabba og ein þeirra var Svarta örin eftir Robert Louis Stevenson sem hafði komið út árið 1954 á Siglufirði en var upphaflega gefin út sem framhaldssaga í tímariti eins og algengt var, í fyrstu árið 1883 en kom út í bókarformi árið 1888. Gulleyjan eftir Stevenson hafði runnið léttilega ofan í mig, fyrst stytt útgáfa með myndum en að lokum sagan í fullri lengd. Öðru máli gegndi um Svörtu örina. Mig minnir að ég hafi byrjað nokkrum sinnum að lesa þessa skáldsögu frá dögum Rósastríðanna og sprungið oft á limminu áður en ég komst alla leið. Mér til afsökunar þótti sjálfum höfundinum hún erfið aflestrar en hann var ekki heldur aðdáandi sinnar eigin sögu Dr Jekyll and Mr Hyde. Við sögu í Svörtu örinni kemur m.a. Ríkarður 3. Englandskonungur sem er í réttu liði í bókinni þó að hann sé greinilega hörkutól. Það tók mig nokkrar tilraunir að komast að hans þætti.

Sagan gerist sem sagt á dögum Rósastríðanna (um 1470) þar sem stríðsgæfan flakkaði mjög á milli herja og eins skiptu sumir oft um lið. Síðar hafa höfundar eins og Philippa Gregory gert sér ágætan mat úr þessu efni og gagnrýnendur hafa líka endurmetið Svörtu örina, henni heldur í vil. Grundvallarfléttan er áhugaverð, Svarta örin eru hópur hefnara sem birtist snemma í bókinni og ætlar að drepa fjóra svikara, m.a. Sir Daniel, Sir Oliver, Hesta-Benna (sem heitir Bennett Hatch á frummálinu) og gamlan mann sem hét Appleyard á frummálinu en eitthvað allt annað í íslensku þýðingunni (Grímur ægir?). Þeim tókst ef ég man rétt aðeins að drepa einn af fjórum eftir fyrsta drápið í sögubyrjun og fléttan fer fljótlega um víðan völl en lýkur þó með hefndinni.

Eftir því sem bókinni vindur fram verður áherslan á kynni ungu hetjunnar og stráks sem honum fyrst frekar veimiltítulegur en reynist vera stúlka í dulargervi og þegar það er komið á daginn fella þau hugi saman. Á slíkum efnum hafði maður lítinn áhuga á sínum tíma og Stevenson sjálfur gætti þess að hafa ekkert slíkt efni í Gulleyjunni þar sem aðalpersónan kynnist engri stúlku — á þessum tíma máttu þær helst ekki birtast í bókum án þess að ástin kviknaði en klæðskiptin í bókinni gerðu hana þó ögn óvenjulega.

Mig minnir að hefnararnir hafi komið skilaboðum sínum á framfæri með vísum og gátum sem mér hefur alltaf þótt vel til fundið og hef reynt að vísa til þeirrar hefðar í eigin barnabókum..

Previous
Previous

Hver horfir reiður um öxl?

Next
Next

Gloria Mundy reynist sígild