Gloria Mundy reynist sígild
Í nýlegu skammvinnu þunglyndiskasti leitaði ég uppi kvikmyndina Foul Play (sem var sýnd sem Ljótur leikur á Íslandi um 1980) í von um að hún væri jafn fyndin og mig minnti en fjölskyldan horfði saman á hana á videóöldinni fyrir 30 árum eða svo. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ýmis gömul fyndni reynist ekki eldast vel og kom það á daginn þegar ég 28 ára sá aftur „Kappaksturinn mikla“ með Jack Lemmon og fleirum sem mér fannst 11 ára að væri ein af fimm bestu myndum í heimi. Í stuttu máli er hún það ekki en ég skil s.s. ellefu ára mig sem fannst fyndið þegar eitthvað sprakk eða einhver datt á rassinn.
Síðan ég sá Foul Play í æsku hef ég tekið þátt í rannsóknum í fötlunarfræðum og hafði eðlilega áhyggjur af fléttunni sem er sú að í myndinni er maður drepinn og nær að kreista upp úr sér fyrir dauðann setningunni „Varastu dverginn“ sem leiðir til þess að söguhetjan Gloria Mundy (ég sá ekki húmorinn í nafninu fyrr en núna) ræðst nokkru síðar á alsaklausan dverg sem reynist vera heldur ágengur biblíusölumaður (en „dvergurinn“ sem átti að varast er venjulega hár maður).
En í Foul Play er ekkert grín beinlínis á kostnað dverga, myndin eldist líka vel hvað varðar hraða og léttleika og verður jafnvel heldur fyndnari með tímanum. Fléttan er innblásin af verkum Alfred Hitchcock, Goldie Hawn er dásamlega skemmtileg og sympatísk söguhetja og í myndinni er krökkt af aukapersónum sem eru hver annarri fyndnari, allt frá ævagömlum kerlingum sem skrafla með heldur ófögrum orðum til japanskra hjóna sem eru aðdáendur leynilögreglumannsins Kojaks sem margir muna eftir frá 8. áratugnum. Að ógleymdri vinnufélaganum Stellu sem er sérfræðingur í sjálfsvörn og býr yfir góðu safni sjálfsvarnartóla.
Á móti Goldie leikur Chevy Chase sem mér fannst ekkert sérlega fyndinn þá og ekki heldur núna en á hinn bóginn verður að viðurkenndast að árið 1978 var sennilega nýstárlegt að hafa unga glæsilega karlhetju sem jafnframt er klaufabárður og sídettandi um allt. Ég hafði líka nokkrar áhyggjur af hvernig senan um kynóða einhleypa manninn sem Dudley Moore leikur eltist í ljósi MeToo en þetta var helsta hlutverk þessa ágæta leikara á þessum tíma og varð að lokum þreytt en í þessari bíómynd er hann ennþá drepfyndinn (og kannski er hún ástæðan fyrir að hann festist í hlutverkinu). Goldie biður s.s. ókunnan mann aðstoðar gegn bófunum sem er að elta hana en hann misskilur allt og verður æ sannfærðari um að kynlíf sé framundan, reynist líka býsna vel undirbúinn heima með ýmis tól og tæki sem fara alveg framhjá Gloriu sem er enn að varast „dverginn“ en jafnframt fljótur að bakka þegar misskilningurinn er afhjúpaður.
Það gæti farið í taugarnar á einhverjum sem er minna leiður á „aðgerðasinnum“ og ég að bófarnir í myndinni eru einmitt slíkir en ekki er hægt að setja út á hraðann í myndinni, leikinn eða góðlátlegu gleðina sem svífur yfir öllu. Ég er alinn upp við að eltingarleikir séu fyndnastir af öllu og þessi mynd skilar nokkrum slíkum auk fleygra tilbrigða við aðvörunarorðin á borð við „Look out for the elf“. Í stuttu máli er óhætt að mæla með henni sem þunglyndismeðali. Sumt grín eldist vel.