Úr kápumyndasögu

Árið 1997 gaf ég út mína fyrstu bók og fann m.a. mynd á kápuna sem segir mér og öðrum kannski að ég er ekki aðeins maður orðsins heldur líka myndarinnar (teikning var alltaf eftirlætisfagið mitt í barnaskóla) og hefði kannski átt að leggja meiri rækt við myndlistina í lífinu. Hvað um það hef ég alltaf haft skoðun á kápumyndum og hef lagt til hugmyndir í margar þeirra sem reynast iðulega þær bestu. Fyrsta kápan var fagurhönnuð af Öldu Lóu Leifsdóttur sem nýtti sér miðaldamynd af Ottó 3. Þýskalandskeisara sem ég hef lengi haft dálæti á. Hann varð aðeins 22 ára gamall og andaðist árið 1002.

Þegar næsta bók kom út fimm árum síðar tók ég jafnvel enn meiri þátt í kápuhönnuninni en Þorfinnur Skúlason var meistarinn á bak við hana. Hann setti á kápuna ágæta íslenska kind en í bakgrunni var Niðarósdómkirkja. Líkt og fyrsta kápumyndin segir kápan skynugum lesendum um hvað bókin er. Sú fyrsta fjallaði um hugmyndir Íslendinga á 13. öld um konungsvaldið en sú næsta um hugmyndir þeirra um sjálfa sig í stórum heimi. Þriðja kápumyndin kom ekki frá mér; sú bók var gefin út hjá Forlaginu, fjallaði um Tolkien og ekki var mögulegt vegna kostnaðar að nýta neitt myndefni úr vinsælu kvikmyndunum sem þá voru í algleymingi. Hins vegar gerði Anna Cynthia Leplar (gamli teiknikennarinn minn) mjög fallega kápu þar sem mynd úr enskri sveit var í aðalhlutverki og féll stórvel að efninu.

Árið 2008 gaf ég út mína fyrstu skáldsögu og kápumyndin á henni var ekki heldur frá mér en var samt mjög falleg og þar var í forgrunni fossinn Dynjandi sem eitt sinn var í eigu aðalpersónu skáldsögunnar. Þegar kom að Illa fengnum miði fékk ég hins vegar að nota mynd úr gömlu edduhandriti sem skýrir að einhverju leyti hið torkennilega nafn bókarinnar. Hinn illa fengni mjöður er skáldskapurinn sjálfur og bókin sem er inngangsrit fyrir háskólanema gerir því skóna að um miðaldabókmenntir megi mikið fræðast með því að nota aðferðir frásagnarfræðinnar.

Árið 2011 kom út skáldsagan Glæsir og á henni var kápumynd sem Alexandra Buhl útfærði frábærlega en hugmyndin var raunar frá mér, á lesandann mænir illúðlegur nautgripur sem hann ef til vill langar ekki til að horfast í augu við en þarf að gera í þessari bók. Síðan þá hef ég lagt til hugmyndir í sumar kápumyndir en aðrar ekki. Kannski vek ég upp teiknarann í mér og hanna eina sjálfur að lokum.

Previous
Previous

Gloria Mundy reynist sígild

Next
Next

Kynóðar kennslukonur