Kynóðar kennslukonur

Sjónvarpsþátturinn A Teacher fjallar um fyrirbæri sem er frekar sjaldgæft í raunheimum en þeim mun algengara í bíómyndum: fullorðna kennslukonu sem sefur hjá nemanda sínum og leggur líf sitt og annarra í rúst. Nokkur raunveruleg dæmi eru til en þau leiddu alls ekki öll til ófarnaðar, í sumum tilvikum giftust konan og táningurinn og t.d. Frakklandsforseti er enn giftur fv. kennara sínum úr gaggó sem er 25 árum eldri. Maður veltir fyrir sér hvers vegna afþreyingariðnaðurinn er svona upptekinn af þessu þema þegar það er sennilega hundraðfalt algengara að karlkyns kennarar sofi hjá kvenkyns nemendum. Er kannski enn einu sinni verið að hengja bakara fyrir smið og konu fyrir karl?

Fyrri hluti þáttanna er þó ágætlega saminn og áhugaverður áhorfs. Kennarinn er leikinn af Kate Mara úr House of Cards (systur Rooney Mara) og nemandinn af Nick Robinson úr Júraheiminum. Hann er augljóslega 25 ára en ekki 17-18 og gnæfir yfir Kate sem hefur auðvitað þau áhrif að það er erfitt að sjá nokkurn raunverulegan glæp í uppsiglingu — í sumum raunverulegu dæmunum gerði 13 ára strákur 34 ára konu ólétta. Eins hef ég takmarkaða samúð með honum Nick í lokin þegar hann heldur því fram að hún hafi verið gerandi en hann þolandi og með því að fara yfir mörk kennara og nemanda hafi hún eyðilagt líf hans. Þetta er auðvitað rammað inn af in loco parentis hugmyndafræðinni sem er meira áberandi í Bandaríkjunum en á Íslandi; líka af amerískum skilgreiningum um valdastöðu þar sem kennari hlýtur alltaf að vera valdaaðilinn, jafnvel þótt hún væri einstæð móðir og nemandinn sonur Donalds Trump. En það sem sýnt er í þættinum er samdráttur með fullri vitund og samþykki beggja sem ungi maðurinn ákveður í lokin að hafi verið „manipulation“ en við sjáum ekkert slíkt heldur er hann sýnu æstari í sambandið. Konan er vissulega í óhamingjusömu hjónabandi og þar að auki á hún erfiða fortíð en ekki verður séð að hún njóti aldursins eða þroskans heldur er hér frekar á ferð bandarísk hugmyndafræði um valdastöðu sem nær ekki utan um æ ákafari tilraunir hins kapítalíska samfélags til að breyta flestum kennurum í tiltölulega lausráðna þjóna foreldranna.

Öllu verra er þó líklega að þátturinn sýnir eitt en pakkar því inn í ramma með gagnstæðum skilaboðum; þannig virkar formið ekki best. Til samanburðar má nefna norrænu myndina Dronningen þar sem slík tök fullorðnar konu á stjúpsyni eru sýnd á áhrifamikinn hátt en engar ræður haldnar yfir áhorfendum.

Fyrir utan þessa predikunarþörf og þá staðreynd að þátturinn er rammaður inn af viðvörunum og neyðarlínunúmerum sem á væntanlega að vera frekar billegt svar afþreyingariðnaðarins við ásökunum um að hann geri sögur úr mannlegri neyð er þátturinn nokkuð góður. Nick Robinson hefur mikinn sjarma og Kate Mara skilar því vel hve ráðvillt hún er sem kennari. Hún gerir að lokum það mikla og óskiljanlega axarskaft að segja samkennara sínum frá öllu saman og lendir því í fangelsi en hefði líklega annars sloppið frá þessu. Síðan er parinu fylgt hvoru í sínu lagi næstu tíu ár en það er veikasti og minnst sannfærandi hluti þáttarins. Bæði eiga mjög erfitt með að fóta sig eftir hneykslið og það er sett upp sem lögmál en átti raunar alls ekki við í raunverulegu dæmunum sem sagan er innblásin af (iðulega héldu samböndin áfram eftir skólaárin og stundum alla ævi) og kannski hæpið að fella slíka dóma þó að athæfi kennarans sé óneitanlega ófaglegt og heimskulegt.

Nú fjallar bíómyndin Notes on a Scandal um sama efni frá sjónarhorni kollegans sem ljóstar upp um elskhugana og þar er sagan áleitnari og trúverðugri, meðal annars vegna þess að drengurinn er leikinn af dreng en jafnvel þar er sambandið með augljósu samþykki beggja, drengurinn mun fljótari að jafna sig en konan en henni er refsað með útskúfun. Ekkert af þessu er áberandi í öllum sögunum um kvenkyns nemendur sem eltust við karlkyns prófessora. Það virðist einhvern veginn ekki sami áhugi á að refsa gömlu folunum en vitaskuld er ekki nýtt að siðferðisreglum sé beitt á handahófskenndan hátt.

Previous
Previous

Úr kápumyndasögu

Next
Next

Brjóstamjólk meyjar