Brjóstamjólk meyjar
Árið 1146 varð heilagur Bernharður frá Clairvaux, forsprakki Cistersíanareglunnar, fyrir kraftaverki og fékk að njóta brjóstamjólkur hinnar heilögu Maríu Guðsmóður en óvíst er í hvaða tilgangi (hugsanlega vegna augnsýkingar). Þetta varð að vinsælu viðfangsefni málara öldum saman, kallað Lactatio Bernardi. Þetta var ekki síst á þeim tíma sem fyrirferð Maríu meyjar fór vaxandi í helgihaldi en fyrirferð hennar (og hugsanlega kvenlægni trúarbragðanna) var eitt af því sem mótmælendur höfnuðu á 16. öld. Í listaverkum er hin heilaga mær iðulega að sprauta mjólkinni í munn dýrlingsins en Jesúbarnið er með og horfir syfjulegt á móður sína.
Auðvitað verður þetta flókna myndefni ekki afgreitt í einu stuttu bloggi en eins og annað efni á síðunni er þetta fremur hungurvaka þeirra sem vilja lesa sér meira til um málið. En sagt var að viska heilags Bernharðs hefði aukist mikið við brjóstagjöfina (eins gott að hann breyttist ekki alfarið í ungabarn) sem var líka vísbending um að María teldi sig einnig móður hans og jafnvel alls mannkyns. Hinn heilagi munkur er yfirleitt stóískur á myndunum, stundum á fjórum fótum í bæn en opinmynntur til að vökvinn nái að sprautast allur upp í trantinn. María sjálf er oftast með hinn milda og móðurlega svip sem miðaldamenn hrifust af og afar siðleg að sjá fyrir utan hið eina nakta brjóst.
Það sem ef til vill vekur mesta athygli er hve langdræg hin heilaga mær er, hún virðist geta kreist þvílíkar bunur úr brjóstinu að fáir gætu kastað vatni svo langt. Mið hennar upp í munn dýrlingsins virðist líka vera einstaklega gott. En ágætt dæmi eru þessar myndir um að margt sem einu sinni þótti háheilagt virðist núna svolítið einkennilegt og jafnvel pervers þegar hið háleita guðfræðilega samhengi er okkur ekki lengur efst í huga.
Það á til að mynda við um þá síðmiðaldasiðvenju að teikna Krist eins og gamlan karl (jafnvel með blettaskalla) á brjósti móður sinnar, fremur óhugnanlegt fyrir okkur sem þekkjum þjóðsöguna „Átján barna faðir í Álfheimum“ (en pabbi minn kallaði sig raunar stundum fjögurra barna föður í Álfheimum enda bjuggum við þar). Guðfræðin á bak við það er vitaskuld sú að Jesús var ekkert venjulegt barn heldur Guð sjálfur og var alls ekki nýfæddur í raun heldur hafði verið til frá upphafi tímans. Nú löngu síðar finnst manni þetta stundum fráhrindandi en forsendurnar voru skýrar á sínum tíma.
Eflaust verður list nútímans ekki síður einkennileg með tímanum (er það jafnvel nú þegar) og ýmsar kreddur nútímans munu að lokum þykja jafn furðulegar. Þetta þarf nútímamaðurinn að hafa í huga þegar hann fussar og sveiar yfir fortíðinni.