Fáfarinn Stígur

Nýlega „uppgötvaðist“ á ný sovésk sjónvarpsuppfærsla af Hringadróttinssögu Tolkiens (1991) sem heitir Khraniteli og er nú í heild sinni á Þúskjá. Mikið hefur verið hlegið að þessum þætti og sjálfur horfði ég á hann sem grín en að lokum gat ég ekki annað en horft bergnuminn á allan þáttinn og þó að vissulega sé hann hvorki til fyrirmyndar varðandi tæknibrellur og margar túlkanir undarlegar finnst mér hann samt sem áður vera áhugavert listaverk, einkum í ljósi þess að allt er þar með öðrum brag en í hinum vinsælu kvikmyndum (sem eru undir meiri áhrifum en oftast er viðurkennt frá eldri teiknimynd Ralph Bakshi) og því sýnir sovéska útgáfan okkur að ekkert er sjálfsagt við útlit persóna Hringadróttinssögu og margt er hægt að útfæra öðruvísi en Peter Jackson gerði. Áherslurnar eru satt að segja ótrúlega ólíkar, mikil áhersla er á hið epíska, nútímapopp fær sitt og fyrri hluti fyrsta bindis sögunnar fær heldur meira pláss en sá seinni.

Í sögunni kemur skýrt fram að Aragorn sé fremur ótrýnilegur en allir kvikmyndagerðarmenn hunsa það. Þó að Viggo Mortensen líti vissulega út eins og sjampó sé honum framandi er hann myndarmaður og hið sama á við um sovéska Aragorn sem sjá má hér að ofan. Legolas er aftur á móti leikinn af konu og raunar hefur sovéski leikstjórinn Natalia Serebrjakova gert sitt besta til að draga fram konur sögunnar sem ef til vill skiptir máli fyrir aðhlátur og fordæmingu netsins. Þannig eru Tumi Bumbaldi og dóttir hans persónur í þessari mynd en þeim hefur verið sleppt í öðrum aðlögunum. Galadríel er auðvitað á sínum stað og Lóbelía Skjóðu-Baggi er auk heldur persóna í myndinni og raunar Tolkien sjálfur líka, þ.e. í upphafi myndarinnar er pípureykjandi sögumaður sem talar mjög hægt og virðulega. Áhersla á hraða og spennu er lítil, t.d. sjást svörtu riddararnir aðeins í fjarska og yfirleitt undir dynjandi sovésku gæðapoppi frá 9. áratugnum sem er kannski ekki sérlega óhugnanlegt.

Nú er ég ekki mjög fróður um sovéska menningu og auk heldur ekki rússneskumælandi; hef því örugglega misst af ýmsum vísunum en drjúgur hluti myndarinnar er svolítið eins og langt sýrutripp og einnig má sjá mun skýrari þjóðsagna- og þjóðfræðiáhrif í þessari gerð en öðrum en það er kannski ekki svo fjarri lagi. Gollum sjálfur líkist einna helst salatmanninum ógurlega og virðist ansi einkennilegt en þó skemmtilega öðruvísi en sú mynd hans sem nú er orðin hefðbundin.

Því miður fékk Serebrjakova ekki að ljúka sögunni en það væri gaman að sjá fleiri sjónvarpsuppfærslur og kvikmyndauppfærslur af sögum Tolkiens (í heild eða köflum) þar sem myndasmiðir eru frjálsari undan fyrirrennurum sínum og túlka söguna á eigin hátt, steiktan eður ei.

Previous
Previous

Brjóstamjólk meyjar

Next
Next

Kettir og réttlæti