Kettir og réttlæti

Sumarið 2008 var ég staddur í Bretlandi þegar sjónvarpsþátturinn Criminal Justice var frumsýndur (sá hann á risaskjá á hótelbar þar sem ég var að spjalla við vini) en þar lék stórleikarinn Ben Whishaw ungan leigubílstjórason sem lenti í vandræðum og að lokum í fangelsi. Mjög illa var farið með Ben í þessum þætti sem var bæði grípandi og æsispennandi. Nokkrum árum síðar endurgerðu Bandaríkjamenn þáttinn undir heitinu The Night Of (2016) og sóttu þó aðalleikarann Riz Ahmed yfir pollinn. Hann hefur aldrei orðið á vegi mínum en um daginn fann ég þáttinn allan loksins eftir nokkra leit, bjóst við miklu og hann olli ekki vonbrigðum. Handritið er haganlega gert og æsispennandi mestan part og einnig skiptir máli að Riz er lítill eftirbátur Bens í leik og hefur svipaða útgeislun hins hrædda dádýrs í fyrstu þáttunum. Aðallega eru það þó leikararnir sem leika lögreglumennina og lögfræðingana sem standa sig enn betur en í breska þættinum. Þar sem réttarkerfin eru ekki eins og fangelsin ekki heldur er líka talsverður annar munur á þáttunum en báðir standa fyrir sínu.

Mestu munar um John Turturro sem leikur ólánlegan lögfræðing sem fær þá skyndihugdettu að taka unga manninn að sér. Turturro hefur feykilega mikinn „pondus“ sem leikari og yfirskyggir alla aðra í þættinum, jafnvel Riz. Persóna hans glímir við exem sem er greinilega heldur alvarlegra en það sem við hin höfum fengið. Ekki skánar það þegar hann leitar til skottulækna. Í þættinum er einnig saksóknari nokkur sem leikin er af Jeannie Berlin sem ég var nýbúinn að sjá kornunga í The Hearbreak Kid (sjá nýlega grein) og þó að hún sé þannig séð höfuðandstæðingurinn í þættinum dregur Berlin eftirminnilega fram mennskuna í persónunni. Bill Camp stendur sig líka vel í hlutverki lögreglumanns sem telur sig hafa leyst málið en getur þó ekki hætt að hnýta lausa enda og verður það að lokum aðalpersónunni til bjargar.

Í þættinum er líka Michael K. Williams úr The Wire sem verður verndari unga mannsins í fangelsi en Pete Postlethwaite var í svipuðu hlutverki í breska þættinum. Amerísku fangelsin eru þó greinilega heldur varasamari en þau bresku og kannski klisjukenndari en hvað veit ég sem aldrei hef setið í fangelsi? Það er sameiginlegt báðum þáttunum að hinn saklausi ungi maður (en raunar er sakleysi hans ekki hafið yfir allan efa) er svo grátt leikinn af fangavistinni að hann verður aldrei samur en sá bandaríski er þó leiddur mun lengra á ofbeldis- og glæpabrautina með tilheyrandi húðflúri, hárleysi og fíkniefnaneyslu. Fyrir vikið er ekki hægt að segja að hinn góði endir þáttarins sé í raun góður endir – það á raunar einnig við um enska þáttinn en er aðeins óljósara þar.

Ein eftirminnilegasta persóna þáttanna er köttur (sjá að ofan) sem lögfræðingurinn tekur að sér þótt hann sé með kattaofnæmi. Þeir skilja þó en ná aftur saman að lokum sem er því miður heldur mikil óskhyggja því að slæmt kattaofnæmi læknast ekki af sjálfu sér og þótt fólk virðist hafa mismikið ofnæmi fyrir mismunandi köttum mun sami köttur ekki fara betur ofan í það nokkrum vikum síðar. Allt er þetta þó til þess að draga fram andstæður milli mennsku og ómennsku í hrottalegum heimi þar sem þó er til gæska.

Previous
Previous

Fáfarinn Stígur

Next
Next

Hermann Hesse og Woodstock í vestrinu