Hermann Hesse og Woodstock í vestrinu

Kvikmyndin Zachariah (1971) fékk að fljóta með verðlaunamyndunum af því að ég fann hana á youtube þó að hún fengi engin verðlaun á sínum tíma, tapaði peningum og er líklega flestum gleymd núorðið og kölluð „költmynd“. Ég frétti af tilvist hennar hjá aðdáanda og er nú búinn að horfa. Mín niðurstaða er að myndin er ekki beinlínis góð en þeim mun áhugaverðari og ég væri jafnvel til í að sjá hana aftur. Hún er paródía á þá amerískustu allra bíótegunda vestrann en um leið rokkmynd þar sem fram koma margar hljómsveitir sem þá voru ofarlega á baugi: Country Joe and the Fish, The James Gang, White Lightnin’ og The New York Rock Ensemble. Þá fyrstnefndu kannaðist ég við en þurfti að lesa mér til um hinar. Þar að auki er myndin frjálsleg aðlögun Siddharta (1922) eftir Hermann Hesse og hún var á sínum tíma fordæmd fyrir opinskáa hómóerótík sem annars sást aðeins í myndum Andy Warhol.

Handritið var víst endurskrifað í drasl en upphaflegi höfundurinn fékk hugmyndina þegar hann var á trippi með Bítlunum í Indlandi og ætlaði að fá George Harrison til að semja tónlistina en fátt gekk eftir í framleiðslunni. Ef hægt er að tala um söguþráð í myndinni er hann sá að ungmennið Zachariah (leikinn af John Rubinstein) ákveður að gerast byssubrandur og leitar uppi vin sinn járnsmiðinn Matthew (leikinn af Don Johnson) og þeir lenda síðan í ýmsum ævintýrum áður en leiðir skiljast. Í lok myndarinnar finnast þeir aftur og berjast en að lokum ríður Zachariah út í sólarlagið og Matthew eltir hann.

Ævintýri þeirra félagana eru sundurlaus og frekar þreytandi, það eru einkum rokkstjörnur í kúrekagervi sem verða á vegi þeirra og metnaður þeirra snýst um að verða sannir byssubrandar. Vestrið er fullt af gengjum, konur finnast helst í hóruhúsum og allt er þetta frekar ómarkvisst uns Zachariah verður fyrir svipaðri hugljómun og George Harrison á sínum tíma, hafnar frægð byssubófans og gerist andlega sinnaður. Það er einmitt ástæða þess að Matthew leitar hann síðar uppi og vill fæting.

Eiginlega er Matthew áhugaverðari persóna en Zachariah vegna þess að hann gengur hinni eitruðu karlmennsku á hönd og getur aðeins tjáð ást sína á Zachariah með því að slást við hann og helst drepa. Sögulok myndarinnar fela þó í sér snúning og Matthew finnur heilbrigðari leið til að fá útrás. Þetta var vitaskuld allt saman feykilega skrítið og óvenjulegt árið 1971 og enn í dag. Myndin er fríkuð og engin „master class“ í handritaskrifum en sannarlega áhugaverð.

Previous
Previous

Kettir og réttlæti

Next
Next

Geðillir prófessorar