Geðillir prófessorar

Í janúar tókst mér að grafa upp kvikmyndina The Paper Chase (hét Skólalíf í Harvard þegar hún kom í íslensk bíóhús árið 1976) sem John Houseman hlaut óskarverðlaun fyrir en hann leikur persónu mér skylda, illvígan prófessor sem stúdentar bæði óttast og dást að (!). Náunginn heitir Kingsfield sem er örugglega táknrænt nafn, brosir aldrei og lærir ekki nöfn nemenda sinna sem eiga erfitt með að glíma við það hversu lítilmótlegir þeir eru í lífi prófessorsins þó að þeir séu höfuðpersónur eigin lífs. Þetta er engin spennumynd en áhugaverð og auðvitað ekki síst hinn mikli ógnvaldur Kingsfield sem myndin nær þó ekki að varpa neinu sérstöku ljósi á. Hann er og verður risavaxið óhöndlanlegt táknmið.

Houseman á sannarlega ekki í neinum vandræðum með að stela senunni þó að hann hafi ekki verið leikari fyrst og fremst heldur framleiðandi og leiklistarkennari. Aðalhlutverkið er í höndum Timothy Bottoms sem ég sá fyrir nokkrum árum í hinni frábæru kvikmynd The Last Picture Show (sem ég sá tiltölulega nýlega eftir að ég las bókina) og var líka í spennumyndinni um tívólísprengjumanninn sem ég ræddi í pistula fyrir nokkru. Bottoms var ekki lengur áberandi þegar ég fór að muna leikaranöfn en var greinilega í öllum myndum um hríð. Hann leikur lagastúdent sem hefur þráhyggjukenndan áhuga á Kingsfield og nær að lokum árangri en hefur áður lesið með fimm félögum sínum sem misvel fer fyrir. Einn þeirra reynir sjálfsvíg og hættir námi vegna þess að upp kemst að hann er aðeins minnugur en skortir analytíska greind.

Sá er þetta ritar var sannarlega aldrei lagadeildarstúdent en kannast þó við margt úr háskólamóralnum. Hann er þó býsna ólíkur í Harvard og Háskóla Íslands. Í fyrri skólanum prísa allir sig sæla að hafa komist inn, þrá athygli kennarans og telja sig á alheimstindi en fáum finnst neitt merkilegt að komast inn í Háskóla Íslands og sjaldan fá þeir sem þar starfa á tilfinningunni að námið sé það merkilegasta sem hent hefur nemendur. Sem betur fer eru heilbrigðar undantekningar frá þessu sem gera starfið heldur betra. Eins er það auðvitað liðin tíð á dögum sem enginn snobbar fyrir lærdómi og jafnvel í öllum heiminum að aumur kennari komist upp með að vera sá ógnvaldur sem Kingsfield er.

Hvaða afstöðu tekur myndin til alls þessa? Hún sýnir fremur en boðar og er haganlega upplýsandi enda byggð á ágætri skáldsögu eftir John Jay Osborn Jr. sem andaðist í fyrra en ég hef aldrei lesið. Osborn þessi samdi fjórar aðrar skáldsögur en einnig handrit að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Að lokum má geta þess að aðeins ein kona er áberandi í myndinni og aðalpersónan sefur hjá henni. Þetta þarf ekki að koma í óvart í 50 ára gamalli mynd en er þörf áminning um hversu mikil takmörk konum voru sett bæði í listum og samfélagi sem er tiltölulega nálægt okkur í tíma.

Previous
Previous

Hermann Hesse og Woodstock í vestrinu

Next
Next

Tilkall karla til kvenna — viðtökusaga