Tilkall karla til kvenna — viðtökusaga
Mamma sagði mér eitt sinn að hún og vinkona hennar hefðu gert þýskukennara sínum í menntaskóla gramt í geði með því að hafa ekki minnstu samúð með söguhetjunni í smásögunni Der kleine Herr Friedemann eftir Thomas Mann. Að sögn mömmu fjallaði sagan um kroppinbak sem girntist fallega stúlku sem hafnaði honum og fyrir vikið drekkti hann sér í gosbrunni. Bekknum var ætlað að standa með manngreyinu því að þannig var sögusamúðin á þeim tíma og fram á 21. öld: allt karlkyns átti rétt á ást fagurrar konu og árið 1957 trompaði það rétt kvenna til að vera látnar í friði. Þetta neituðu mamma og stalla hennar að viðurkenna og hlógu jafnvel tröllslega þegar Herr Friedemann drekkti sér í gosbrunninum. Kennarinn hafði líklega aldrei kynnst öðrum eins flögðum.
Rétt er að geta þess að ég fer með söguþráðinn eftir endurminningum mínum um frásögn mömmu sem einnig var eftir minni og geri mér grein fyrir að hér hefur margt skolast til og alls ekki er útilokað að smásaga Manns sem er raunar einn af mínum eftirlætishöfundum sé mun dýpri og fjölbreyttari en þetta þó að það hafi farið fram hjá reykvískum unglingsstúlkum seint á 6. áratugnum. Fyrst þegar ég heyrði söguna var ég líka örlítið á bandi þýskukennarans enda skildi ég þá ekki til fulls það hlutskipti að verða stöðugt fyrir hinu og þessu áreiti allra hugsanlegra karlmanna, allt frá tiltölulega meinlausum athugasemdum yfir í beinar árásir. Þetta var konum ætlað að búa við áratugum og öldum saman og þó að þær vinkonurnar í MR hafi e.t.v. ekki sýnt Mann nægilega sanngirni get ég ekki lengur annað en staðið með uppreisn þeirra gegn feðraveldinu.
Þó að þeim vinkonum hafi varla hugkvæmst það á sínum tíma mætti ef til vill gagnrýna söguna líka frá sjónarhorni fötlunarfræðinnar, þ.e. að Herr Friedemann sé gerður að aumkunarverðu fórnarlambi. Bent hefur verið á að fjölmiðlar fjalla enn iðulega um fatlað fólk með ámátlegri strengjatónlist og stundum verður innslagið jafnvel svarthvítt til að draga fram ömurðina. Eflaust er kryppa mannsins táknræn hjá Mann en annars get ég ekki ímyndað mér að sagan kæmi vel út úr fötlunarfræðigreiningu.
Auðvitað er til fólk sem vill alls ekki blanda slíkum sjónarmiðum inn í bókmenntatexta en ég er ekki þar á meðal. Þar með er ekki sagt að það hendi ekki stundum að góðir textar séu smættaðir með slíkum túlkunum en mín almenna afstaða er þó sú að vel hugsuð gagnrýni frá félagslegu sjónarmiði sé talsvert gagnleg. EIns og snjallir lesendur hafa þegar áttað sig á er þessi pistill minn líka alls ekki um smásögu Manns heldur um móður mína og vinkonu sem ungæðislega greinendur sagna sem lásu á móti því sem þeim var ætlað. Það gera sumir viðtakendur og er ekkert minni þáttur af verkunum en lesendur sem bregðast við nákvæmlega eins og höfundur vill helst. Þó að höfundarætlun sé mikilvæg er viðtakan hluti af sögunni og rýrir ekki hlut snillinga að velta viðtakendum listarinnar á ýmsum tímum meira fyrir sér. Ég vona að það hafi gert þýskukennaranum gagn að heyra hrossahláturinn og neyðast til að skýra fyrir sjálfum sér og öðrum hvers vegna sagan væri samt góð.