Ōe allur
Japanski Nóbelsverðlaunahafinn Kenzaburo Ōe er látinn og enn hef ég því miður enga bók lesið eftir hann, minnist þess ekki heldur að hann hafi verið þýddur á íslensku og hef sennilega óttast hann örlítið þar sem Ōe er ekki talinn auðveldur inngöngu. Þar sem ég hef tilnefningarrétt til bókmenntaverðlauna Nóbels ætti ég auðvitað að lesa alla sem þau hljóta, ekki síst þar sem einn helsti tilgangur þeirra er að kynna höfundana fyrir nýjum lesendum. Þegar ég renni yfir verðlaunahafa síðustu sextíu ára reynist ég ekki hafa lesið nema helminginn, þar á meðal reyndar Kawabata, og í flestum tilvikum aðeins eina bók eftir hvern. En það er ekki Sænsku akademíunni að kenna, hún hefur gert sitt til að kynna mig fyrir þessum höfundum.
Þegar ég les um Ōe núna staldra ég við nóvelluna セヴンティーン (Sautján) og framhald hennar Dauði stjórnmálaunglings en þær fjalla um Otoya Yamaguchi, 17 ára ungling sem réðst á sósíalistaleiðtogann Inejiro Asanuma í beinni sjónvarpsútsendingu í október 1960. Ég sá sjálfur mynd af þessu í danskri sögubók þegar ég var barn og hef mikið velt Yamaguchi fyrir mér þá og síðar. Síðar hengdi morðinginn sig í fangelsi og margir álitu hann píslarvott, m.a. hann sjálfur. Hann var dóttursonur þekkts þjóðernissinnaðs rithöfundar, faðir hans hafði barist í stríðinu og Yamaguchi var uppfullur af þjóðernisstefnu og aðdáun á Hirohito keisara. Ofbeldisverk Yamaguchi vakti aðdáun margra táninga á glundroðaárunum um 1960, fleiri tilræði fylgdu í kjölfarið og kannski var það þess vegna sem Ōe helgaði ódæðisverkinu tvær stuttar skáldsögur. Fyrir þetta varð hann hataður af hægrisinnum og meðal annars var eitt sinn ráðist á hann.
Á þessum tíma var Ōe þekktur og ekki síður umdeildur fyrir sögur með erótísku myndmáli um hernám Bandaríkjamanna í Japan. Þeir Yamaguchi voru þar á einu máli þó að ekki væri það fleira sem sameinaði þá. Úttekt hans á „hetjudáð“ unglingsins einkennist bæði af samúð og miskunnarlausri gagnrýni sem í hugum fylgismanna tilræðismannsins voru helgispjöll. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt í sömu mótmælum var Ōe eins fjarri Yamaguchi í öllum skoðunum og hægt var. Hann var alla ævi andstæðingur hernaðar og ekki síst kjarnorkuvopna og kjarnorku yfirleitt enda hafði kjarnorkuárásin á Japan djúpstæð áhrif á hans kynslóð. Eftir Nóbelsverðlaunin löngu síðar hafnaði Ōe orðu frá Japanskeisara enda mjög gagnrýninn á þátt keisaraættarinnar í stríðinu.
Annað sem vekur athygli við Ōe var hversu mjög hann glímir við föðurhlutverkið en hann eignaðist fatlaðan som sem heitir Hiraki og var umhugað að gefa syni sínum rödd í sínum eigin verkum. Óneitanlega er þetta forvitnilegt verkefni sem kann þó að orka tvímælis. Ég get ekki sagt meira um það fyrr en ég verð lesinn. Eitt eru allir sammála um: höfundarverk Ōe einkennist af djúpri alvöru, sjálfstæði og tilraunum til að takast á við flókin, erfið og jafnvel hættuleg málefni.